Rækjuveiðar og vinnsla
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Í lögum um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar sem háðar eru sérstökum leyfum segir svo í 2. gr., með leyfi forseta:
    ,,Í þeim greinum veiða, sem háðar eru sérstökum leyfum samkvæmt 1. gr., skal leita leyfis sjútvrn. til að koma á fót vinnslustöðvum eða til aukningar á afkastagetu þeirra sem fyrir eru. Ráðuneytið getur synjað um slík leyfi ef ekki er fyrirsjáanleg aflaaukning á viðkomandi svæði né samdráttur í starfsemi annarra vinnslustöðva á svæðinu. Opinberum fjárfestingarlánasjóðum skal tilkynnt um synjun slíkra leyfa.``
    Eins og þessi tilvitnun ber með sér er tilgangur þessara laga sá og varðar raunar sérstaklega rækju- og skelfiskveiðar að reyna að stilla fjárfestingu í hóf í sambandi við vinnslustöðvar fyrir rækju eða skelfisk þannig að afkastageta slíkra stöðva sé í samræmi við þann afla sem búast megi við á hverjum tíma að náist á land.
    Eins og hv. þm. er kunnugt er jafnan óvíst þegar farið er að nýta nýja stofna hversu endingargóðir stofnarnir eru. Af þeim sökum er auðvitað nauðsynlegt að fara með gát í sambandi við útgáfu vinnsluleyfa og þarf ég ekki að fjölyrða um þann þátt málsins. Á hinn bóginn liggur ljóst fyrir að rækjuvinnslustöðvar eiga um þessar mundir í miklum erfiðleikum um öflun hráefnis og ég hygg að í engri grein sjávarútvegs sé það eins og um rækjuvinnslustöðvar að rekstrargrundvöllurinn er ótryggur og fyrirsjáanlegir erfiðleikar af þeim sökum.
    Af þeim sökum hef ég borið fram fsp. svohljóðandi til sjútvrh.:
,,1. Hversu mörg rækjuvinnsluleyfi hafa verið veitt frá 1. janúar 1984 og hversu mikil er afkastageta þeirra rækjuvinnslustöðva?
    2. Hafði ráðherra hliðsjón af lögunum um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, þegar rækjuvinnsluleyfi voru veitt?
    3. Hversu mikil var úthafsrækjuveiðin frá 1. janúar 1984 til þessa dags, ár hvert, og hver var leyfilegur kvóti sjútvrn.?``