Samgöngur á Austurlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil aðeins útskýra það vegna þess að hæstv. ráðherra var ekki við upphaf umræðunnar að ég gat þess að hann hefði unnið að málinu og vil endurtaka þakkir fyrir að það hefur verið hrundið af stað framkvæmdum og nefndarskipan varðandi þetta mál. Ég mun reyndar hafa sagt í minni framsöguræðu að nefnd hafi verið skipuð í málið eftir að tillagan kom fram. Ef það er rangt biðst ég velvirðingar á því, en það skiptir ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að þetta mál er komið áleiðis. Ég gat þess einnig í minni ræðu að það væri eðlilegt og sjálfsagt að Alþingi fylgdist með og þessi tillaga fengi þinglega meðferð því að að sjálfsögðu koma þessi mál til kasta Alþingis að lokum.
    Ég vildi aðeins endurtaka þetta og endurtaka þakkir til hæstv. samgrh. fyrir að hann hefur hrundið þessu máli af stað því að löng ferð byrjar með einu skrefi.