Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að hverfa aðeins að fyrra dagskrármálinu. Ég hef verið að athuga þetta í sæti mínu og sé satt að segja ekki ástæðu til að breyta 12. gr., um gildistíma laganna. Ég bendi á að það eru greinar hér sem eru ekki bundnar við gildistíma, eins og t.d. 5. gr. og 6. gr., og ég held að það sé vissara að hafa þetta óbreytt þó að sjálfsögðu geti nefndin athugað þetta í fyrramálið því að mér skilst að það verði fundur þá.
    En síðan út af hlutafjársjóðnum. Ég biðst afsökunar á því ef ég hef misskilið hugmyndir stjórnarandstöðunnar um hlutafjársjóðinn. Mér finnst samt sem áður hugmyndin góð, en ég verð að vísa í 10. gr. þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hlutafjársjóði Byggðastofnunar er heimilt að kaupa hlutabréf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja.`` Og kaflinn fjallar allur um þessa fjárhagslegu endurskipulagningu fyrirtækja þannig að ég leit svo á að hlutafjársjóðnum væri þar með ætlað að starfa í tengslum við Atvinnutryggingarsjóðinn.
    Því miður var þannig ástatt að ég held að það séu afar fáir sem muni sækjast eftir hlutdeildarskírteinum í sjóðnum til þess að leggja í þessi fyrirtæki sem eru í fjárhagslegri endurskipulagningu því honum er ætlað að koma að þeim fyrirtækjum fyrst og fremst. Ég hef oft verið þeirri hugmynd hlynntur og talið hana skynsamlega að koma upp einhvers konar fyrirtæki á vegum ríkisins sem héldi þeim hlutabréfum eins og víða er gert um lönd. Mér var ekki ljóst að það félli undir þessa fjárhagslegu endurskipulagningu þó að ég væri sannarlega tilbúinn að skoða hvort við í framhaldinu gætum ekki breytt þessu í eitthvert slíkt fyrirtæki sem tæki þá við öðrum hlutabréfum sem eru í eigu ríkisins. (Gripið fram í.) Já, já, það er alveg hárrétt og ég hef talið það sem sagt athyglisvert.
    Hins vegar tel ég mjög mikla þörf fyrir slíka aðgerð sem hér er um að ræða í sambandi við þessa endurskipulagnigu sem Atvinnutryggingarsjóðurinn er með lykilhlutverk í, en er háður mjög miklum takmörkunum eins og allir vita. Honum er t.d. ekki heimilt að skuldbreyta hjá fyrirtækjum sem ekki eru talin hafa rekstrargrundvöll skv. 2. gr. laga og reglugerðar. Og það er einmitt í mörgum slíkum tilfellum sem aukning á eigin fé sem Atvinnutryggingarsjóðurinn getur heldur ekki sjálfur annast er mikilvæg og hlutafjársjóðurinn gæti annast. Ég óttast það að reglugerð sú sem verið er að vinna nú verði ekki tilbúin í fyrramálið, en það er alveg sjálfsagt að leggja hana hér inn í þingið. Hún gæti þegar málið kemur til Ed., vona ég, verið tilbúin. Staðreyndin er sú að það er verið að skoða hana nú á mörgum stöðum. T.d. hafa bankastjórar Landsbankans verið fengnir til að skoða hana. Framkvæmdastjóri Byggðastofnunar, formaður Atvinnutryggingarsjóðs og lögfræðingar síðan verið tilkvaddir. Og ég tek undir það að hún er alls ekki auðveld. Hún er satt að segja flókin og verður að skoða hana mjög vandlega. Við þau allra fyrstu drög

sem ég sá hef ég sjálfur margar athugasemdir, en ég ætla ekki að fara að rekja þær hér því að ég hygg að þetta muni breytast mjög, enda er ég ekki með reglugerðina hérna fyrir framan mig. En ég vil t.d. geta þess til að fyrirbyggja misskilning að í þessum fyrstu drögum er gert ráð fyrir því að hlutafjársjóðurinn geti ekki tekið þátt í að auka eigið fé fyrirtækja nema eiginfjárstaðan sé með öðrum aðgerðum orðin a.m.k. í núlli. Þetta tel ég rétt því að það eyðir þá þeim misskilningi að það eigi að fara að bjarga --- ja, ég sá í einhverju dagblaðinu --- Sambandi ísl. samvinnufélaga eða kannski væri stundum um SH að ræða, ég veit það ekki. Staðreyndin er sú að þau fyrirtæki sem verða líklega að fara í gegnum gjaldþrotameðferð munu flest hver lenda í eigu viðskiptabanka, Fiskveiðasjóðs og Byggðastofnunar. Aðrir munu tapa sínu fé þar, held ég, í langflestum tilfellum þar sem um slíkt verður að ræða. Og það er hárrétt, sem kom fram hjá hv. ræðumanni, að það verður í mörgum tilfellum mjög erfið ganga, afar erfið ganga.
    Ríkisstjórnin ákvað að biðja þær stofnanir sem eiga þarna hagsmuna að gæta að skoða þessi fyrirtæki. Ríkisstjórnin hefur engin afskipti haft af því og einkum hafa Landsbankinn, Fiskveiðasjóður og Byggðastofnun unnið það verk. Við höfum ekki beðið um skýrslur um þau mál, en mér er tjáð af forstjóra Byggðastofnunar að frá byggðalegu sjónarmiði megi telja að þarna séu svona 15--20 fyrirtæki sem eru máttarstoðir viðkomandi byggðarlaga og verði mjög erfitt að bjarga, en menn hafa þá litið til þessa hlutafjársjóðs. Vitanlega hafa komið fram aðrar hugmyndir eins og t.d. þær að koma upp skuldaskilasjóði. Bankarnir hafa lagt það til. Það er vitanlega gömul hugmynd. Hér hafa komið upp slíkir kreppulánasjóðir og þá er um það að ræða að slíkur sjóður fái umtalsvert opinbert fé og yfirtaki skuldir sem eru umfram eignir í mörgum tilfellum. Ég hef ekki treyst mér til að leggja það til. Ég held að það yrði æðimikil fjárhæð og er mjög erfitt að ákveða hvernig það yrði gert. En þess eru vitanlega fordæmi að þannig hafi verið tekið á málum þegar í mikið óefni hefur verið komið.
    Ég vil segja það að lokum að ég tel að málefni þessara fyrirtækja séu það alvarlegasta sem við okkur blasir og mun koma að því nánar í umræðu sem verður hér á fimmtudaginn um efnahagsaðgerðirnar. Ég tel að þessi 60--70 fyrirtæki í sjávarútvegi séu fyrir þjóðarbúið í heild málefni sem verður að skoða mjög vandlega og fyrir þau byggðarlög sem eiga hlut að máli úrslitaatriði.
    Ég get nefnt það hér að ég hef t.d. óskað eftir því við Byggðastofnun að metið verði fyrir mig hvernig afkoma sjávarútvegsins breyttist ef svona helmingur af þessum fyrirtækjum sem lökust eru væru ekki tekin með í mat á afkomu og þá er mér tjáð að afkoman batni um 2--3%. Þetta geri ég aðeins til að gera mér grein fyrir því hvað þetta þýddi og þá vakna spurningar. Er ekki að mörgu leyti skynsamlegt að reyna að bjarga þessum fyrirtækjum með öðru en t.d.

gengisfellingu? Er ekki skynsamlegt að reyna að lagfæra hjá þessum fyrirtækjum eftir öðrum leiðum? Það finnst mér að beri að skoða.
    Auk þess hef ég óskað eftir því að það verði skoðað hvort t.d. gengisfelling ein sér muni skapa rekstrargrundvöll fyrir þessi fyrirtæki. Mér er tjáð að svo sé ekki, alls ekki, jafnvel þótt hún yrði 20% og get ég nefnt dæmi um það. Hjá þessum fyrirtækjum er yfirleitt veltufjárstuðullinn langt fyrir neðan hálfan, hvað þá að það sé nokkurs staðar nálægt einum. M.ö.o. eru lausaskuldirnar svo gífurlega miklar. Um þetta mætti því halda langt mál og að öllum líkindum gefst tækifæri til þess á fimmtudaginn, en ég vona að nefndin geti tekið þetta til meðferðar og málið komi hér til afgreiðslu aftur á morgun, en ég skal leggja alla áherslu á a.m.k. að málið verði ekki afgreitt frá Alþingi án þess að reglugerðin hafi verið sýnd hér.