Samgöngur á Austurlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls um þessa tillögu, meðflm. mínum að henni, fyrir þeirra innlegg í umræðuna.
    Ég vil aðeins vegna ræðu hv. 4. þm. Austurl., sem minntist á önnur samgöngumál í þessu sambandi og samgöngur á Fljótsdalshéraði sérstaklega, taka undir orð hans að því leyti að það hefur í rauninni alltaf verið mjög áríðandi að samgöngur innan sveitar séu góðar og greiðar. En ekki síst er það áríðandi nú við þá breyttu atvinnuhætti sem eru í sveitum. Sveitafólk þarf í vaxandi mæli á því að halda að drýgja tekjur sínar með þeirri atvinnu sem til fellur þó að um nokkuð langan veg sé að sækja. Það eru þegar dæmi þess að svo sé og hægt að tilfæra mörg dæmi sem ég hirði þó ekki um á þessu stigi.
    Vegáætlun og endurskoðun hennar kemur nú til umræðu á hv. Alþingi innan tíðar og þá gefst e.t.v. tækifæri til að rekja þennan þátt málsins betur, en þessi jarðgangagerð er sérverkefni með sérstökum hætti og verkefni sem þarf mjög langan undirbúning og mjög langan aðlögunartíma og ekki síst þurfa menn að gera sér grein fyrir því, bæði hv. þm. og stjórnvöld önnur, með hverjum hætti þessar stórframkvæmdir verða fjármagnaðar til frambúðar.