Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Borist hefur eftirfarandi bréf:
    ,,Kristín Einarsdóttir, 12. þm. Reykv., hefur ritað mér á þessa leið:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að vegna forfalla 1., 2. og 3. varamanns taki 4. varamaður Kvennalistans í Reykjavík, Sigrún Helgadóttir líffræðingur, sæti á Alþingi í fjarveru minni.``
    Þetta er yður hér með tilkynnt, hæstvirtur forseti, með ósk um að fram fari í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.``
    Með þessu bréfi fylgir kjörbréf Sigrúnar Helgadóttur. Undir bréfið skrifar forseti Nd. Kjartan Jóhannsson.
    Þrjú önnur bréf bárust af þessu tilefni til forseta sameinaðs þings. Hið fyrsta hljóðar svo:
    ,,Þar eð ég undirrituð, Guðrún Halldórsdóttir, er mjög önnum kafin við mín daglegu störf og á örðugt með að sinna öðrum þjóðþrifamálum um sinn leyfi ég mér að æskja þess að taka ekki sæti sem varamaður á Alþingi í febrúar 1989.
Virðingarfyllst,

Guðrún Halldórsdóttir.``

    Þá er annað bréf:
    ,,Hér með tilkynnist að ég, 2. varaþingkona Kvennalistans í Reykjavík, Sigríður Lillý Baldursdóttir, sé mér ekki fært vegna annarra starfa að taka sæti á Alþingi nú í fjarveru Kristínar Einarsdóttur.
Virðingarfyllst,

Sigríður Lillý Baldursdóttir.``

    Þá er hið þriðja bréf:
    ,,Þess hefur verið óskað að ég sitji þing fyrir hönd Kvennalistans vegna fjarveru Kristínar Einarsdóttur alþingiskonu. Ég sé mér ekki fært að verða við þessari beiðni vegna anna.
Virðingarfyllst,

María Jóhanna Lárusdóttir.``

    Samkvæmt þessum bréfum og með vísan til 4. gr. þingskapa ber hv. kjörbréfanefnd nú að prófa kjörbréf Sigrúnar Helgadóttur líffræðings. Gert verður hlé á fundinum í fimm mínútur. --- [Fundarhlé.]