Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu lýtur að lögfestingu ákvæða um launavísitölu. Launavísitalan hefur verið reiknuð út, eins og fram hefur komið í máli hæstv. forsrh., í þeim tilgangi að fullnægja ákvæðum húsnæðislaga um greiðslujöfnun opinberra húsnæðislána, en lagastoð hefur fram til þessa skort um eiginlega launavísitölu.
    Í meginatriðum get ég tekið undir að nauðsynlegt og skynsamlegt er að festa þessa framkvæmd í sessi með löggjöf og mér sýnist að frv. sem hér liggur fyrir mæli fyrir um skynsamlegan lagaramma. Auðvitað er nauðsynlegt við meðferð málsins í nefndum og hér í umræðu að kanna sérstaklega einstök tæknileg atriði, eins og viðmiðunarpunkta, launaútreikninga, upphaf, lok mánaðar eða meðaltöl og önnur atriði af því tagi. Það breytir ekki þeirri meginstefnu sem frv. markar og þeirri augljósu þörf sem fyrir hendi er að setja hér sérstaka löggjöf.
    Hitt er svo annað mál að frv. tengist mjög, eins og kom reyndar fram í máli hæstv. forsrh., þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið með reglugerðarútgáfu og mæla fyrir um nýja lánskjaravísitölu. Sú ákvörðun og sú reglugerðarútgáfa hæstv. viðskrh. er táknræn um eitthvert mesta klúðurmál hæstv. ríkisstjórnar og þetta frv. tengist því beinlínis þessu mjög svo alvarlega klúðurmáli.
    Í ýmsum efnum skiptir það kannski ekki öllu máli hvað hæstv. ríkisstjórn aðhefst en hér er um að ræða þátt sem snertir mjög einn viðkvæmasta þátt efnahagsstarfseminnar, þ.e. fjármagnsmarkaðinn, lánastarfsemi og sparnaðinn í landinu. Engum vafa er undirorpið að þessi klúðurslega ákvörðun hefur þegar valdið verulegum óróa á fjármagnsmarkaðinum og ríkisstjórnin á nú yfir höfði sér mikil málaferli vegna þeirra ákvarðana sem teknar voru, fyrst og fremst vegna þess hvernig að ákvörðunum var staðið. Ég get alveg fallist á að álitamál sé hvernig setja eigi saman lánskjaravísitölu og að það geti verið fullkomið álitaefni að hafa hana launatengda að einhverju leyti. Það hefur bæði kosti og galla. Það sem er alvarlegt við framkvæmd málsins er fyrst og fremst hvernig að því var staðið.
    Það kemur fram í athugasemdum með frv., sem lagt var fram í byrjun þessa árs, að það tengist beinlínis fyrirætlunum hæstv. ríkisstjórnar um breytingu á lánskjaravísitölu. Í athugasemdunum segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði 6. gr. laga nr. 63/1985 eru því ófullnægjandi hvað snertir útreikning opinberrar launavísitölu sem fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í 39. gr. laga nr. 13/1979, um vísitölu, sem heimilt sé að miða verðtryggingu við. Því er hér flutt sérstakt frv. um launavísitölu sem fullnægi þessum skilyrðum.``
    Með alveg skýrum orðum er tekið fram í athugasemdum hæstv. forsrh. með þessu frv. að það hafi vantað og vanti reyndar enn lagastoð fyrir útreikning launavísitölu til þess að tengja megi launavísitöluna í lánskjaravísitöluna. Eigi að síður

gefur einn af ráðherrum hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh., út reglugerð um breytingu á lánskjaravísitölunni þrátt fyrir að hæstv. forsrh. hafi lagt fram frv. um þetta efni á Alþingi þar sem bein og glerhörð yfirlýsing er um að slík breyting sé óheimil fyrr en búið sé að setja lög þar um á Alþingi. Að vísu kom það fram í máli hæstv. fjmrh. í sjónvarpi á dögunum að þessi ríkisstjórn liti svo á og hefði til þess lögfræðilegt álit frá Seðlabankanum að óþarfi væri að setja lög. Það væri nóg fyrir þessa hæstv. ríkisstjórn að lýsa því yfir að hún ætlaði að setja lög til þess að gera lagagrundvöll fyrir ákvarðanir sínar. Ég hef þó ekki enn séð Seðlabankann gangast við þessu áliti og væri nauðsynlegt og a.m.k. fróðlegt að fá þetta álit Seðlabankans fram, helst í umræðunni eða a.m.k. í starfi hv. fjh.- og viðskn. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. beiti sér fyrir því að þetta álit Seðlabankans, sem hæstv. fjmrh. vitnaði til í sjónvarpi, um að það væri óþarfi að setja lög heldur væri nægjanlegt að lýsa því yfir að svo muni vera gert, verði lagt fram í deildinni. Það lýsir, eitt með öðru, vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar að hæstv. forsrh. segir í athugasemdum að ekki sé hægt að breyta lánskjaravísitölunni fyrr en búið sé að setja lög um launavísitölu og frv. með slíkri yfirlýsingu af hálfu hæstv. forsrh. hefur ekki fyrr verið lagt fram á Alþingi en hæstv. viðskrh. gefur út reglugerð þar sem lánskjaravísitölunni er breytt þvert ofan í yfirlýsingu hæstv. forsrh.
    Ég óskaði eftir því í byrjun janúarmánaðar að fá þau gögn sem ríkisstjórnin hafði fengið frá Seðlabankanum vegna þeirra umræðna sem átt höfðu sér stað um breytingu lánskjaravísitölunnar. Í áliti, sem bankastjórn Seðlabankans sendir viðskrh. um lánskjaravísitölu og skyld efni í tilefni af fyrirspurn ríkisstjórnarinnar til Seðlabankans, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ekki þykir ástæða til þess að vefengja að launavísitala gæti frá lagalegu sjónarmiði verið einn þáttur opinberrar lánskjaravísitölu ef hún er reiknuð í samræmi við viðunandi lagaheimild og uppfyllir þær gæðakröfur sem gera verður til opinberrar vísitölu.``
    M.ö.o.: Það er álit Seðlabankans þegar 3. nóv. að það þurfi að lögbinda útreikning launavísitölu áður en hún er tengd í lánskjaravísitölu, í fullu samræmi við yfirlýsingu hæstv. forsrh. í athugasemdum með frv. sem hér liggur fyrir. Þrátt fyrir þetta gefur hæstv. viðskrh. reglugerðina út. Síðan segir í áliti bankastjórnar Seðlabankans, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að launavísitala gæti orðið hluti af lánskjaravísitölu er því nauðsynlegt að sett verði lög um nýja, almenna launavísitölu er mældi með tryggilegum hætti og nægilega fljótt breytingar á launakostnaði á vinnueiningu.``
    Og áfram segir í nefndarálitinu: ,,Verði tekinn upp útreikningur slíkrar lánskjaravísitölu virðist lagalega ekkert því til fyrirstöðu að hún verði notuð við hlið þeirrar lánskjaravísitölu sem fyrir er,,, --- ég endurtek: við hlið þeirrar lánskjaravísitölu em fyrir er ---

,,þannig að Seðlabankinn auglýsi tvær lánskjaravísitölur sem samningsaðilar á lánamarkaðnum gætu valið um. Líklegt er að hin nýja vísitala verði talin henta betur í lánveitingum til launþega, einkum íbúðalánum þar sem samkvæmt henni mundi greiðslubyrði slíkra lána hreyfast í betra samræmi við greiðslugetu launþega en nú gerist.``
    Enn segir í álitinu: ,,Nú er hins vegar ljóst að í tillögum ríkisstjórnarinnar í máli þessu felst ekki eingöngu að tekin verði upp ný lánskjaravísitala við hlið hinnar sem fyrir er, heldur komi hin nýja vísitala að öllu leyti í stað hinnar fyrri, bæði í þeim lánssamningum sem fyrir eru, svo og í nýjum samningum. Það er hins vegar mjög mikið álitamál að hve miklu leyti unnt sé að breyta grundvelli núgildandi lánskjaravísitölu þannig að ekki verði raskað gildi þeirra lánssamninga sem gerðir hafa verið á grundvelli hennar.``
    Svo segir: ,,Það virðist þó eðlilegt að meta svigrúmið til breytinga þröngt þannig að sem minnst áhætta sé tekin varðandi hugsanlegar deilur um grundvöll lánssamninga sem gætu haft alvarlegar afleiðingar.`` M.ö.o.: Það er talið mögulegt að breyta lánskjaravísitölu en aðeins þröngt og alveg augljóst af þessu áliti Seðlabankans að hér er verið að tala um nýja vísitölu. Því að þar segir enn fremur: ,,Til þess að geta metið þessa stöðu sem best óskaði bankastjórn Seðlabankans eftir áliti úrskurðarnefndar skv. 44. gr. nefndra laga og er niðurstöðu hennar að finna á fskj. 1. Á grundvelli álits hennar og skoðana sérfræðinga bankans sjálfs á máli þessu telur bankastjórn Seðlabankans með öllu óráðlegt að breyta lánskjaravísitölunni með þeim hætti sem lagt hefur verið til og reyna að láta slíka breytingu gilda um eldri lánssamninga.``
    Og í niðurstöðu í fskj. 1, bréfi úrskurðarnefndarinnar, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það skoðun nefndarinnar að breyting á vægi hinna opinberu vísitalna í núverandi lánskjaravísitölu feli í sér upptöku nýrrar lánskjaravísitölu. Ljóst er að Seðlabankinn getur heimilað að verðtrygging sparifjár og lánsfjár miðist við ýmsar vísitölur svo fremi að gætt sé þess skilyrðis að um sé að ræða opinberar skráðar vísitölur eins og þær eru reiknaðar á hverjum tíma. Í þessu felst hins vegar ekki að mati nefndarinnar heimild til að skipta um vísitölur í verðtryggðum samningum og á sama hátt verður ekki séð að unnt sé með stjórnvaldsákvörðun að raska vægi verðvísitalna í núverandi lánskjaravísitölu.``
    Hér er um óyggjandi álit að ræða, bæði af hálfu Seðlabankans og þeirrar úrskurðarnefndar sem starfað hefur á grundvelli svokallaðra Ólafslaga þar sem ákvæði eru um lánskjaravísitöluna.
    Þrátt fyrir allt þetta tekur ríkisstjórnin ákvörðun sína og sennilega fæst ekki endanleg niðurstaða fyrr en öll sú röð dómsmála, sem hæstv. ríkisstjórn á nú yfir höfði sér, hefur fengið endanlega afgreiðslu á réttum vettvangi. En með þessu hefur hæstv. ríkisstjórn skapað alveg óþolandi óvissu á

fjármagnsmarkaðinum, bæði lántakendum og sparendum í þjóðfélaginu. Það er í meira lagi ámælisvert að standa þannig að verki. Allur aðdragandi málsins er líka á þessa lund. Ríkisstjórnin tók um það ákvörðun að gera þessa breytingu þegar hún kom til valda og ég ítreka það að efnislega tel ég að það komi alveg til álita og geti verið fullkomlega réttlætanlegt að hafa í gildi lánskjaravísitölu sem tengd er launum. En eins og fram hefur komið í þessum álitum er það í meira lagi vafasamt að breyta með reglugerð eldri lánssamningum þar sem kveðið er á um notkun annarrar vísitölu. Og það kemur jafnframt fram að það er í meira lagi vafasamt að unnt sé að taka upp lánskjaravísitölu af þessu tagi fyrr en Alþingi er búið að samþykkja lög um launavísitölu. Þarna eru tveir meginbrestir að því er varðar lagastoð fyrir þá ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn tók.
    Eftir því sem umræður mögnuðust um þessa ákvörðun virtist minna ætla að verða úr framkvæmdum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. ítrekaði að það væri meginstefna að hér yrði aðeins ein lánskjaravísitala. Hæstv. viðskrh. taldi hins vegar að það gæti verið mikið álitaefni að gefa fólkinu í landinu kost á fleiri en einni og jafnvel fleiri en tveimur vísitölum. Nokkrir stjórnarþingmenn virtust vera mjög ósáttir við ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar
um þá breytingu sem boðuð var og fluttu þess vegna sérstaka tillögu þess efnis að skipuð yrði nefnd til þess að gera tillögur um og athuga með nýja samsetningu vísitölunnar. Þessi tillaga getur því aðeins hafa verið flutt að stjórnarþingmennirnir hafi verið óánægðir með ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar. Nú er það spurning til hæstv. forsrh. hvort þessi óánægja sé enn fyrir hendi og hvort stjórnarliðið ætlar að samþykkja þessa tillögu og fela sérstakri nefnd að endurskoða þessa ákvörðun enn á ný. Og í ljósi þess klúðurs sem ákvarðanir ríkisstjórnarinnar bera vott um og þeirrar miklu óvissu sem ákvörðunin hefur valdið tel ég að eins og málum er komið geti það verið fullkomið álitaefni og spurning hvort það sé ekki rétt og nauðsynlegt að Alþingi kjósi sérstaka nefnd til að fara í þetta mál.
    Ég hélt því fram í umræðum fyrr á þessu þingi að tillaga stjórnarþingmannanna væri borin fram vegna þess að þeir treystu ekki hæstv. viðskrh. fyrir meðferð málsins og nú hefur ýmislegt komið í ljós sem staðfestir þetta. Það hefur verið gefin út reglugerð af hæstv. ráðherra um breytingu á vísitölunni þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. forsrh. um að það sé ekki hægt fyrr en búið er að samþykkja lög á Alþingi. Því þykir mér ýmislegt mæla með því að þessi nefnd verði sett á fót og vil nú inna ríkisstjórnina eftir því hvort tillaga stjórnarþingmannanna muni fá atfylgi stjórnarflokkanna og nefndin verði sett á laggirnar.
    Þá kemur að þætti hæstv. fjmrh. í þessu máli, en eins og kunnugt er gerði hann samninga við lífeyrissjóðina, lífeyrisþegana í landinu, skömmu fyrir áramót um kaup á skuldabréfum. Þeir samningar gilda að mig minnir í þrjá fyrstu mánuði þessa árs. Því hefur verið lýst yfir af hálfu lífeyrissjóðanna, fulltrúa

lífeyrisþeganna í landinu, að skýrt ákvæði sé í þessum samningum þess efnis að fjmrh. hafi skuldbundið sig til að greiða vísitölu samkvæmt hinni eldri gerð, greiða vísitölubætur samkvæmt hinni eldri gerð lánskjaravísitölunnar. Og aðeins nokkrum dögum eftir að undirskriftin af hálfu fjmrn. er sett undir þetta plagg tekur hæstv. viðskrh. sig til og breytir vísitölunni þvert ofan í yfirlýsingar hæstv. forsrh. um að fyrst verði að setja um launavísitöluna lög. Hæstv. fjmrh. segir þá að hann geti engu um það svarað hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að standa við þá samninga sem fjmrh. gerði við lífeyrisþegana og hygg ég að ekki séu mörg dæmi um það að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands lýsi því yfir opinberlega að þeir geti með engu móti svarað því hvort þeir ætli að standa við gerða samninga, þegar augljóst er ofan í kaupið að mjög skortir á að nægjanleg lagastoð hafi verið fyrir hendi þegar hæstv. viðskrh. gaf reglugerðina út. Þess vegna er það spurning hér í þessum umræðum, sem ég óska eftir að hæstv. forsrh. svari, hvort fjmrh. á að standa við samninginn eða ekki, hvort hann muni leggja að hæstv. fjmrh. að standa við gerða samninga. Hæstv. fjmrh. hefur færst undan að svara þeirri spurningu en ég þykist vita að hæstv. forsrh. hafi þrátt fyrir allt nokkurn metnað fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar og sé reiðubúinn að svara þeirri fyrirspurn hér játandi.
    Það er líka nauðsynlegt að hæstv. forsrh. gefi skýringu á því sem fram kom í sjónvarpsfréttum fyrir skömmu, þar sem hann lýsti því yfir að úrskurðarnefndin sem hér hefur verið vitnað til hafi samþykkt breytingar hæstv. viðskrh. á vísitölunni, en þau orð höfðu varla verið sögð er yfirlýsing kom frá úrskurðarnefndinni þess efnis að hún hefði ekki samþykkt þessa breytingu. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. forsrh. vilji í raun og veru gerast sporgöngumaður hæstv. fjmrh. í vinnubrögðum og óska því eftir nánari skýringum um þetta efni.
    Það hefur verið óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að þessu klúðurmáli vegna þess að það beinlínis tengist því máli sem hér um ræðir og er skýrt tekið fram í athugasemdum með frv. að það tengist því máli þó að ég geti á hinn bóginn verið sammála því sem fram kemur í athugasemdunum og fram kom í upphafsræðu hæstv. forsrh., að ástæðulaust er að blanda efnisatriðum þessa frv. og þessara væntanlegu laga um launavísitölu hugsanlegri notkun hennar í öðrum tilgangi og þar á meðal uppbyggingu lánskjaravísitölu. Ákvæði þessara laga verða að standa alveg sjálfstætt að þessu leyti. Um það atriði er ég fyllilega sammála hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn og vænti ég þess að þetta frv. geti orðið sem fyrst að lögum.