Loðdýrarækt
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að reyna að svara því sem spurt er um til viðbótar eftir því sem tíminn leyfir.
    Varðandi viðmiðunarbústærðina er það svo að það er ætlunin að hvor tveggja viðmiðunarmörkin verði endurskoðuð, í loðdýrarækt og refarækt, en ég nefndi það þó í minni fyrri ræðu, sem rétt er, að ég hef miklu meira orðið var við áhuga manna á því að lyfta markinu í minkaræktinni. Þar telja menn það liggja í raun á borðinu að viðmiðunarmarkið sé of lágt og menn hafa gjarnan talað um að það þurfi að færa það upp a.m.k. um sem nemur 200 minkalæðum, úr 700 í 900 þá, en það verður skoðað gagnvart refaræktinni. ( StG: Ég á frekar við þessi úrvalsrefabú sem skara fram úr með gæði dýra.) Já, já. Það er annar handleggur kannski. En almennt hvað varðar reksturinn skiptir þetta fyrst og fremst máli varðandi lánsmöguleika, ekki satt, og auðvitað tekjur og veltu búanna líka.
    Varðandi samræmið milli refaræktar og minkaræktar gagnvart aðstoð Framleiðnisjóðs við búháttabreytingar er það svo að refaræktin fær sambærilega aðstoð, þ.e. þeir sem halda áfram í refarækt fá stuðning sem í heildina tekið er sambærilegur en dreifist yfir þrjú ár. Ástæðan fyrir því að minkaræktin fær þetta greitt núna er sá tilkostnaðar sem fylgir því að færa sig úr refaræktinni yfir í minkaræktina sem er töluverður vegna þess að þar eru öðruvísi búr og annað slíkt. Refabændur vita hins vegar fyrir fram að hverju þeir ganga gagnvart þessari aðstoð þetta ár og næstu tvö ár.
    Aðstoð við refaræktina sem tekur mið af uppsöfnun söluskatts í greininni er þannig háttað að á árinu 1988 voru teknar frá í þetta verkefni 30 millj., þ.e. handa loðdýrarækt og fiskeldi til samans. Loðdýraræktin fékk mestan hluta af því vegna þess að þar voru menn tilbúnir að endurgreiða 25 millj. af 30 og þeir peningar voru sendir út um jólaleytið. Á árinu 1989, yfirstandandi ári, eru í fjárlögum ætlaðar í þetta verk 70 millj., til loðdýraræktar og fiskeldis samanlagt, og þá leiðir það af líkum að stærsti hluti þeirrar fjárhæðar fer væntanlega til fiskeldisins, en vonandi verður eitthvað hægt að halda áfram að endurgreiða þetta til loðdýraræktar. Þetta kemur sem sagt af fjárlögum. Fóðurniðurgreiðslan, sem gæti numið allt að 55 millj. Já, það er reiknað með að hún komi úr ríkissjóði beint, en lán Framleiðnisjóðs komi inn á lánsfjáráætlun.
    Varðandi spurninguna um heildarúttekt er í sjálfu sér að mörgu leyti þörf á því að vinna enn betur að upplýsingasöfnun um þessi mál, sérstaklega held ég þá þætti sem tengjast skipulagi greinarinnar að uppbyggingu, svæðaskiptingu og annað slíkt, en ég tek þó undir að það er vandasamt að meta hvaða framtíðarmöguleika þessi grein hefur hér einfaldlega vegna þeirrar óvissu sem er á hinum alþjóðlegu mörkuðum og ræður auðvitað mestu um afkomuna hjá okkur eins og annars staðar eins og dæmin sanna. Það

er ljóst að ýmislegt hefði mátt betur til takast við uppbygginguna hér, en ég held að menn megi þó ekki skella allt of mikið skuldinni á sjálfa sig vegna hluta sem eru utanaðkomandi og ekki á okkar valdi að hafa áhrif á, eins og skinnaverð á alþjóðlegum mörkuðum.
    Það kann vel að vera að hér séu á ferðinni ónógar aðgerðir. Þær hefðu sjálfsagt mátt vera meiri þótt ýmsum þyki þær miklar, sérstaklega þegar búið er að margfalda þær með 10 eins og í Dagblaðinu. Ég vek þó athygli á því varðandi þær tölur sem ég nefndi um að hér væri á ferðinni bein inngreiðsla sem nemur um einum þriðja af verðfalli skinnanna að þá er miðað við algeran topp í skinnaverði, mjög hátt verð og það er enginn kominn til að segja að við hefðum þurft að fara alla leið þangað upp með stuðning, enda var greininni ætlað að skila arði og það eðlilegum afkastavöxtum miðað við þá afkomu. Þá er líka eftir að taka með inn í reikninginn aðstoð Framleiðnisjóðs og þá hluti aðra sem gripið hefur verið til.
    Ég er alveg sammála því að þessi grein þarf ekki á meiri lánum að halda, heldur miklu fremur öðru, enda er hér einmitt um að ræða að verulegu leyti beina aðstoð í formi til lækkunar á framleiðslukostnaði og það er mjög mikilvægt. Jafnframt eru skuldbreytingaraðgerðir Framleiðnisjóðs hugsaðar að hluta til sem ákveðin nauðungasamningaaðgerð í því formi að reynt verði að ná samningum við helstu lánardrottna refabænda um niðurfellingu skulda að hluta til jafnframt því sem afgangnum verði komið í skil og þá að einhverju leyti með fjármagni sem tekið verður að láni á vegum Framleiðnisjóðs.
    Ég er svo þeirrar skoðunar að það verði að athuga það í fullri alvöru hvort ekki þurfi hér að koma til verðmiðlunarsjóður eða verðsveiflusjóður sambærilegur við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins eða annað slíkt, einfaldlega vegna þeirra miklu sveiflna sem þessi grein þarf að búa sig undir að mæta í framtíðinni eins og nú um stundir.
    Og að lokum, virðulegi forseti, ég þakka þolinmæðina, er það mín skoðun að það eigi að gefa þessari grein ákveðinn viðbótarreynslutíma upp á 2--3 ár. Það væri skelfilegt slys ef þetta hryndi allt í höndunum á okkur núna og það sé lágmark að menn hafi þolinmæði og þrautseigju til að sjá til a.m.k. 2--3 ár í viðbót og lesa í þróunina á alþjóðlegum mörkuðum m.a.