Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Suðurl., skuli hvetja til þess að þetta frv. um launavísitölu verði sem fyrst að lögum. Ég vildi hér eingöngu fara nokkrum orðum um þá gagnrýni sem hann hafði í frammi í ræðu sinni á þá breytingu sem nýlega hefur verið ákveðin á grundvelli lánskjaravísitölunnar þótt lánskjaravísitalan sem slík sé hér reyndar ekki á dagskrá.
    Breytingin fól það í sér að launavísitala hafði jafnt vægi á við vísitölu framfærslu- og byggingarkostnaðar. Ég ætla hér einkum að fjalla um formlegar hliðar þessa máls. Mig langar í þessu sambandi til að rifja upp að fyrir miðjan september sl. var flutt tillaga um þetta mál af hv. 1. þm. Suðurl. sem þá var forsrh. Tillagan var flutt í fomri draga að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum og með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa upp úr Morgunblaðinu þann 17. september þar sem þessar tillögur voru birtar, en tillagan var svona:
    ,,Ríkisstjórnin hefur falið Seðlabankanum að breyta grundvelli lánskjaravísitölu þannig að vísitala launa hefði sama vægi og framfærsluvísitala og vísitala byggingarkostnaðar. Með þessari breytingu er leitast við að draga úr misgengi launa og lánskjara samhliða því sem sparifé verður áfram varið fyrir verðlagsbreytingum.``
    Þarna var tillagan sú að fela Seðlabankanum að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar. Þetta var tillaga sem var gerð í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur á breytingum á þessum mikilvæga mælikvarða þau 10 ár sem hann hefur gilt. Verðtrygging fjárskuldbindinga gegnir nú miklu hlutverki í okkar peningakerfi. Það má ætla að í lok síðasta árs hafi heildarfjárhæð verðtryggðra lánssamninga í landinu numið 300--350 milljörðum kr. og þar af hafi lánssamningar á bilinu 150--200 milljarðar verið verðtryggðir miðað við lánskjaravísitölu. Það er því mikilvægt að um lánskjaravísitöluna sé tryggilega búið. Það fóru því fram á vegum ríkisstjórnarinnar víðtækar athuganir á því hvort og hvernig mætti breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar með því að taka launavísitölu inn í hana í samræmi við málefnasamning þessarar ríkisstjórnar sem nú situr og í samræmi við þá tillögu sem þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson hafði sjálfur gert.
    Niðurstaða þessara lögfræðilegu athugana var að það væri unnt að gera slíka beytingu á grundvelli gildandi laga, svokallaðra Ólafslaga, að því tilskildu að breytingin væri almenns eðlis, gengi ekki á áunnin réttindi, byggðist á opinberlega birtum vísitölum og raskaði ekki verulega hagsmunum sem lánskjaravísitölunni væru tengdir þegar til lengdar léti. Það má líka geta þess að álit nefndar sem ég skipaði á fyrri hluta síðasta árs til þess að kanna fyrirkomulag verðtrygginga á fjárskuldbindingum hné mjög í sömu átt og það er rétt að vekja athygli á því að breytingin nú er alls ekki fyrsta breytingin á grundvelli lánskjaravísitölunnar á þeim áratug sem er liðinn frá því að hún var tekin upp. Þannig var mánaðarlegur

reikningur á lánskjaravísitölunnir tekinn upp sumarið 1983 með einfaldri auglýsingu frá Seðlabankanum á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnar. Þess má líka geta að framfærslu- og byggingarvísitölur voru þá ekki reiknaðar nema ársfjórðungslega þannig að það þurfti að áætla tvö gildi lánskjaravísitölunnar á móti hverju einu sem byggt var á beinum athugunum. Það er líka rétt að geta þess að á þessum 10 árum hefur verið skipt um grundvöll algjörlega á framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu. Það er af þessu ljóst að því fer fjarri að lánskjaravísitalan hafi verið óbreytt í öllum atriðum frá árinu 1979 þar til nú. Sú breyting sem gerð var í janúar uppfyllir öll þau skilyrði sem ég nefndi hér áðan og hlýtur því að teljast lögmæt. Auðvitað má jafnan deila um efnisatriði í slíku máli, en það liggur í augum uppi að hér var um almenna breytingu að ræða eins og kom m.a. fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. en hann taldi að efnislega kæmi þetta vel til greina. Þessi breyting gengur heldur ekki, þegar litið er yfir lengri tímabil, á nein áunnin réttindi og hún byggist á opinberlega birtum vísitölum og raskar ekki verulega hagsmunum sem tengdir eru þessum reikningum þegar til lengdar lætur. Ég tel þvert á móti að það megi halda því fram að nú hafi formlega verið tryggilegar um þessa breytingu búið en áður hafði verið gert. Ég vildi að endingu segja það að ég tek undir það með hæstv. forsrh. og hv. síðasta ræðumanni að það væri fengur að því að fá samþykkt frv. um launavísitölu til þess að ganga enn betur frá þessum breytta grundvelli.