Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vil eins og hæstv. viðskrh. þakka fyrir þann stuðning sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. við frv. Það er alveg ljóst að það ber brýna nauðsyn til að setja í lög ákvæði um hvernig reikna skuli launavísitölu og mun það væntanlega verða til þess að langtum nánar verður fylgst með þróun launa en verið hefur því að það hefur komið fram að það er alls ekki fullnægjandi eins og nú er. Hv. þm. kom að nokkrum atriðum og m.a. bar hann fram spurningar til mín. Í fyrsta lagi er vitanlega sjálfsagt að nefndin fái þær upplýsingar sem liggja fyrir frá Seðlabanka. Hv. þm. fékk þær, ég útvegaði þær samkvæmt ósk hans og skal ég ekki fara mörgum orðum um það út af fyrir sig.
    Eins og kom fram hjá hv. þm. gerði Seðlabankinn fremur að tillögu sinni, hann nefndi að vísu nokkra kosti, að eldri vísitala yrði áfram heimil. Ég held að það hafi reyndar komið fram opinberlega, ef ég man rétt, að ýmsir höfðu efasemdir um það að hafa hér margar vísitölur. Ég minnist þess að þetta bar m.a. á góma í umræðum hér á hinu háa Alþingi og man ekki betur en að það hafi legið a.m.k. í orðum nokkurra þm. Sjálfstfl. að það væri mjög vafasamt að hafa svo margar vísitölur í notkun. Ég er þessu sammála. Og ég lýsti því þá hér í umræðu að ég teldi þetta afar vafasamt. Þetta var ein af meginástæðunum fyrir því að ný vísitala samkvæmt ákvörðun í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar var ekki tekin upp. Ég taldi t.d. ekki eðlilegt að hér væru margar vísitölur og mönnum þannig gefinn kostur á að flytja á milli og velta vöngum yfir því hvaða vísitölur á hverjum tíma gæfu kost á meiri arðsemi og meiri hagnaði. Við vildum því skoða þetta nánar.
    Þó að hins vegar sé vakin athygli á því í greinargerð Seðlabankans, ef ég man rétt, að æskilegt sé að setja lög um launavísitölu er alls ekki sagt að það þurfi að gera áður en slík ný lánskjaravísitala er tekin upp. Það er hárrétt hjá hv. þm. að í grg. með frv. segir í 2. mgr.: ,,Ákvæði 6. gr. laga nr. 63/1985 eru því ófullnægjandi hvað snertir útreikning opinberrar launavísitölu sem fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í 39. gr. laga nr. 13/1979, um vísitölu, sem heimilt sé að miða verðtryggingu við.`` Við sem sagt vildum ganga nokkuð lengra en í raun, finnst mér, kemur fram í áliti Seðlabankans sem gat fallist á að taka upp þessa nýju lánskjaravísitölu um áramótin. Hins vegar er í frv. gert ráð fyrir að leiðrétta launavísitöluna reglulega því að ekki sé unnt að tryggja að hún sé ætíð rétt á þeim tíma sem hún er birt eins og kemur fram í því sem ég ræddi áðan. Sömuleiðis hefur forstjóri Hagstofunnar tjáð mér að hann telji afar litlar líkur á því að það verði nokkrar umtalsverðar breytingar á launavísitölunni, þannig að ef breytingar verða eftir samþykkt þessara laga, og reyndar eftir allan þann undirbúning sem er hafinn, sem ég rakti, þar sem hafið er samstarf við fjölmarga aðila um öflun nánari upplýsinga, verður það vitanlega leiðrétt. Af þessum sökum taldi ríkisstjórnin ekki ástæðu til að fresta því að taka upp nýja vísitölu.

    Hv. þm. spurði um deilur sem væru við lífeyrissjóðina vegna þess samnings sem þar var gerður. Það standa nú yfir viðræður við lífeyrissjóðina um þessi mál og að sjálfsögðu verður staðið við það sem um var samið nema um annað semjist við lífeyrissjóðina. Um þetta eru nokkrar deilur sem ég þori ekki að skera úr hér úr þessum stól á þessari stundu, enda er þetta í athugun, en ég fullvissa hv. þm. um það að hæstv. fjmrh. hefur ekki hug á að svíkja neina samninga sem gerðir hafa verið.
    Hv. þm. spurði um tillögu sem hér liggur fyrir sem lýsir vilja ýmissa þingmanna til þess að endurskoða grundvöllinn. Ég held út af fyrir sig að mikilvægt sé að endurskoða grundvöllinn. Það hefur verið gert með þessu og sömuleiðis hefur reyndar verið heimilað að hafa gengi eða erlenda gjaldmiðla sem grundvöll. Mig grunar nú að ekki sé lögð eins mikil áhersla af flutningsmönnum á endurskoðun grundvallarins nú, en þó vil ég taka það fram að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að haldið sé áfram að leita að viðunandi grundvelli nema það eitt að ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að að því beri að stefna að afnema verðtryggingu fjármagns með öllu. Reyndar segir í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar að koma skuli í veg fyrir víxlverkun verðlags og verðtryggingarfjármagns svo fljótt sem jafnvægi er fengið í efnahagsmálum. Og ég minni á það að í því samkomulagi sem var í fyrri ríkisstjórn og er frá 20. maí ef ég man rétt var sú ríkisstjórn einnig sammála því. Það er undirstrikað í aðgangsorðum að þeim aðgerðum sem þá voru ákveðnar að ríkisstjórnin muni koma í veg fyrir víxlverkun af þessu tagi og þar var reyndar fleira talið til og ég veit að hv. þm. getur staðfest það að í okkar umræðum, jafnvel enn lengra aftur í tímann, þá ræddum við um nauðsyn þess að stefna að slíku. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að þetta sé afar mikilvægt og ég vil leyfa mér að vísa í grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. jan. og er skrifuð af þeim hálærða hagfræðingi Gunnari Tómassyni og, með leyfi forseta, lesa aðeins lítillega úr þeirri grein. Þar segir:
    ,,Lögfesting lánskjaravísitölu jafngildir fráviki frá þeim lögmálum markaðarins sem ella mundu þjóna hagkerfinu sem öryggisventill gagnvart óhóflegum ávöxtunarkröfum á hendur fyrirtækjum atvinnulífsins sem er vettvangur allrar verðmætasköpunar íslenskrar þjóðar. Ef fjármagnseigendur heimta ávöxtun umfram raunverulega arðgjöf fjárfestingar, þá eyðist höfuðstóllinn að sama skapi.`` Og hér segir sömuleiðis: ,,Lánskjaravísitalan sem verðtryggir höfuðstól lánsfjármagns í verðmætasköpun, án tillits til þeirrar ávöxtunar sem þar býðst við þær aðstæður sem atvinnulífi eru búnar, eyðir eigin fé fyrirtækja samhliða því sem höfuðstóll fjármagnseigenda vex í skjóli lagaverndar.``
    Í þessari grein segir jafnframt síðar að það sé að sjálfsögðu ekki unnt að tryggja fjármagnseigendur fyrir þeim skakkaföllum sem verða m.a. hjá þeim atvinnuvegum sem vitanlega skapa allt það verðmæti sem við erum að skipta milli manna í þessu þjóðfélagi. Þetta er náttúrlega mjög athyglisvert í

þeirri umræðu sem var hér í gær og heldur áfram á fimmtudaginn að 13 milljarðar hafa tapast af eigin fé fyrirtækjanna --- er ekki líklegt að þeir hafi runnið til eigenda þessa verðtryggða fjármagns? Ég held að höfundur þessarar greinar fari hér með sannleika málsins.
    Nú grunar mig að hv. þm. sé sammála höfundi og sammála mér í þessu, a.m.k. eins og ég met umræður okkar, svo að ég er með því ekki að stofna, vona ég, til deilu, heldur aðeins að undirstrika að ég lít svo á að sú breyting sem var gerð sé til að lagfæra grundvöll lánskjaravísitölu sem fyrst verði afnumin af nýjum lánum en helst að öllum líkindum á eldri fjárskuldbindingum nokkuð lengi því að það mun vera niðurstaða lögfræðinga að ekki sé unnt að afnema með öllu verðtryggingu á eldri fjárskuldbindingum með lögum.
    Eins og fram kom áðan hjá hæstv. viðskrh. lagði fyrrv. forsrh., hv. 1. þm. Suðurl., til 17. sept. að tekin yrði upp ný lánskjaravísitala nákvæmlega eins og hér er gert ráð fyrir. En það er athyglisvert að hv. þm. lagði þá til sem forsrh. að þetta yrði gert með auglýsingu Seðlabankans, þ.e. það er orðað svo: Seðlabankanum hefur verið falið að birta nýjan grundvöll lánskjaravísitölu. Við ítarlega athugun á þessu máli komst núv. ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt að gera þetta með auglýsingu og það var haft mjög náið samráð við Seðlabankann um það mál og ákveðið þess vegna að gera það með reglugerð sem Seðlabankinn taldi vera traustari aðgerð. Seðlabankinn lagði til að það yrði gert með reglugerð. Nú efa ég ekki að hv. þm. hefur kannað þetta á sínum tíma áður en hann gerði þessa tillögu.
    Hvað viðvíkur úrskurðarnefndinni, þá sendi Seðlabankinn að sjálfsögðu þessa breytingu til úrskurðarnefndarinnar nú þegar hún var gerð eins og lög gera ráð fyrir og því miður láðist mér að birta það bréf sem úrskurðarnefndin skrifaði, en í síðustu mgr. þess bréfs, ég held að ég muni það nokkuð nákvæmlega, segir að úrskurðarnefndin telji að þessi breyting á lánskjaravísitölunni sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og það er til þess sem ég vísa þegar ég segi að úrskurðarnefndin hafi samþykkt þessa breytingu, en líklega er rökréttara að segja að úrskurðarnefndin telji þessa breytingu ekki ganga í bága við reglur sem gilda eða reglugerðina. Og ég skal að sjálfsögðu með ánægju láta hv. þm. og nefndinni þetta svar úrskurðarnefndarinnar í té og má vel vera að það berist hingað mjög fljótlega, en því miður hefur það ekki gert það enn þá.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég tel hins vegar að öll umræða um lánskjaravísitöluna sé mjög þörf og menn geri upp hug sinn um hana. Ég hef að vísu gert það fyrir mitt leyti. Ég tel hana vera af hinu verra og tel að það eigi að losna við hana sem fyrst eins og aðra verðtryggingu í þjóðfélaginu sem stuðlar að sjálfsögðu að víxlverkun eins og svo margoft hefur verið rætt um. Ég get bætt við til viðbótar að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á síðasta ári kemur það einmitt fram að verðtrygging fjármagns leiði til

þess að hagstjórn í gegnum gengið verði ekki eins virk. Þetta held ég að sé mjög þörf ábending.