Ábyrgð stjórnarmanna Atvinnutryggingarsjóðs
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Sjálfsagt er að afhenda hv. fyrirspyrjanda greinargerð lögfræðinganna í heild sinni.
    Út af bréfi Ríkisendurskoðunar vil ég, með leyfi forseta, lesa það bréf. Það er dags. 12. des. 1988 og er stílað til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisendurskoðun vísar til bráðabirgðalaga nr. 87/1988, um efnahagsaðgerðir, frá því í haust, 4. gr., þar sem segir m.a. að stofnunin skuli fylgjast með starfsemi sjóðsins og gefa Alþingi reglulega skýrslu um starfsemi hans.
    Ríkisendurskoðun óskaði eftir því við Atvinnutryggingarsjóð að hann léti stofnuninni í té gögn sem lágu til grundvallar afgreiðslu sjóðsins á umsókn nokkurra útflutningsfyrirtækja. Stofnunin hefur tekið til athugunar sérstaklega gögn sem lágu til grundvallar afgreiðslu sjóðsstjórnar er varðar Granda hf. Í 2. gr. reglugerðarinnar um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina segir:
    ,,Fyrirtæki koma því aðeins til álita við lánveitingu eða skuldbreytingu samkvæmt reglugerð þessari að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra þegar til lengri tíma er litið og að lokinni skipulagsbreytingu á fjárhag þeirra og rekstri, enda uppfylli þau skilyrði 11. gr. um tryggingar.``
    Af þeim gögnum sem stofnuninni voru látin í té er ekki séð að nefnd fyrirtæki hafi gert grein fyrir að óbreytt rekstrarskilyrði og/eða endurskipulagning á skuldabyrðum geti staðið undir þeim greiðslukvöðum á árinu 1989 sem lesa má úr reikningsskilum fyrirtækjanna. Í þessu sambandi er spurt hvort greiðsluáætlun fyrir árið 1989 hafi borist frá fyrirtækinu til sjóðsins áður en til afgreiðslu kom. Enn fremur er spurt hvaða viðmiðunarreglum sjóðsstjórnin vinnur eftir við mat á þessum þætti.
    Í 11. gr. reglugerðar segir m.a. að stjórn sjóðsins styðjist við mat á áætluðum tekjum fyrirtækisins á móti hreinum skuldum þannig að ætla megi miðað við eðlilega rekstrarafkomu að fyrirtækið geti greitt skuldir sínar á eðlilegum tíma. Ríkisendurskoðun óskar eftir því við stjórn sjóðsins að hún geri grein fyrir framangreinum atriðum.``
    Síðan vil ég taka það fram að Ríkisendurskoðun fékk öll þau gögn sem hún óskaði eftir og tjáði síðan formanni stjórnar að Ríkisendurskoðun hefði engar athugasemdir fram að færa.