Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svör þeirra. Mér heyrist eigi að síður að af þeim komi nú í ljós það sem flestir hafa haft á tilfinningunni að það hafi verið hrapað að þessu verki fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórninni þótti nauðsynlegt að lækka verðbólgutölur nokkuð og ég hygg að það hafi jafnvel verið ætlan hæstv. ríkisstjórnar að standa á annan veg að framkvæmd málsins, en það hafi þótt svo brýnt að lækka verðbólgutölur að því hafi verið hlaupið til verksins og þess vegna hafi þetta klúður orðið. Það er kunnara en frá þurfi að segja að verðbólga á þremur fyrstu mánuðum þessa árs var komin yfir 20% og ef ég man rétt hefði mæling á lánskjaravísitölu farið með verðbólguna yfir 30% í einum mánuði og eðlilega þótti ríkisstjórninni það slæmt og því var gripið til þessara breytinga. Í sjálfu sér, ef þetta er rétt mat, að þetta sjónarmið hafi legið að baki, er alveg spurning hvort hæstv. samgrh. ætti ekki að hugsa sinn gang og reyna kannski að tvöfalda lagningu bundins slitlags með því að skerða kílómetrann svona um 500 metra eða svo, en þetta er auðvitað aukaatriði.
    Hæstv. ráðherrar rifjuðu hér upp að á lokadögum fyrri ríkisstjórnar lagði ég fram tillögu í ríkisstjórninni sem gerði ráð fyrir slíkri breytingu og það er að sönnu rétt, enda hef ég margsinnis lýst því yfir að ég telji þetta vera fullkomið álitaefni. Ég taldi þá og tel enn á hinn bóginn að það sé ekkert aðkallandi atriði í okkar efnahagsmálum og ekkert á fjármagnsmarkaðinum sem í sjálfu sér hafi kallað á þetta, enda er nauðsynlegt vegna þessara ummæla að taka það fram að þær tillögur sem þarna voru lagðar fyrir voru tilraun þá til málamiðlunar á milli þriggja flokka og það var í þeim tilgangi verið að taka hugmyndir frá þeim aðilum sem í þeirri ríkisstjórn störfuðu saman og tilgangurinn var auðvitað sá að ná um það samkomulagi.
    Það er ekkert launungarmál að tillagan um þetta kom frá Framsfl. á þeim tíma og var sett inn í málamiðlunartillögur þessar í þeim tilgangi að reyna að brúa bil og það lá alveg ljóst fyrir að af hálfu Framsfl. voru gerðar um það mjög skýrar kröfur að slíkt ákvæði yrði að vera inni í yfirlýsingu. Hæstv. forsrh. lét að því liggja að orðalag þeirrar yfirlýsingar hafi verið með óvarkárari hætti en framkvæmdin varð af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég vil mótmæla því að það orðalag hafi á nokkurn hátt bent til þess að óvandaðri undirbúningur hefði átt sér stað á þeim grundvelli. Í því sambandi vil ég minna hæstv. forsrh. á það sem stendur í stefnuyfirlýsingu hans eigin ríkisstjórnar. Þar segir:
    ,,Ríkisstjórnin hefur falið Seðlabankanum að breyta grundvelli lánskjaravísitölu þannig að vísitala launa hafi helmingsvægi á móti framfærsluvísitölu og vísitölu byggingarkostnaðar sem hafi fjórðungsvægi hvor.``
    Þetta stendur alveg skýrum orðum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar hæstv. forsrh. En auðvitað felur það í sér að Seðlabankanum er falin framkvæmdin og á hans vegum fer fram hinn faglegi

undirbúningur og hin faglega könnun og ég gagnrýni það síður en svo að það skuli hafa verið gert af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar þrátt fyrir þetta skýra ákvæði í stjórnarsáttmálanum, enda hygg ég að það hefði verið gert þrátt fyrir sams konar ákvæði af hálfu hvaða ríkisstjórnar sem setið hefði við völd. Kjarni málsins er sá að hin faglega athugun sem fór fram samkvæmt þessum fyrirmælum í stjórnarsáttmála og hefði farið fram ef tillögur í fyrri ríkisstjórn hefðu leitt til áframhaldandi samstarfs leiðir það í ljós að Seðlabankinn telur í bréfi sínu til viðskrh. að nauðsynlegt sé að setja lög um nýja launavísitölu. Orðrétt segir í álitinu:
    ,,Til þess að launavísitala gæti orðið hluti af lánskjaravísitölu er því nauðsynlegt að sett verði lög um nýja, almenna launavísitölu.`` Þetta stendur alveg skýrt hér í áliti Seðlabankans. Og í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að það hafi verið sérstakt áhugamál hæstv. núv. ríkisstjórnar að undirbúa þetta mál faglega, hvers vegna er þetta skýra álit þá að engu haft? Og í niðurlagi bréfs úrskurðarnefndarinnar segir enn svo, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það skoðun nefndarinnar að breyting á vægi hinna opinberu vísitalna í núverandi lánskjaravísitölu feli í sér upptöku nýrrar lánskjaravísitölu. Ljóst er að Seðlabankinn getur heimilað að verðtrygging sparifjár og lánsfjár miðist við ýmsar vísitölur svo fremi að gætt sé þess skilyrðis að um sé að ræða opinberar skráðar vísitölur eins og þær eru reiknaðar á hverjum tíma. Í þessu felst hins vegar ekki að mati nefndarinnar heimild til að skipta um vísitölur í verðtryggðum samningum og á sama hátt verður ekki séð að unnt sé með stjórnvaldsákvörðun að raska vægi vísitalna í núverandi lánskjaravísitölu.`` Ég fagna því að þessi vandaði undirbúningur fór fram og þessi álit lágu fyrir. Ég hygg að ekki nokkrum manni hafi dottið í hug að túlka ákvæði hvorki í tillögum sem lágu fyrir í fyrri ríkisstjórn né heldur þetta skýra ákvæði í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar á annan veg en að þessi vandaða athugun færi fram. Síðan er það auðvitað spurning um hvernig staðið er að framkvæmdinni þegar þessi undirbúningsvinna liggur fyrir.
    Hæstv. viðskrh. vék að því að það hefðu áður verið gerðar breytingar á
lánskjaravísitölunni og það er rétt að minni háttar breytingar hafa verið gerðar eins og breyting á útreikningsdögum, að færa útreikningana yfir í mánaðarlega útreikninga, og að því er varðar vísitölurnar sem lánskjaravísitalan byggir á þá hefur grundvöllur framfærsluvísitölunnar breyst á grundvelli nýrra neyslukannana. Þetta er það sem ég skil í áliti Seðlabankans sem minni háttar breytingar sem í álitinu segir hins vegar að eigi að túlka þröngt þannig að meiri háttar breytingar verði að teljast ný vísitala. Álitið verður varla skilið á annan veg. Það segir hins vegar ekkert um það að rangt hefði verið af hæstv. ríkisstjórn að setja þannig nýja vísitölu. Það gat verið fullkomið álitaefni miðað við hennar ákvörðun að gera

það og út af fyrir sig hefði það ekki verið tilefni til mikillar gagnrýni. Þessar athugasemdir um fyrri breytingar eiga augljóslega við hinar minni háttar breytingar sem talað er um í áliti Seðlabankans.
    Hæstv. forsrh. sagði að sjálfsagt væri að upplýsingar Seðlabankans lægju fyrir í nefndinni. Það sem ég var sérstaklega að óska eftir er það álit sem ég hef ekki séð enn og hæstv. fjmrh. vísaði til í sjónvarpsþætti á dögunum, að lögfræðingar Seðlabankans hefðu talið nægjanlegt að hæstv. ríkisstjórn gæfi út yfirlýsingu um að hún ætlaði að setja lög um launavísitölu, það væri nægjanlegur lagagrundvöllur. Ég hef ekki heyrt það áður og hef engan lögfræðing heyrt, hvorki fyrr né síðar, halda því fram að yfirlýsing ríkisstjórnar um að hún ætlaði að setja lög væru nægjanlegur lagagrundvöllur. Þess vegna vildi ég mjög gjarnan að þessi lögfræðingur, ef til er, yrði nú dreginn fram í dagsljósið. Það væri fróðlegt að kynnast honum og hans álit yrði þá lagt fyrir hv. fjh.- og viðskn.
    Það kom reyndar fram í máli hæstv. forsrh. að það væri hans túlkun á yfirlýsingunni í athugasemdum með frv. að lög þyrftu ekki að hafa verið samþykkt, heldur aðeins yfirlýsing gefin um að þau ætti að samþykkja. Ég ætla ekki að fara í einhverja þrætubók um þetta, en ég skil ekki 2. mgr. í athugasemdum hæstv. forsrh. á annan veg en þann að nauðsynlegt sé að setja ný lög um launavísitölu áður en ný lánskjaravísitala er tekin upp þar sem launavísitalan er nýr grundvöllur.
    Ég fagna svo sérstaklega yfirlýsingu hæstv. forsrh. um að hæstv. ríkisstjórn ætli að standa við samningana við lífeyrissjóðina eins og þeir voru gerðir. Það fer ekki hjá því að þessi yfirlýsing hlýtur að vekja mikla athygli því að það hefur staðið í ströngu á milli lífeyrissjóðanna og hæstv. fjmrh. vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur neitað að gangast undir þann samning sem fjmrn. gerði um kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum. Þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. er því mikið fagnaðarefni og hlýtur að vera vel tekið hjá forustumönnum lífeyrissjóðanna, og ég verð að segja það að hann á sérstakt hrós skilið fyrir það að setja nú hæstv. fjmrh. svolítið niður. Það var kominn tími til þess að stíga svolítið ofan á tærnar á honum, enda kannski ekki nema eðlilegt að gera það í tilviki sem þessu þar sem látið var að því liggja af hálfu hæstv. fjmrh. að ríkið ætlaði ekki að standa við gerða samninga. Þess vegna vil ég sérstaklega og enn á ný fagna þessari yfirlýsingu og þakka hæstv. forsrh. fyrir hana. Það verður síðan að koma í ljós hvað stjórnarmeirihlutinn gerir með tillögu þá sem hér liggur fyrir um að skipa sérstaka nefnd til þess að kanna nýjan vísitölugrundvöll. Verði sú tillaga samþykkt ber það auðvitað með sér að ríkisstjórnin er ekki viss um að sú ákvörðun sem tekin var hafi verið rétt og þess vegna er það kannski öllum fyrir bestu, eins og málum er komið, að Alþingi samþykki þessa tillögu og kjósi þessa nefnd.