Takmörkun rækjuveiða á næsta ári
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Þau ummæli hæstv. sjútvrh. að ekki sé kannski ástæða til þess að setja sérstakan vinnslukvóta á rækjuvinnslustöðvar á þessu ári staðfestir raunar betur en mörg orð þá niðurstöðu hv. 2. þm. Norðurl. v. að lögunum um samræmingu vinnslu sjávarafla og veiða hefði betur verið meiri gaumur gefinn þannig að reynt hefði verið að halda aftur af mönnum sem vildu fara út í það að setja á fót rækjuvinnslu og efna til hennar. Það er laukrétt hjá hæstv. sjútvrh. að það getur verið freistandi að láta þá menn fá rækjuvinnsluleyfi sem eiga skip sem gera má út á rækjuveiðar. En á hinn bóginn liggur fyrir að þeir menn sem ruddu brautina í sambandi við úthafsrækjuveiðarnar og hafa orðið að skipta um skip hafa verið sviptir rækjuvinnsluleyfinu þótt þeir séu brautryðjendur í þessum veiðum svo að ég taki dæmi af Árskógssandi.
    Það var útgerðarmaður sem hafði gert út á rækjuveiðar öll viðmiðunarárin þegar þorskkvótinn var upp tekinn. Það var ekki tekið tillit til þess þegar þorskkvóta var síðan úthlutað á sérhvert veiðiskip og ég vil aðeins minna á frá þeim tíma að ég hélt því fram og hef raunar haldið fram löngum áður að það væri ástæða til að gefa því gaum hvort ekki væri nauðsynlegt að setja kvóta á úthafsrækjuveiðina þannig að hún nýttist Norðlendingum með svipuðum og sama hætti og síldveiðarnar og humarinn nýtist Höfn í Hornafirði. Og má vera ef sjútvrh. hefði komið af Norðurlandi að ástandið væri annað í sambandi við rækjuveiðarnar og í sambandi við rækjustöðvarnar en nú er þegar sjútvrh. kemur frá Austfjörðum.