Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 86 er til umræðu till. til þál. um áætlun um vegaframkvæmdir á Vesturlandi. Flm. eru tveir hv. þm. Vesturlandskjördæmis, númer fjögur og fimm. Það er talað hér um að æskilegt sé að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta Vegagerð ríkisins gera áætlun um vegaframkvæmdir á Vesturlandi umfram þá langtímaáætlun sem nú er í gildi. Um þessa till. er ekki nema allt gott að segja. Þetta er góð tillaga. Í henni kemur fram mikið af upplýsingum, súluritum og öðru sem horfir til þess að fræða menn um þær miklu framkvæmdir sem þarna bíða.
    Hv. flm., 4. þm. Vesturl., fylgdi þessari till. að sjálfsögðu myndarlega úr hlaði eins og hans er von og vísa. Hann minntist á tillögu um langtímaáætlun í vegagerð er lögð var fyrir Alþingi á 105. löggjafarþingi 1982--1983. Þó að sú tillaga væri ekki samþykkt hefur hún verið stefnumarkandi eins og við vitum öll.
    Það er hverju orði sannara að á Vesturlandi er mikill áhugi á þessum málum og þar þarf mikið að gera. Það er enn fremur rétt hjá málshefjanda að Vesturland hefur nokkra sérstöðu að þessu leyti eins og tíundað er í grg. neðarlega á bls. 2 í fjórum töluliðum, þ.e. að á Vesturlandi eru langir og fjölfarnir vegir utan hringvegarins, á Vesturlandi nýtist hringvegurinn tiltölulega lítið, drjúgur hluti vegafjár til Vesturlands hefur farið til lagningar vegar á Holtavörðuheiði og í Norðurárdal þar sem er um mjög dýra vegagerð að ræða og á Vesturlandi eru margir fjallvegir. Allt er þetta rétt og satt. Satt að segja eru þar mjög brýn verkefni fyrir höndum einnig í lágsveitum, t.d. vegurinn um Mýrar sem þolir nú ekki lengri bið og er búinn að bíða nógu lengi. Þó verður að segjast eins og er að það hefur nokkuð vel unnist á síðustu árum í þessum efnum.
    Við ræðum þessi mál auðvitað miklu nánar síðar í vetur og þrátt fyrir allt slær það mann við lestur þessarar till. að það sé e.t.v. nær, að það sé e.t.v. réttara að ræða frekar um fjárþörf og fjáröflun til þessara framkvæmda en óska sífellt eftir nýjum og nýjum áætlunum. Áætlanir eru að vísu góðar og þær eru nauðsynlegar. Þær þurfa að vera fyrir hendi áður en framkvæmdir eru hafnar, en það er heldur leiðinlegt að verja löngum tíma og allmiklum fjármunum í áætlanagerð en leggja síðan þessi hefti upp á hillu þar sem þau rykfalla oft og tíðum, jafnvel árum saman. Þess vegna held ég satt að segja, þó að þessi till. sé góðra gjalda verð og ég sé fylgismaður hennar, stuðningsmaður, að jafnvel við á Vesturlandi höfum nægar áætlanir til þess að vinna úr. Þó má segja að við þurfum að athuga þjóðbrautirnar betur. Mér hálfleiðast orðið þessar eilífu áætlanir, úttektir, heildarúttektir og annað slíkt og langt mas um þessa hluti.
    En þar sem eru frekari umræður um þessi mál öll í vændum ætla ég að leyfa mér að nefna tvö atriði í lokin sem eru í vinnslu og væri ástæða til að spyrja hvernig miðar og við þekkjum vel, þingmenn

Vesturlands. Það stendur yfir könnun á brúar- og vegagerð yfir Gilsfjörð. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, stórt byggðamál. Við þurfum að spyrja hvernig þessari áætlun miði og halda þessu máli vel vakandi og minnast á það öðru hvoru við félaga okkar, þingmenn Vestfjarða. Við skulum spyrja um þetta mál og við skulum líka spyrja um hvernig gangi með málaferlin á Laxárdalsheiði. Er ekki hægt að fara að ljúka þeim svo að því raunhæfa verkefni verði þó haldið áfram áður en langir tímar líða? Það er búið að líða nógu langur tími á þeirri ágætu heiði þar sem lítið hefur verið gert að undanförnu, en verki ólokið.