Ábyrgð stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Áður en spurningum hv. fyrirspyrjanda er svarað er nauðsynlegt að hafa nokkur atriði í huga.
    Í lögum og reglum er kveðið á um starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs, stöðu og störf stjórnarmanna í sjóðnum, enda að öðrum kosti ekki unnt að afmarka þá ábyrgð sem hvílir á þeim í þessu sambandi. Skv. 3. gr. laga nr. 83/1988 er hlutverk Atvinnutryggingarsjóðs að veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar í útflutningsfyrirtækjum. Jafnframt skal sjóðurinn hafa forgöngu um að breyta lausaskuldum fyrirtækja í útflutningsgreinum í föst lán til langs tíma.
    Í 4. gr. laganna er mælt fyrir um skipun fimm manna í stjórn sjóðsins, en stjórnin á að ákveða lánveitingar að fengnum tillögum samstarfsnefndar lánastofnana atvinnuveganna og Byggðastofnunar.
    Nánari ákvæði koma fram um starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs í reglugerð. Við athugun á laga- og reglugerðarákvæðum má draga ályktanir um helstu heimildir og skyldur stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs.
    1. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs ráði ein málefnum sjóðsins og ráðstöfun fjármagns hans, en hún er vitaskuld bundin af fyrirmælum laga og reglugerða í þeim efnum. Þeir aðrir sem starfa í tengslum við stjórn sjóðsins eða eru henni til ráðuneytis hafa ekki vald til ákvörðunar um málefni sjóðsins. Samstarfsnefnd skv. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar getur ekki bundið hendur sjóðsstjórnar þótt henni sé ætlað að gera tillögur um lánveitingar.
    2. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs stofni til skuldbindinga í þágu hans, annars vegar með lántöku á grundvelli heimilda í lögum og hins vegar með útgáfu skuldabréfa í nafni sjóðsins til skuldbreytinga.
    3. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs geti ekki ráðstafað fjármunum sjóðsins í öðrum tilgangi en þeim sem beinlínis er tiltekinn í 3. gr. laga nr. 83/1988.
    4. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs verði að hlíta fyrirmælum 8.--10. gr. reglugerðar um skilmála lánveitinga, þar á meðal skuldbreytinga, en hafi þó svigrúm til ákvörðunar einstakra atriða slíkra skilmála að því leyti sem þeim er ekki lýst til fullnustu í nefndum reglum.
    5. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs megi ekki veita lán, þar á meðal skuldbreytingu, nema fullnægt sé því meginskilyrði að grundvöllur sé talinn fyrir rekstri lántakanda þegar til lengri tíma er litið að lokum skuldbreytinga á rekstri hans og fjárhag. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs er ætlað að leysa úr hvort þetta sé fullnægjandi, m.a. á grundvelli þeirra gagna sem mælt er fyrir um í 11. gr. og eftir atvikum í 3. mgr. 10. gr. nefndrar reglugerðar.
    6. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs sé óheimilt að veita lán nema settar séu tryggingar fyrir endurgreiðslu í einhverju því formi sem lýst er í reglugerð.
    7. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs taki ákvarðanir um

rekstur hans og feli Byggðastofnun að framkvæma þær undir eftirliti stjórnarinnar, en undir þetta getur ýmislegt fallið. Má telja þar til að stjórnin verður væntanlega að gæta að ávöxtun peningaeigna sjóðsins, að gæta að áhættu vegna gengismunar og að gæta að innheimtu á kröfum sjóðsins, m.a. ef vanskil verða, svo að eitthvað sé nefnt.
    Í ljósi framangreinds, sem gæti verið miklu ítarlegra, er svar mitt við fyrri fsp. um ábyrgð stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina svohljóðandi:
    Hugtakið ábyrgð er notað í ýmsu sambandi í lögfræðilegum skilningi auk þess að eftir málvenju getur verið um ábyrgð að ræða sem ekki hefur beina þýðingu að lögum, t.d. siðferðilega ábyrgð. Þótt ekki verði hér fjallað um ábyrgð manna í öðrum skilningi en lagalegum og þá í tengslum við rækslu stjórnarstarfa í opinberum sjóðum getur umrætt hugtak allt að einu tekið til fjölbreytilegra atriða. Í ljósi þess að algengast virðist að rætt sé um ábyrgð slíkra manna í sambandi við athafnir eða athafnaleysi, sem gæti haft í för með sér bótaskyldu þeirra eða agaviðurlög eða refsiviðurlög gagnvart þeim, verður eftirfarandi umfjöllun alfarið bundin við svokallaða bótaábyrgð og refsiábyrgð á þeim vettvangi auk möguleika á að beitt verði agaviðurlögum vegna brota í starfi. Fyrirmæli laga og reglugerða kveða ekki á um sérstök viðurlög sem stjórnarmenn í Atvinnutryggingarsjóði kunna að geta bakað sér með störfum sínum eða vanrækslu í starfi, enda tæpast að finna dæmi slíks í lagareglum um hliðstæða starfsemi. Heimildum þeirra og skyldum er hins vegar lýst í þessum reglum og hefur verið gerð grein fyrir þeim meginatriðum í þeim efnum hér á undan. Brot stjórnarmanna gegn þessum reglum gætu eftir atvikum haft bótaskyldu og/eða refsiviðurlög í för með sér á grundvelli eftirfarandi heimilda:
    1. Settar lagareglur mæla ekki fyrir um bótaskyldu sem stjórnarmaður í opinberum sjóði kann að geta bakað sér með hátterni sínu í starfi. Til bótaskyldu gæti hins vegar hugsanlega komið við þessar aðstæður á grundvelli almennu skaðabótareglunnar sem svo er nefnd, en hún er ólögfest og styðst við dómvenjur. Samkvæmt þeirri reglu kynni stjórnarmaður í opinberum sjóði að geta
bakað sér bótaskyldu gagnvart ríkissjóði eða lánardrottnum sjóðsins ef annar hvor eða báðir yrðu fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi eða athafnaleysis stjórnarmannsins í starfi. Bótaskylda gæti að þessu leyti hvort sem er tengst refsiverðri háttsemi eða verið henni með öllu óháð.
    2. Til fyrrnefndra agaviðurlaga kynni að geta komið ef stjórnarmaður í Atvinnutryggingarsjóði bryti gegn starfsskyldum sínum, hvort sem er með athöfn sinni í starfi eða vanrækslu, en skv. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar væri forsrh. heimilt að víkja stjórnarmanni frá af slíkri ástæðu.
    3. Hvað refsiviðurlög varðar gætu einkum komið til skoðunar fyrirmæli XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um brot í opinberu starfi,

t.d. ákvæði 136. eða 141. gr. nefndra laga, því stjórnarmenn í Atvinnutryggingarsjóði verða að teljast gegna opinberu starfi í skilningi þessara lagafyrirmæla.
    Svar mitt við seinni spurningu hv. fyrirspyrjanda um hvort ábyrgð stjórnarmanna í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina sé sambærileg ábyrgð bankaráðsmanna og bankastjóra er svohljóðandi:
    Eins og þegar hefur verið getið má ætla að komið geti til ábyrgðar stjórnarmanna ef þeir brytu gegn lögum og reglum í störfum sínum. Sérstakar reglur um réttindi og skyldur bankaráðsmanna og bankastjóra í störfum sínum koma fram í fyrirmælum laga um viðskiptabanka nr. 86/1985, einkum í III. kafla laganna. Þær starfsreglur sem hvíla til samans á bankaráði og bankastjórn samkvæmt fyrrgreindum reglum eru að verulegu leyti hliðstæðar almennum skyldum stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs eins og þær eru afmarkaðar í fyrirmælum laga nr. 83/1988 og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim. Virðist því að sama skapi mega ætla að sambærileg ábyrgð hvíli á stjórnarmönnum í Atvinnutryggingarsjóði annars vegar og hins vegar til samans á bankaráðsmönnum og bankastjórn í ríkisviðskiptabönkum vegna verulegrar vanrækslu í starfi eða annarra brota á þeim vettvangi.
    Eins og ég sagði í upphafi gæti þetta svar verið töluvert ítarlegra. Ég óskaði eftir áliti lögfræðinga á þessu og það er töluvert lengra en ég hef talið mér fært að lesa hér upp því að málið er sannarlega mjög mikilvægt og nauðsynlegt að hér fari ekkert á milli mála. En ég vona þó að þessi svör hafi skýrt þau viðhorf sem komu fram og eru mín.