Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Af því að ummæli mín voru nefnd áðan vil ég gefa á þeim skýringu. Þau voru í sambandi við það að með bréfi var Seðlabankinn 28. september beðinn um að gera tillögu um grundvöll nýrrar lánskjaravísitölu. Á skrifstofu minni í október var þetta ítrekað og fastmælum bundið að slíkar tillögur skyldu liggja fyrir mjög fljótlega þannig að þær gætu komið til framkvæmda örugglega fyrir áramót.
    Á öðrum fundi hjá mér í desember kom í ljós að ekkert hafði verið unnið að þessu máli og það var ekki fyrr en eftir að þrisvar sinnum hafði verið gengið eftir svari Seðlabankans, skyldum hans, að þessar tillögur komu um það bil tíu dögum fyrir áramótin. Ég hefði getað notað önnur orð um þetta, en það skilur hver einasti Íslendingur hvað við er átt.