Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu, eins og kom fram hjá virðulegum forseta, að málið eigi að fara aftur til nefndar. Það er nauðsynlegt því að fram hafa komið brtt. frá forsrh. sem nefndin hlýtur auðvitað að þurfa að skoða, og mér er kunnugt um það að formaður nefndarinnar, hv. þm. Páll Pétursson, mun beita sér fyrir því, og jafnframt að kallaðir verði til fundar við nefndina þeir aðilar sem gerst þekkja til þeirra atriða sem brtt. hæstv. forsrh. lúta að. Ég vil þó í örstuttu máli fara nokkrum orðum um þessar tillögur.
    Fyrsta brtt. er við 3. gr., eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. Þar segir að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina geti keypt hlutdeildarskírteini hjá hlutafjársjóði Byggðastofnunar. Það er út af fyrir sig, ef menn eru að þessu á annað borð, skynsamleg ráðstöfun að opna þessa heimild fyrir Atvinnutryggingarsjóð hvað sem annars má um málið segja.
    Önnur brtt., sem kemur fram á þskj. 449 og hæstv. forsrh. lýsti, gerir ráð fyrir því að 6. gr. frv. breytist. Hér er um að ræða mál sem hefur talsvert verið deilt um í þjóðfélaginu, einkum og sér í lagi vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa ekki talið sig geta keypt, ekki talið sig geta átt viðskipti við Atvinnutryggingarsjóð með þeim hætti sem ætlunin var vegna þess að ríkið bæri ekki ábyrgð á sjóðnum með sama hætti og almennt er um talað þegar rætt er um ríkisábyrgð. Auðvitað er ríkisábyrgð nokkuð flókið hugtak. Í fyrsta lagi getur það verið bein ábyrgð ríkisins þannig að ábyrgð falli á ríkið ef um greiðslufall í tiltekið skipti er að ræða. Hins vegar er sú ábyrgð ríkisins sem er svokölluð eigandaábyrgð og þá fellur ábyrgðin á ríkið ef viðkomandi sjálfstæður aðili stendur ekki við lokaskuldbindingar sínar eftir að hann hefur verið gerður upp. Í þriðja lagi þekkist það hér á landi líka, annars vegar með sérstökum lögum um hlutafélög þar sem er um takmarkaða ábyrgð að ræða eða með ábyrgð, eins og ég hygg að hafi verið sett í lög um Útflutningstryggingarsjóð, að ríkið ber takmarkaða ábyrgð. Takmörkuð ábyrgð ríkisins --- skammstafað t.á.r. --- þekkist víða í nágrannalöndunum. Þar hefur með löggjöf verið hægt að takmarka ábyrgð ríkisins á aðilum þótt þeir séu að fullu og öllu í eigu ríkisins. Það er sams konar takmörkun og á sér stað í hlutafélögum sem eru eingöngu í eigu ríkisins, félögum með takmarkaða ábyrgð og er þá ábyrgðin bundin við eignir slíkra fyrirtækja og sjóða.
    Nú hefur komið í ljós að sú yfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar, sem gefin var fyrst í efri deild Alþingis, um að ekki væri ætlunin að ríkisábyrgð fylgdi Atvinnutryggingarsjóði, fær ekki staðist ef Atvinnutryggingarsjóður ætlar að ná þeim tilgangi sem stjórnvöld hafa stefnt að. Út af fyrir sig er ekkert um þetta að segja. Ég hef óskað eftir því sem þrautavaramaður í hv. fjh.- og viðskn. að fulltrúar bankakerfisins og lífeyrissjóðanna komi á fund nefndarinnar í fyrramálið til að segja álit sitt á þessu.
    Varðandi þriðju brtt. á þskj. 449, sem er við 8. gr.

frv., þá kemur þar fram að öll skjöl vegna útgáfu hlutdeildarskírteina og skuldaskjala vegna lána sem hlutabréfasjóður Byggðastofnunar kann að veita eða taka skuli undanþegin lántöku- og stimpilgjöldum.
    Þetta er út af fyrir sig góðra gjalda vert. En ég spyr, og kannski ekki síður hæstv. viðskrh., sem fer með málefni verðbréfafyrirtækja, verðbréfasjóða og annarra þeirra aðila sem annast viðskipti með hlutabréf: Finnst hæstv. ríkisstjórn það vera eðlilegt að gefnar séu undanþágur fyrir sjóð á borð við þennan þegar aðrir þurfa að borga veruleg stimpilgjöld af sams konar starfsemi? Finnst ekki hæstv. ríkisstjórn vera eðlilegra að lækka stimpilgjöld almennt í landinu til þess að örva viðskipti með hlutabréf og freista þess með frjálsum hætti að menn leggi hlutafé sitt fram, áhættufé í fyrirtækjum, án þess að það sé gert þannig að ríkisvaldið þurfi að taka háan skatt af þessu hverju sinni? Þetta er, eins og allir vita sem þessi mál þekkja, verulegt vandamál hér á landi. Ég skil að hæstv. ríkisstjórnin skynjar þetta og vill nú fá sérstaka lagaheimild fyrir hlutafjársjóðinn. En ég spyr: Hvers vegna á hlutafjársjóðurinn í þessum lögum að njóta forgangs? Hvaða lagaskilyrði eru fyrir því? Það fæ ég ekki skilið, hef ekki fengið svör við því og óska eftir því að viðkomandi hæstv. ráðherrar gefi hér skýrari svör við þeirri fyrirspurn.
    Í fjórðu brtt. á þskj. 449, sem hæstv. forsrh. fjallaði um hér í sinni ræðu, er sagt að til sjóðsins skuli einnig renna sérstaklega framlag ríkissjóðs ef Alþingi ákveður svo o.s.frv. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að lýsa því yfir að fjárveitingarvaldið skuli leggja fram fjármuni. Ég bendi hins vegar á að Alþingi er ávallt heimilt að leggja fram slíka fjármuni þótt það sé ekki lögmælt með þessum hætti. Það gerist margsinnis á fjárlögum á hverju ári að alls kyns greiðslur ganga til stofnana og sjóða þótt engin lög mæli fyrir um slíkt og maður hlýtur að spyrja: Hvernig stendur á því að það þarf að taka þetta fram hérna? Þýðir þetta það að ætlunin sé að leggja fram verulega fjármuni á fjárlögum næsta árs eða næstu ára? Ef svo er tel ég það vera eðlilegt að hæstv. forsrh. segi Alþingi frá því nú hvað hæstv. ríkisstjórn hefur í huga í þessum efnum.
    Virðulegur forseti. Hugmyndin um hlutafjársjóð er upprunnin hjá Kvennalistanum og brtt. varðandi þetta mál voru fluttar í efri og neðri deild af hv. þm. Kvennalistans og Sjálfstfl., hér í Nd. af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og Geir H. Haarde. Það er alveg ljóst samkvæmt tillögum þessara hv. þm. hvað er á seyði. Hér er verið að liðka til með tiltölulega svipuðum hætti og gert er almennt á hlutabréfamarkaðinum með hlutdeildarfyrirkomulagi. Nú hefur þessi hugmynd verið tekin og henni snúið rækilega við og ég vil að hæstv. forsrh., þegar hann hefur tíma til, fái að heyra það að ég gagnrýni harðlega að þessi hugmynd sé í síbylju kynnt sem hugmynd stjórnarandstöðunnar en síðan sé hún tekin og henni breytt með þeim hætti að hún er óþekkjanleg í framkvæmd ef það á að framkvæma hlutina eins og mér hefur skilist á þeim mönnum sem um þetta hafa

fjallað. Það var ekki upphafleg ætlun flm. þessarar tillögu að hlutafjársjóðurinn ætti að taka við þeim fyrirtækjum sem Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina vildi ekki líta við eða mátti ekki líta við. Slík framkvæmd drepur upprunalega hugmynd. Hér er ekki lengur um hlutafjársjóð að ræða eins og hugmyndin var í upphafi heldur hallærissjóð sem nú er ætlað það hlutverk að taka við þegar Atvinnutryggingarsjóður vill ekki eða getur ekki skuldbreytt vegna þess að fyrirtækin standa svo illa. Þetta þýðir m.ö.o. að áhugi allra annarra en þeirra sem nauðbeygðir eru til þess að kaupa hlutdeildarbréf í þessum sjóði mun hverfa. Enda hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að hann telji að þeir sem eigi að kaupa hlutdeildarbréf í þessum sjóði og leggja fram fé til hans sé ríkissjóður, sé Atvinnutryggingarsjóður, enda er verið að opna lagagreinina fyrir því með þessum tillögum hæstv. forsrh., síðan fjárfestingarsjóðirnir og bankarnir. Og af hverju skyldi þetta vera gert? Jú það er gert vegna þess að sumir þessara sjóða og banka mega ekki kaupa hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki sem þeir hafa lánað. Nú á að fara bakdyramegin að þessu. Nú eiga sjóðirnir að breyta í raun skuldum fyrirtækjanna í hlutdeildarbréf. Þetta er gert með þessari hringrás, að fara ekki framan að þessu heldur að fara inn bakdyramegin. Þessi hugsun, sem út af fyrir sig er skiljanleg því að auðvitað þurfa mörg fyrirtæki á hjálp að halda, er algjörlega út í bláinn með þessum sjóði eins og hann var upphaflega hugsaður.
    Ég skora á hæstv. forsrh. og ríkisstjórnina alla að endurskoða hug sinn og kanna hvort ekki sé hægt að fara aðrar leiðir fyrir þau fyrirtæki sem eru svo illa stödd að Atvinnutryggingarsjóður treystir sér ekki til þess að taka á málefnum þeirra. Auðvitað kemur gjaldþrot til greina, það er ein aðferðin, kannski sú harðasta og erfiðasta en getur þó leitt til upprisu fyrirtækjanna hvers á sínum stað. Það getur líka vel verið að ríkið verði að koma með beinum hætti til þess að liðka til og hjálpa byggðarlögum sem hafa farið illa út úr erfiðleikum í fiskvinnslu og útgerð á síðustu árum. Að nota þessa aðferð þýðir hins vegar ekkert annað en það að verið er að eyðileggja möguleika á frjálsum framlögum og frjálsri þátttöku í þessari starfsemi. Þetta óttast ég, hæstv. forsrh., og vara þess vegna við þessari hugmynd og vara enn fremur við því að nú á að láta þennan sjóð fá aukinn rétt miðað við aðra slíka aðila sem hafa annast milligöngu um hlutabréfakaup í fyrirtækjum. Ég vil jafnframt minna á það að sú var tíðin, hæstv. forsrh., að menn höfðu áhuga á því að örva hlutabréfakaup. Því miður hef ég ekki séð frá þessari hæstv. ríkisstjórn neitt sem bendir til þess að það eigi að gera slíkt á næstunni en vonandi stendur það til bóta.
    Ég vil enn fremur, hæstv. forsrh., óska eftir því að reglugerðardrög þau, sem nú liggja fyrir og hafa verið til umræðu hjá stjórnarflokkunum, verði lögð fram á fundi hv. fjh.- og viðskn. á morgun. Það er afar brýnt þegar verið er að fjalla um lög eins og þessi, sem að stórum hluta til eru háð framkvæmdinni sjálfri, að fá

að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst láta framkvæmdina vera í einstökum atriðum.
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta. Ég taldi mér skylt að ræða hér efnislega um þessa þætti málsins, eingöngu þá sem komu fram í brtt. forsrh. Ég hef sneitt hjá öllum öðrum atriðum frv., enda verður, og því hefur verið lýst yfir að mér skilst, fundur í hv. fjh.- og viðskn. á morgun.