Rækjuveiðar og vinnsla
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Eins og svörin bera með sér er augljóst mál að úthlutun á rækjuvinnsuleyfum hefur verið langt umfram þann afla sem búast má við að berist á land að óbreyttum miðum og er enginn vafi á því að sú fjárfesting sem þannig hefur fengist opinber heimild til er liður í þeirri offjárfestingu sem hæstv. forsrh. verður svo tíðrætt um þegar hann m.a. talar um að það vanti ráðdeild í sjávarútveginum. Sjáum við hér eitt glöggt dæmi um það ráðdeildarleysi að mati hæstv. forsrh. sem verið hefur í stjórn sjávarútvegsmála hér á landi.
    Ég vil að vísu segja að mönnum er vorkunn þó að þeir hafi sótt á um að fá rækjuvinnsluleyfi vegna þess að fyrirsjáanlegur var mikill samdráttur í þorskafla og búið var að takmarka slíkar veiðar mjög mikið. Eigi að síður er augljóst eftir á að við höfum ekki farið með nægilegri gát í þessum efnum og það hefur m.a. komið fram í óhóflegri og miskunnarlausri samkeppni milli einstakra rækjuvinnslustöðva um það hráefni sem falt hefur verið hverju sinni sem m.a. hefur valdið því að afkoma rækjuvinnslustöðvanna hefur verið lakari en maður getur búist við ef maður virðir eingöngu fyrir sér unnið hráefni og það verð sem fyrir rækjuna hefur fengist á liðnum árum. Tala ég ekki síst um árið 1986 og kannski 1987 í því sambandi.
    Þessi reynsla er okkur auðvitað áminning um að fara gætilega í sambandi við nýtingu stofna eins og rækjustofnsins sem ekki hefur fengist reynsla fyrir. Ég minnist þess t.d. í sambandi við innfjarðarrækju í Öxarfirði fyrir allmörgum árum að þegar skyndilega var ákveðið af fiskifræðingum að þar skyldi veiði dragast mjög mikið saman fékkst sú skýring í Hafrannsóknastofnun fyrir miklum veiðiheimildum fyrsta árið að jafnan væri óhætt að leyfa nær takmarkalausa sókn í fiskstofn sem áður hefði verið ónýttur og síðan yrði að draga saman. Hafrannsóknastofnun hélt því á þeim tíma fram að það væri ekki hennar að hafa áhyggjur af rekstri eða peningum. Auðvitað verða menn því að gæta sín, læra af reynslunni og skilja að það verður að nýta þær heimildir sem ráðherra hefur hverju sinni til að halda fjárfestingu og sókn í skefjum þegar um nýja fiskstofna er að ræða.