Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 1. þm. Reykv., gaf í framsöguræðu sinni svigrúm til að líta á ummæli hæstv. utanrrh. sem annaðhvort mjög alvarleg ummæli eða ummæli í gamni sögð. Ég er einn þeirra sem tek þessi ummæli sem í gamni sögð á pólitískum fundi og ekki lagður sá skilningur í þau sem mér finnst hafa komið fram hjá þeim sem deila á hæstv. ráðherra fyrir þessi ummæli. Sem sagt: Ég lít svo á að ummælin séu í gamni sögð og ég sé ekki ástæðu til þess að langar umræður eða strangar fari fram miðað við mína niðurstöðu. En hún er auðsjáanlega ekki sú sama og margra annarra.
    En ég sé fulla ástæðu til þess að lýsa því hér yfir að Seðlabankinn sem slíkur hefur reynst mér mikil stoð í mínu starfi sem fjmrh. á sínum tíma þegar ég gegndi því starfi og byggt á þeirri reynslu vil ég þakka starfsfólki bankans og forustusveit vel unnin störf. Það stóð aldrei á neinu sem ég þurfti á að halda, enda bankinn rekinn af hinum hæfustu mönnum sem við höfum á að skipa.