Seðlabanki Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingdeild afsökunar á því að ég skyldi koma of seint til fundar, en hef nú mál mitt til að mæla fyrir stjfrv. til breytinga á lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.
    Þær breytingar á lögum um Seðlabankann sem tillögur eru gerðar um í frv. eru einn liður í fjölþættum efnahagsráðstöfunum sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir og forsrh. lýsti ítarlega í ræðu hér í þinginu á mánudag. Áður en ég sný mér að frv. sérstaklega langar mig til þess að segja hér nokkur orð um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum sem kemur fram í samþykkt hennar frá því á mánudag, en samþykktin er prentuð sem fskj. með frv.
    Það er varla of djúpt í árinni tekið þegar sagt er að undanfarin tvö ár hafi vaxtamálin verið mikið ágreiningsefni hér á landi. Þessi ágreiningur hefur einkum snúist um það hvernig stuðla ætti að lækkun raunvaxta. Um markmiðið hefur lítið verið deilt, en þeim mun meira um leiðirnar að því. Þessi ágreiningur hefur ekki farið eftir flokkslínum heldur hafa menn skipað sér í hópa eftir því hvort þeir hafa talið vænlegra að ná raunvöxtunum niður með almennum aðgerðum til að bæta jafnvægi á lánamarkaði eða með því að hlutast til um vaxtaákvarðanir með beinum hætti. Til undantekninga heyrir, sem betur fer, að menn mæli neikvæðum raunvöxtum bót þótt enn kunni að eima eftir af því sjónarmiði meðvitað eða ómeðvitað. Vaxandi skilningur á því að sparifé landsmanna og almannasjóðir megi ekki brenna upp og að endurgreiða skuli raungildi lánsfjár að viðbættri hóflegri vaxtaþóknun horfir ótvírætt til framfara. Enn greinir menn þó á um það hvort vextirnir séu eins og hvert annað verð sem ræðst á markaði af framboði og eftirspurn. Reyndar hefur skilningur á því sjónarmiði einnig verið vaxandi.
    Á hinn bóginn hefur því einnig verið haldið fram að verulegur brestur sé í íslenska fjármagnsmarkaðnum þannig að þar ríki ekki sú samkeppni sem stuðli að eðlilegri vaxtamyndun. Þetta er engu að síður spor í rétta átt, þessi vaxandi skilningur, þar sem í því felst ákveðin viðurkenning á því að vextirnir skuli ráðast af markaði ef samkeppnin er fullnægjandi. Með þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur nú tekið hefur að mínu áliti verið fundin farsæl málamiðlun milli þessara sjónarmiða. Það er einmitt verkefni stjórnmálanna að finna slíkar málamiðlanir í þjóðmálum og ég treysti á atbeina hv. Ed. í þessari málamiðlun.
    Í raun og veru má líta á þær tillögur, sem hér eru gerðar, þegar þær eru skoðaðar í heild sem lagfæringu á því fyrirkomulagi vaxtaákvarðana sem leitt var í lög á árunum 1985--1987 og byggist á grundvallarreglunni um samningsfrelsi. Sá óstöðugleiki sem ríkt hefur í efnahagsmálum hér undanfarin ár með mikilli umframeftirspurn á öllum sviðum, þar á meðal eftir lánsfé, hefur reynt mjög á þetta frjálsræðisfyrirkomulag varðandi vaxtaákvarðanir á

sama tíma og það hefur einmitt verið að slíta barnsskónum. Það er því að vonum að í ljós hafi komið hvar veilurnar voru og að þetta fyrirkomulag þurfi nú nokkurrar lagfæringar við.
    Í því frv. sem ég mæli hér fyrir er lagt til að þetta verði gert með því að skýra og skerpa heimildir Seðlabankans til þess að binda vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum ef vextir þykja keyra úr hófi. Í þessu felst alls ekki grundvallarstefnubreyting og hér er ekki um að ræða neitt afturhvarf til miðstýrðra vaxtaákvarðana.
    Menn verða að átta sig á því hver er veruleikinn á íslenska fjármagnsmarkaðnum. Þetta er lokaður markaður þar sem samkeppni á útlánahliðina er ekki mjög virk. Samkeppnin um spariféð á innlánshlið er hins vegar mun virkari. Þar keppa ríkið, bankar og sparisjóðir, verðbréfasjóðir og aðrir sparnaðarkostir hart um því nær hverja krónu. Þótt óhjákvæmilegt væri að raunvextir hækkuðu nokkuð samfara þeirri umröðun vaxta á markaðnum í kjölfar vaxtafrelsis er það einmitt þessi áhalli í samkeppninni milli útláns- og innlánshliðar á lokuðum fjármagnsmarkaði sem í ofþenslu undanfarinna ára hefur keyrt raunvextina upp úr hófi fram. Við aðstæður eins og þessar verða stjórnvöld að hafa heimild til að hlutast til um vaxtaákvarðanir í undantekningartilfellum til þess að gæta hagsmuna hinna dreifðu lántakenda sem ekki hafa átt í mörg hús að venda með að verða sér úti um lánsfé. Jafnframt hníga þessi rök að því að brýnt sé þegar til lengdar er litið að stefna að því að opna íslenska fjármagnsmarkaðinn gagnvart útlöndum þótt það hljóti að gerast í áföngum á nokkrum tíma. En þar með er þó alls ekki sagt að stjórnvöld muni eða hljóti að binda vaxtaákvarðanir takmörkunum þangað til fjármagnsmarkaðurinn hefur verið fullkomlega opnaður.
    Ríkisstjórnin hyggst sem fyrr fyrst og fremst beita almennum aðgerðum til að ná raunvöxtunum niður á hóflegt stig. Hún mun leitast við að veita ríkisútgjöldum eins mikið aðhald og kostur er og draga þannig úr lánsfjárþörf ríkisins. Ríkissjóður mun að sjálfsögðu freista þess að neyta aðstöðu sinnar sem langstærsti lántakandi á fjármagnsmarkaði og sá eini sem getur boðið viðhlítandi tryggingar fyrir mjög háum lánsfjárhæðum til þess að fá fram lækkun raunvaxta í samningum um sölu á ríkisskuldabréfum og á skuldabréfum
byggingarsjóðanna, m.a. til lífeyrissjóðanna. En hún ætlast til þess að raunvextir á öðrum sviðum lánamarkaðarins lagi sig að raunvöxtum á ríkisskuldabréfum. En til þess að ná því fram er nauðsynlegt að sambærilegar reglur gildi um öll fjármálafyrirtæki sem stunda svipaða starfsemi. Þetta á við um ákvæði sem lúta að bindi- og lausafjárskyldu, íhlutun í vaxtaákvarðanir og fleira sem fjallað verður um í fjh.- og viðskn. Nd. þar sem fjármagnsmarkaðsfrumvörpin eru nú til meðferðar.
    Þá er það sérstaklega mikilvægt að mínu áliti að í ríkisstjórninni hefur tekist samkomulag um þá framtíðarsýn að til þess að búa þjóðinni bætt lífskjör

þegar til lengri tíma er litið þurfi að tryggja íslensku atvinnulífi sambærilega aðstöðu á fjármagnsmarkaði og er í helstu viðskiptalöndum okkar. Þess vegna undirbýr ríkisstjórnin nú stefnumótun um nánari tengsl íslenska fjármagnsmarkaðarins við helstu viðskiptalönd Íslendinga, ekki síst í því skyni að auka samkeppni á lánamarkaðnum til aðhalds að fjármagnskjörum. Þessi stefnumörkun er sérstaklega mikilvæg vegna þeirra breytinga sem eru að verða á viðskiptaháttum með fjármagn og fjármálaþjónustu í umheiminum vegna sameiginlegs innri markaðs Evrópubandalagsins frá og með árslokum 1992. Þegar hefur verið ákveðið að þessi stefnumótun verði byggð á tillögum ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun áranna 1989--1992. Hér er um mikilvægt framtíðarmál að ræða sem brýnt er að ötullega verði unnið að svo að tryggt sé að Íslendingar dragist ekki aftur úr nágrannaþjóðunum varðandi umbætur í skipun efnahagsmála.
    Fyrsta skrefið í þessari aðlögun var reyndar tekið nú um sl. áramót þegar almenn heimild var veitt til þess að taka vörukaupalán allt að þremur mánuðum án bankaábyrgðar vegna hvers konar vöruinnflutnings en áður var slík heimild bundin við tiltekna vöruflokka. Á næstunni verða frekari breytingar í sömu átt undirbúnar. Allt miðar þetta að því í reynd að lækka raunvextina og þar með fjármagnskostnað fjölskyldna og fyrirtækja. Þetta eru dæmi um það hvernig ríkið á að starfa að almannaheill með því að bæta virkni markaðarins, í bráð með íhlutun ef þörf krefur, en í lengd með því að opna markaðinn fyrir aukna samkeppni.
    Ég sný mér þá að frv. sjálfu. Breytingartillögurnar sem í því felast eru að sjálfsögðu byggðar á þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd seðlabankalaganna, en eins og ég sagði áðan er nauðsynlegt að skýra betur og skerpa nokkur ákvæði í lögunum í tengslum við efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar. En þessar breytingar munu einnig hafa að mínu áliti varanlegra gildi.
    Í 1. gr. frv. er fjallað um laust fé innlánsstofnana. Í ljós hefur komið að endurbæta þarf ákvæði laganna varðandi skilgreiningu á lausu fé. Í júní á sl. ári setti Seðlabankinn nýjar reglur um þessa skilgreiningu en varð að hverfa frá þeim um síðustu áramót, þar sem lagagrundvöllur fyrir þeim reyndist ekki ótvíræður. Um þetta vísa ég til fyrsta fskj. með frv. en þar gerir Seðlabankinn grein fyrir þessu máli ásamt áformaðri breytingu á framkvæmd bindiskyldu lánsfjár sem er á grundvelli 1. mgr. 8. gr.
    Í grg. Seðlabankans kemur fram að fyrirhugað sé að bindiskyldan reiknist framvegis af ráðstöfunarfé í heild í stað innlána eins og nú er. Þessi breyting mun koma sér vel fyrir þá banka sem mesta fyrirgreiðslu veita fyrirtækjum í útflutningsgreinum vegna þess að undanskilið verður frá ráðstöfunarfénu endurlán erlendra lána vegna afurðalána. Á sama hátt mun þessi breyting líka fela það í sér að bindiskyldan nær framvegis, ef þessi breyting verður framkvæmd, til bankabréfaútgáfu og veðdeildarstarfsemi bankanna sem

hingað til hefur verið undanskilin.
    Eins og nú er ástatt í reikningum bankanna mundi þessi breyting bæta til muna stöðu Landsbankans en einnig Búnaðarbankans og Útvegsbankans. Þessi breyting ætti því að auðvelda mönnum að veita útflutnings- og samkeppnisgreinum betri fjármagnsþjónustu.
    Í 1. gr. er einnig lagt til að Seðlabankinn hafi heimild til þess að setja innlánsstofnunum reglur um gengisbundnar eignir og skuldir og um endurlánajöfnuð sem ætlað er að koma í veg fyrir töf vegna gengisbreytinga. Hér er um mikilvægt öryggisatriði að ræða fyrir íslenska bankakerfið, að girða þannig fyrir gengisáhættu eftir því sem kostur er.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að 9. gr. laganna verði breytt þannig að Seðlabankinn geti með samþykki viðskrh. betur tryggt en nú er að raunvextir útlána í innlánsstofnunum séu hóflegir og að jafnaði ekki hærri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Þá er einnig lagt til að Seðlabankinn geti bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til þess að draga úr óhæfilegum vaxtamun inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnananna. Með þessum breytingum er áréttuð heimild Seðlabankans til þess að veita vaxtaákvörðunum innlánsstofnana aðhald. Hér er fyrst og fremst verið að skerpa þennan íhlutunarrétt Seðlabankans án þess að raska í meginatriðum því fyrirkomulagi vaxtaákvarðana sem í gildi hefur verið, þ.e. röð ákvarðana og valddreifingu. Reynslan hefur sýnt að það er erfitt að meta nákvæmlega
raunvexti til samanburðar milli landa og þá er einnig matið á vaxtamun inn- og útlána ekki síður vandasamt. Þess vegna er eðlilegt að gefa Seðlabankanum færi á að meta hvað hóflegt getur talist í þessum efnum og þá ekki síður hvað varðar raunvexti en vaxtamun, en áður var slíkt mat lagt í hendur bankans hvað varðar vaxtamuninn.
    Um leið og ég tók við starfi viðskiptaráðherra sumarið 1987 skrifaði ég Seðlabankanum bréf og óskaði eftir því að hann gerði ársfjórðungslega grein fyrir samanburði sínum á raunvöxtum hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar og fyrir þróun vaxtamunar. En þetta eru einmitt viðmiðanirnar í 2. mgr. 9. gr. seðlabankalaganna. Þessi samanburður hefur verið nokkuð laus í böndum og mér virðist nú ljóst að eini öruggi samanburðurinn á raunvöxtum milli landa felist í samanburði á raunvöxtum á ríkisskuldabréfum. Þessir vextir gegna einnig því lykilhlutverki, þar sem þeir hljóta að öllu jöfnu að vera neðri mörk á vaxtarófinu í hverju landi, þ.e. að besti lántakandinn njóti bestu kjara. Seðlabankinn fær nú það verkefni að vinna með ríkisstjórninni að því að tryggja samræmi í vaxtakjörum á peningamarkaðnum út frá raunvöxtum af ríkisskuldabréfum. Ég hef þegar rætt þetta mál við bankastjórn Seðlabankans og mun á næstunni fylgja því eftir.
    Varðandi framkvæmd vaxtastefnunnar skiptir miklu máli að ekki verði mikið umrót í verðlagi á næstunni

þannig að hvað styðji annað, vaxtaþróunin og verðlagsþróunin. Breytingin sem hér er gerð tillaga um á 2. mgr. 9. gr. gerir íhlutunarrétt í vaxtaákvarðanir á grundvelli mats stjórnvalda á öllum aðstæðum en ekki eingöngu þegar litið er til annarra landa eða vandmetins vaxtamunar alveg skýran. En ég vil einnig geta þess að því hefur verið beint til hv. fjh.- og viðskn. Nd., sem nú fjallar um frumvörpin um verðbréfasjóði og verðbréfafyrirtæki og um eignarleigustarfsemi, að inn í þau frumvörp verði tekin hliðstæð ákvæði um heimild Seðlabankans til að hlutast til um vaxtakjör þessara fyrirtækja þannig að jafnræði ríki á fjármagnsmarkaðnum hvað þetta snertir. En að sjálfsögðu verður að gæta þess við beitingu þessarar heimildar að um sambærilega áhættuflokka sé að ræða þegar ávöxtunarkjörin eru borin saman. Reyndar er einnig að þessu vikið í breytingum á lögum um viðskiptabanka sem ég vonast til að geta mælt fyrir síðar í dag í hv. Ed.
    Ég á ekki von á því að það muni mikið reyna á þetta ákvæði á fjármagnsmarkaðnum utan bankanna en hins vegar þykir mér rétt og nauðsynlegt að samræmis sé gætt milli allra aðila á lánamarkaðnum eftir því sem kostur er. Ég held reyndar að það eitt að slík íhlutun vaki í veðri geti gert mikið gagn ef --- og það er ákaflega mikilvægur fyrirvari --- almennar forsendur eru jafnframt skapaðar fyrir hóflega vexti en það er einmitt markmið stjórnarinnar.
    Hér er lærdómsríkt að hafa í huga reynsluna af vaxtalækkun á sl. hausti. Með fortölum og óbeinni tilvísun til heimildarákvæða í 9. gr. seðlabankalaganna tókst að fá innlánsstofnanir til að lækka vexti verulega samhliða hjöðnun verðbólgu vegna verðstöðvunarinnar. Þetta tókst strax í september, enn betur í október, nóvember og desember. Árangurinn sem náðist með þessu móti var ótvíræður. Nafnvextir af óverðtryggðum skuldalánum í bönkum og sparisjóðum lækkuðu úr um og yfir 40% í ágústmánuði í 12% í desember, en eru nú um 15%. Einnig náðist fram nokkur lækkun raunvaxta af verðtryggðum lánum eða úr 9--11% í 7*y3/4*y--9% nú. Hins vegar er óhjákvæmilegt að nafnvextir hafi hækkað nokkuð þegar verðbólguhraðinn jókst að nýju um áramótin vegna aðgerða í skattamálum og lækkunar á gengi krónunnar. Eftir stendur hins vegar þessi gjörbreyting á vaxtakjörum sem varð og að mínu áliti studdi þar hvað annað, almennar ráðstafanir og aðstæður í efnahagsmálum og óbein tilvísun til heimildar til íhlutunar í vaxtakjörin. Það er einmitt þessi stefna sem ríkisstjórnin hyggst nú fylgja fram og skerpa enn til þess að tryggja að ekki fari úr böndunum vaxtaákvarðanirnar á umþóttunartímanum sem nú fer í hönd að lokinni verðstöðvun.
    Þá kem ég að 3. gr. frv. en í henni er lögð til sú breyting að viðurlög skv. 41. gr. seðlabankalaganna renni að *y3/4*y hlutum í ríkissjóð. Samkvæmt lögum og reglugerð um Seðlabankann hefur bankinn heimild til þess að innheimta viðurlög ef hlutfall lausafjár er fyrir neðan sett mörk eða ef ekki er staðið við skyldu til innlánsbindingar. Þessi viðurlög eru mjög mikilvæg

til þess að tryggja að settum reglum sé fylgt í þessum efnum sem er grundvallaratriði við framkvæmd allrar stefnu í peningamálum. Hjá því verður hins vegar ekki komist að há viðurlög, sem einstaka stofnanir þurfa að greiða, leiði til óánægju og þrýstings á stjórnvöld og Seðlabankann að lina tökin og draga úr viðurlögunum. Menn gera því jafnvel skóna í umræðum að tekjur Seðlabankans af viðurlögunum hafi áhrif á ákvarðanir hans á þessum sviðum. Þetta er fjarri lagi og vegna þess hversu þýðingarmiklu hlutverki þessi stjórntæki gegna er mikilvægt að þau verði ekki veikt með áróðri af þessu tagi. Einfaldasta leiðin til þess að gera það ljóst að tekjur af viðurlögunum ráða engu um ákvarðanir Seðlabankans er að breyta lögum um hann þannig að innheimt viðurlög skv. 41. gr. laganna renni að mestu leyti til ríkissjóðs sem einnig fær reyndar helminginn af hagnaði af bankanum. Hér er lagt til að viðurlögin renni til ríkissjóðs að *y3/4*y
hlutum. Með því er ljóst að Seðlabankinn hefði ekki lengur verulegan hag af þessum viðurlögum og ætti það að kveða niður kröfur á hendur bankanum um endurgreiðslu þessa fjár.
    Að endingu er svo í 4. gr. lagt til að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um innheimtu viðurlaganna á árinu 1988 og að þau greiðist þegar að *y3/4*y hlutum í ríkissjóð.
    Ég vil upplýsa hv. þingdeild í þessu sambandi um það að innheimt viðurlög á síðasta ári námu samtals 335,8 millj. kr. en samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu sem hér er gerð tillaga um mundu 251,8 millj. kr. koma í hlut ríkissjóðs á þessu ári sem eru tekjur sem ekki hefur verið reiknað með í fjárlögum.
    Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að óska þess að þetta mál hljóti skjóta meðferð hér í deildinni. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn. Ég vil líka láta í ljós þá ósk að heppilegt væri ef unnt væri að mæla einnig í dag fyrir frumvörpum sem eru samferða þessu frumvarpi um viðskiptabanka og um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.