Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, en þar sem loðdýraræktin hefur verið mér nokkuð hugleikin í allmörg ár mátti ég til með að segja nokkur orð. Hvað snertir heildarúttekt á því hvort þessi búgrein eigi möguleika hér á landi eða ekki sé ég eiginlega ekki hvernig á að framkvæma þá úttekt. Við vitum að það sem hefur verið að og það sem hefur valdið erfiðleikum er verðfallið sem við vitum að er staðreynd, rangt skráð gengi á síðustu árum og óeðlilegur fjármagnskostnaður hér á landi eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og það að uppbygging fóðurstöðva fór nokkuð úr böndum að mínu áliti. Þess vegna tel ég að það hafi verið rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að hluti af ráðstöfunum stjórnvalda sé í þá átt að greiða fóðrið niður vegna þess að það kemur þá jafnt við alla í hlutfalli við notkun.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram vegna þess að mér finnst þessar heildarúttektir og annað slíkt vera eitthvað svo út í hött. Eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. hafa fréttir gefið til kynna að verð sé nú á uppleið og það vekur hjá manni vonir um að það náist aftur rekstrargrundvöllur fyrir þessari búgrein því að hann var svo sannarlega þegar við byrjuðum.
    Að um 30% vanti upp á að danskir loðdýrabændur telji sig hafa rekstrargrundvöll eins og ég skildi hv. 4. þm. Suðurl. kemur mér á óvart. Ég vissi ekki að ástandið væri svo slæmt þar.