Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal alls ekki tala lengi í þessu máli, en ég mun hins vegar að sjálfsögðu áskilja mér rétt til að tala í því máli sem næst er á dagskrá. Mig langar til þess að skýra út eitt mál vegna þess að gætt hefur nokkurs misskilnings varðandi það í þjóðfélagsumræðunni. Sumir telja nefnilega að hæstv. ríkisstjórn hafi nú þegar numið úr gildi bannið við verkföllum í landinu. Þetta er auðvitað misskilningur því að þótt lagafrv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum hafi verið breytt eru sjálf bráðabirgðalögin í gildi allar götur þar til staðfestingarfrv. hefur verið samþykkt á Alþingi og orðið að lögum sem koma í stað bráðabirgðalaganna.
    Ég bendi á þetta vegna þess að hæstv. ríkisstjórn var í lófa lagið að gera þessar breytingar á frv. þegar hv. Alþingi kom saman skömmu eftir áramótin til að afgreiða fjárlög og fjalla um bráðabirgðalögin. Þá stóð svo á að hæstv. fjmrh. þurfti að fá heimild til að hækka brennivín og tóbak í landinu í því skyni að afla ríkissjóði meiri tekna. Slíkt ákvæði hafði verið sett inn í ákvæði frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum, reyndar ekki þetta frv. heldur 8. mál þingsins, og það lá þessi lifandis býsn á því að fá það mál afgreitt áður en þing færi heim í langt leyfi til þess að hæstv. ríkisstjórn gæti komið sér saman um efnahagsaðgerðir.
    Það undarlega gerðist samt að þessi heimild var ekki notuð og mér finnst ástæða til þess, annaðhvort við umræður um þetta mál eða við umræður um næsta mál sem verður hér á eftir, að hæstv. fjmrh. geri okkur grein fyrir því hvers vegna þessi lagaheimild var ekki notuð og hvaða þýðingu það hefur fyrir hækkun á þessum tilteknu vörum ef hækkunin dregst um nokkrar vikur eða jafnvel mánuði.
    Virðulegur forseti. Það er ljóst að frv. sem hér er til umræðu er að flestu leyti úrelt orðið. Þetta eru bráðabirgðalög frá því í maí að stofni til sem tóku síðan breytingum í haust um það leyti sem hæstv. núv. ríkisstjórn tók við völdum. Flestallt í þessu frv. er þegar úrelt orðið. Það er komið fram í febrúar og má segja að það skipti ekki neinu máli hver örlög þessa frv. verða úr þessu. Þó vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ástæðu til að gildistökuákvæðið í 12. gr. frv. sé enn þá 10. apríl, þ.e. takmörkunardagsetningin --- lögin tóku auðvitað gildi um leið og þau voru sett af bráðabirgðalöggjafanum --- að þau eigi að gilda til 10. apríl og hvort í raun og veru sé nokkur ástæða til þess efni málsins samkvæmt að lögin gildi til 10. apríl þegar ljóst er að langflest atriði frv. eru þegar úrelt orðin eða verða það á næstu vikum. Ég veit, virðulegur forseti, að það er mjög erfitt fyrir hæstv. forsrh. að koma hér oft í ræðustól. Hann kvartar stundum undan því sjálfur að þá sé hann að hefja umræður til þess að tefja fyrir málum, en ég veit að hann getur rætt þetta litla efnisatriði þegar hann tekur til máls og fylgir sínum eigin tillögum úr hlaði við umræður um næsta mál sem er 8. mál þingsins og er

jafnframt staðfestingarlög með bráðabirgðalögum sem hæstv. ríkisstjórn gaf út um það bil sem hún tók við völdum.