Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hér hefur verið sagt að úrskurður forseta um ákveðna fsp. hafi verið rangur. Þeim úrskurði forseta var vísað til Alþingis og Alþingi tók undir úrskurð forseta. Sú yfirlýsing hlýtur þess vegna að skoðast á þann veg að úrskurður Alþingis hafi verið rangur. Þetta verður ekki skilið á annan veg en þann að hér í þinginu séu einstaklingar sem treysta sér til að lýsa því yfir hvenær Alþingi greiðir rétt atkvæði og hvenær á annan veg.
    En þessir sömu aðilar hafa komist að merkilegri niðurstöðu. Hún er sú að innan þingsins séu slíkir gasprarar að þeir hafi framkvæmt gengisfellingu á manngildi hinna og þaðan kemur reiðin. Þaðan kemur þessi voðalega reiði sem einkennir málflutning hjá hv. 1. þm. Reykv. Hann er nánast æfur yfir því að hæstv. utanrrh. hefur sagt orð sem hafa valdið gengisfellingu á stjórnmálamanninum Friðriki Sophussyni. Og það er náttúrlega ekkert skrýtið þó hann sé reiður yfir slíku því auðvitað mátti hann ekki við því að lækka í áliti almennings. Það sér hver heilvita maður. Skaðinn er stórkostlegur. Hvar endar þetta, herra forseti, ef menn geta orðið til að fella menn í áliti sem stjórnmálamenn þannig að þeir komist kannski ekki á lista næst? Þetta er stóralvarlegt mál og þarf auðvitað að skoða hvernig slíkir menn eiga að bregðast til varnar. Það væri hugsanlegt að nota heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu: Undirritaður er ekki í hópi þeirra gasprara sem segir eitt og framkvæmir annað. Friðrik Sophusson. Með mynd á miðri síðu væri kannski hægt að draga úr þessari gengisfellingu og bregðast þannig til varnar. En ég skil núna loksins hvers vegna hv. 1. þm. Reykv. er svona reiður og hvers vegna hv. 17. þm. Reykv. er svona foxandi vondur líka. Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál.
    En hitt er athyglisvert, að eftir að utanrrh. er búinn að lýsa því yfir að hann hefði getað haft heppilegri orð skuli það vera þrír forustumenn úr sveit Sjálfstfl. sem telji sér skylt að verja báknið, báknið sem einu sinni var í tveimur herbergjum í Landsbankanum með sína starfsemi og einni skúffu að auki en er nú orðið að höll með yfir 150 manna starfsliði.