Rækjuveiðar og vinnsla
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Að því er varðar fyrstu spurninguna hafa síðan 1. janúar 1984 ellefu rækjuvinnslufyrirtæki hafið starfsemi. Einhver fleiri hafa fengið heimild til að hefja starfsemi en ekkert úr því orðið, enda allar líkur til þess að svo verði ekki.
    Það er erfitt að gera nákvæma grein fyrir afkastagetu því að hún ræðst af mörgum þáttum. Langflestar vinnslur eru búnar rækjupillunarvélum eins og flestar aðrar minni vinnslur í dag. Hámarksvinnslukvóti fyrir þessar verksmiðjur er á árinu 1988 7100 lestir og átta af þeim vinnslum með 500 lesta hámarkskvóta sem var lægsti kvóti sem úthlutað var til vinnslanna á árinu 1988.
    Að því er varðar 2. liðinn er leyfi til uppsetningar rækjuvinnslu veitt á grundvelli laga nr. 12/1975, um samræmda vinnslu sjávarafla og veiða sem háðar eru sérstökum leyfum. Ef litið er til fjölgunar rækjuvinnsla á þessu tímabili verður að hafa í huga þá aukningu sem var í veiðunum á þessum árum, en frá árinu 1983 til 1987 jókst veiðin úr 6238 lestum í 34.722. Þó segja megi að næg afkastageta hafi verið fyrir í landinu verður að gæta að að á þessum árum fjölgaði mjög þeim bátum sem veiðarnar stunduðu og kom þá upp sú staða að eigi var rækjuvinnsla á viðkomandi útgerðarstað til að vinna aflann.
    Það er mjög erfitt, bæði með tilliti til sjómanna og atvinnu í landi, að fyrirskipa útvegsmönnum og sjómönnum að landa afla sínum utan útgerðarhafnar og í reynd má segja að lögin frá 1975 hafi fyrst og fremst verið miðuð við veiðar á grunnslóð og í innfjörðum og því hafi komið upp alveg ný sjónarmið þegar veiðin hófst á úthafinu og mjög erfitt að neita stöðum sem höfðu allar aðstæður til að koma upp rækjuvinnslu, höfðu húsnæði o.s.frv. og höfðu skip sem höfðu hafið veiðarnar, að koma slíku upp á sína ábyrgð.
    Hitt er svo annað mál að þegar afli dregst aftur saman er staðan í mörgum tilvikum þannig að viðkomandi aðilar hefðu betur látið eiga sig að fara í fjárfestinguna.
    Að því er varðar 3. liðinn er afli á djúpslóð sem hér segir: 1983 6238 lestir, 1984 16.541, 1985 17.229, 1986 30.397, 1987 34.722, 1988 var áætlað 27 þús. lestir, en mjög mikill samdráttur verður á árinu 1989 sem mun hafa mikil áhrif í þessari grein. Á árinu 1988 var í fyrsta sinn gripið til einstaklingsbundinna veiðitakmarkana í úthafsveiðum, en þá miðuðust veiðiheimildirnar við 36 þús. lestir og enn á ný 1989 var þeirri aðferð beitt með mjög miklum samdrætti á bilinu frá 40--60% eins og hv. þm. er kunnugt.
    Ég vænti þess að þessi svör séu fullnægjandi að því er varðar fsp. hv. þm.