Herferð gegn kinda- og hrossakjöti
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Þau ummæli sem hér er vísað til munu hafa verið viðhöfð á flokksþingi Alþfl. Ég hef ekki litið á það sem mitt verkefni að ritskoða það sem þar fer fram. Ég held að það yrði eins og sagt er til að æra óstöðugan. Ég lít svo á að hér hafi verið um að ræða ummæli alþýðuflokksmannsins Jóns Sigurðssonar.
    Þessi viðleitni hefur aldrei komið fram í störfum viðskrh. í ríkisstjórninni. Þvert á móti veit ég ekki betur en að hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson hafi í ríkisstjórninni stutt þá viðleitni, sem þar hefur verið um rætt, að auka sölu á innlendum afurðum. Ég vil taka mjög skýrt fram að sú er stefna þessarar ríkisstjórnar en ekki herferð gegn sölu á innlendum afurðum. Það vil ég leggja ríka áherslu á og ég vil gjarnan úr þessum virðulega stól, sem ég held að sé öllu virðulegri en stóllinn á Hótel Íslandi eða hvar það var, hvetja landsmenn alla til að neyta sem mests af íslenskum afurðum.