Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. forsrh. að ekki komi til greina að breyta framfærsluvísitölunni, sérstaklega vegna þess að í málgagni hæstv. fjmrh. aðeins fyrir nokkrum dögum var því slegið upp á forsíðu að nú væri kominn tími til að breyta framfærsluvísitölunni og með því móti mætti stórlækka verðbólgu. Og miðað við þau áhrif sem hæstv. fjmrh. hefur í ríkisstjórn datt manni kannski í hug að þetta yrði framkvæmt án nokkurra lagabreytinga með reglugerðarútgáfu, en ég fagna því að hæstv. forsrh. hefur nú tekið af skarið í þessu efni og það á ekki að lækka verðbólguna með því að breyta framfærsluvísitölunni eins og málgagn hæstv. fjmrh. gaf til kynna fyrir nokkrum dögum.
    Aðeins varðandi það bréf sem hæstv. forsrh. vitnaði til frá úrskurðarnefndinni. Ég skildi það alveg augljóslega á þann veg að úrskurðarnefndin hefði þarna verið að staðfesta að Seðlabankinn hefði reiknað rétt út í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar sem hæstv. viðskrh. gaf út. M.ö.o., úrskurðarnefndin var aðeins að kveða á um að rétt væri út reiknað. Hún var ekki að fjalla um það hvort efnislega hefði verið staðið með lögformlegum hætti að breytingunni, enda hefur það síðar komið fram vegna erindis sem nefndinni barst með ósk um úrskurð að hún telur sig ekki bæra til þess að úrskurða þar um hvort farið hafi verið að réttum lögum. Þar eigi dómstólar úrskurðarvald. Og í álitinu sem úrskurðarnefndin sendi frá sér í októbermánuði vegna óska Seðlabankans kemur alveg skýrt fram, eins og ég hef áður rakið hér í umræðunni, að nefndin telur þá breytingu sem hér er verið að tala um fela í sér nýja vísitölu. Þess vegna breytir þetta bréf sem hæstv. forsrh. las upp engu um þau efnisatriði sem ég hef áður komið hér fram með í þessari umræðu.