Ábyrgð stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og vildi gjarnan mega óska eftir því að fá að sjá þá álitsgerð lögfræðinga sem hann hefur fengið. Ég skil vel að hann hafði í fyrirspurnatíma ekki aðstæður til þess að svara öðruvísi en með því að taka útdrátt úr svörum þessara lögfræðinga.
    Svar forsrh. og sú álitsgerð sem hann vísaði til getur að sjálfsögðu orðið til skoðunar hjá þeirri nefnd sem fjallar enn um þetta mál vegna þess að því er ekki lokið á Alþingi og gefur þingmönnum tækifæri til þess þá ef ástæða væri til að koma fram brtt. til að taka af öll tvímæli.
    Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. forsrh. fyrir þessi svör, en vænti þess að hann í síðari ræðu geti upplýst þingheim um það bréf sem við höfðum áður talað um og Ríkisendurskoðun skrifaði út af athugunum hennar á afgreiðslu mála. Ég mundi gjarnan vilja bæta við þeirri fsp. hvort ekki væri eðlilegt að forsrh. hlutaðist til um að Alþingi fengi greinargerð um störf þessarar sjóðsstjórnar frá því að hún tók við og þar til nú að þetta mál er á lokastigi til umfjöllunar á þingi.