Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að lýsa undrun minni á því hvernig tveir virðulegir ráðherrar hafa talað í dag. Það er eins og þeir geri sér enga grein fyrir því að þessir menn eru ráðherrar. Þeir gera ekkert borið sig saman við einhvern hugmyndafræðing úti í bæ og jafnvel ekki óbreyttan þingmann þó að hann sé fyrrv. formaður utanrmn. Alþingis. Og um hvað snýst málið? Það snýst um það hvernig virðulegir ráðherrar leyfa sér að tala um stofnanir ríkisins, leyfa sér að tala eins og menn sem ekki nokkurt mark er takandi á og sem ekki bera nokkra ábyrgð á orðum sínum. Um það snýst þetta mál.
    Menn hafa verið að gera því skóna að það sé ósæmandi að ræða þessi mál hér á Alþingi. Auðvitað er það fjarstæða. Alþingi hlýtur að þola þær umræður sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands kalla yfir það með ummælum og ábyrgðarlausu tali, jafnvel þó það sé úti í bæ. Og viðskrh. getur ekki komið hér og kveinkað sér undan því þó að hann sé spurður um málefni sem varða stofnanir sem heyra undir hann, ekki síst þegar hans eigin flokksformaður fer með fleipur og blaður um slíkar stofnanir.
    Ég sagði í gær að ummæli ráðherrans um það efni sem hér er til umræðu væru hneyksli og honum til vansæmdar. En það er sama að segja t.d. um orð hæstv. forsrh. þegar hann lýsti því yfir á opinberum fundi nýlega að það væri eins og að skvetta vatni á gæs að fela Seðlabankanum að athuga mál. Þannig geta æðstu yfirmenn ríkisins, og ekki heldur hæstv. fjmrh., leyft sér að tala um stofnanir ríkisins og þeirra starfsmenn.
    Hæstv. utanrrh. hefur öðrum ráðherrum fremur tekið sér fyrir hendur að vega að Seðlabanka Íslands, yfirmönnum hans og starfsfólki. Það gerði hann t.d. í undarlegri áramótagrein þar sem hann sagði að löngu tímabært væri orðið að endurskoða lögin um bankann og nefndi nokkrar ástæður til þess. Nú vill hins vegar svo til að í gær var lagt fram á Alþingi frv. til breytinga á lögum um Seðlabankann og það var hæstv. viðskrh. sem lagði það fram. Þá hefði maður auðvitað haldið að viðskrh. færi að vilja síns eigin flokksformanns og legði til breytingar á lögunum um Seðlabankann í samræmi við vilja formanns Alþfl. Nei. Það er ekki gert. Og af hverju er það ekki gert? Það er vegna þess að hæstv. viðskrh. veit eins og allir hv. þm. að þessi ummæli flokksformannsins, hæstv. utanrrh., eru innantómt blaður sem engin meining stendur á bak við, markleysan ein eins og þau ummæli sem kallað hafa fram þessar umræður í dag. Þess vegna tekur viðskrh. ekki mark á þessu.
    Það er auðvitað alvarlegt mál, virðulegi forseti, þegar ráðherrar Íslands láta sér um munn fara ósæmileg og marklaus ummæli, en það hlýtur að vera sérstakt böl fyrir hæstv. viðskrh., sem ekki hefur tamið sér þannig framkomu og er þekktur fyrir vönduð og yfirveguð vinnubrögð, að hafa sér við hlið samráðherra sem ekki sjást fyrir í blaðri um málefni og stofnanir sem heyra undir hann. Ég er ekki hissa á því þótt hann sé orðinn langþreyttur á slíku og hann

á vissulega samúð mína alla í því efni.