Viðvörunarskilti á Reykjanesbraut vegna hálku
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 197 að leggja fram eftirfarandi fsp. til samgrh.: ,,Hefur verið kannað hvort unnt sé að setja upp sjálfvirk viðvörunarskilti vegna hættu á hálku á Reykjanesbraut eða öðrum þjóðvegum?``
    Ástæðan fyrir því að ég hef leyft mér að flytja þessa fsp. er sú að eftir að varanlegt slitlag hefur sem betur fer komið víðar og víðar um landið, Reykjanesbrautin var að vísu einna fyrsti langi spottinn sem lagður var varanlegu slitlagi hér, þá hefur aukist hætta bæði vegna aukins hraða og hálku sem myndast hraðar og oftar en ella og sérstaklega er hættuleg svokölluð blettahálka sem kemur öllum að óvörum.
    Í nútímatækni dettur manni í hug að það sé unnt að setja upp skilti við enda slíkra vega sem mundi mæla hitastigið og gefa viðvörun með rauðu ljósi eða á annan hátt um hvort hætta væri á hálku á leiðinni eða ekki. Ég er sannfærður um að ef þetta yrði gert mundi það draga verulega úr slysahættu og örugglega hægja á mörgum sem stundum keyra heldur lipurt.
    Ég get upplýst í leiðinni að ég var fyrir nokkru staddur vestur í Bandaríkjunum í útjaðri Klettafjallanna og þar er svona skilti. Það kviknar rautt ljós á því þegar hitastig er það að hætta er á því að hálka myndist. Þetta er sérstaklega áberandi hjá okkur á Reykjanesbrautinni þar sem nokkrir staðir mynda slíka möguleika á hálku vegna sjávargangs og raka frá sjávargangi. Vegna nútímatækni og ágætra hönnuða hér á landi dettur mér í hug hvort þetta sé ekki framkvæmanlegt. --- Þessi er spurningin.