Samgöngur á Austurlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Eins og þessi tillaga ber með sér er hún flutt af öllum þingmönnum Austurlands og það er kannski það mikilvægasta í sambandi við þennan tillöguflutning að hún áréttar hyggjur þingmanna kjördæmisins að því er varðar framgang vegamála í héraðinu og höfðu menn þá ekki fengið þau tíðindi, sem síðan spurðust, að fjármagn til vegaframkvæmda var stórlega skorið niður.
    Það getur þó ekki haggað því að þingmenn kjördæmisins leiti eftir stuðningi Alþingis við framgang samgöngumála í kjördæminu, jafnþýðingarmikil og þau eru á Austurlandi eins og raunar alls staðar annars staðar í hinum dreifðu byggðum. Það hefur oft verið sagt úr þessum ræðustól, en kannski verður það aldrei of oft sagt, að enginn einn framkvæmdaþáttur er jafnmikilvægur og sá að koma á líðanlegum samgöngum um þetta land.
    Hér er sérstaklega lögð áhersla á rannsóknir í sambandi við jarðgangagerð og það hlýtur að verða mál sem á verður sérstaklega litið í sambandi við endurskoðun á vegáætlun sem fram fer á þessum vetri og ég legg áherslu á að um það verði fjallað í þingmannahópnum. Þar hafa menn möguleika á því að gera tillögur um einhverjar fjárveitingar til rannsókna á þeim grundvelli sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Mér þykir hins vegar vert að taka alveg sérstaklega fram í þessu sambandi að það eru mörg önnur brýn verkefni sem bíða á Austurlandi og þar er að sjálfsögðu langsamlega mikilvægast og nærtækast, sérstaklega vegna þess að það kostar ekki svo ýkja mikla fjármuni, að koma á bærilegu samgöngukerfi um Fljótsdalshérað.
    Það hefur oft og einatt borið á góma hver vandi er í landbúnaði eða hverjir möguleikar og það liggur alveg fyrir að fólk vill halda búsetunni þrátt fyrir að það hafi ekki nægilegt framfæri af hefðbundnum búgreinum. Það er hægt að sjá það og sanna með mörgum hætti og þannig vill til að fólk leggur það m.a. á sig að drýgja tekjur sínar með því að aka í þéttbýlisstaðina og stunda þar vinnu að hluta til. Það er alveg augljóst mál að þar sem komið er bundið slitlag auðveldar það samgöngur og auðveldar fólki að nýta þessa möguleika. Fyrir því er fengin reynsla. Það eru vissulega fyrir hendi á Austurlandi eins og reyndar í öllum landshlutum mikil og brýn verkefni í þessum efnum.
    Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ég veit að tillagan hefur verið vel skýrð í framsöguræðu og veit að þar hafa verið túlkuð sjónarmið okkar þingmanna Austurlandskjördæmis þannig að ég læt þessi orð nægja um mína afstöðu.