Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það sannast með þessum tillöguflutningi og þeirri umræðu sem hér fer fram eins og endranær hversu vegamálin eru hugleikin þingmönnum úr hinum dreifðu byggðum og hefur það ekki legið í láginni á Alþingi hver áhugi hv. fyrri flm. hefur verið í þeim efnum.
    Þingmaðurinn talaði nokkuð mikið um framkvæmd langtímaáætlunar og talaði sérstaklega um svik í þeim efnum. Þar notaði hann sem mælikvarða þá viðmiðun sem lögð var til grundvallar þar sem gengið var út frá því að við ákveðið hlutfall af þjóðarframleiðslu yrði miðað þegar vegagerðarframkvæmdir yrðu ákvarðaðar. Það er að sjálfsögðu hárrétt hjá hv. þm. að þetta gekk ekki eftir eins og áætlað var í langtímaáætlun. Hins vegar hygg ég að markaðir tekjustofnar, sem ákvarðaðir höfðu verið til vegaframkvæmda, hafi skilað sér eins og til stóð. Það er svo annað mál að það hefði verið hægt að hugsa sér að hækka þá tekjustofna svo að þarna hefði meira fjármagn verið til ráðstöfunar. En eins og ákveðið var að skattar væru á umferðina komu þeir til skila. Á þessu varð hins vegar breyting á þessu ári og það kom fram hjá hv. ræðumanni að hann var ekki alls kostar ánægður með hvert útlitið væri um þessar mundir.
    Þetta finnst mér vera rétt að komi hér fram því að ef það er verið að tala um fyrrv. ríkisstjórnir sem að þessum málum hafa staðið sem svikara eru þeir sem hafa tekið við í þeim efnum tvöfaldir í roðinu þar sem hvorki er miðað við hlutfallstölu né heldur markaða tekjustofna. En þetta haggar að sjálfsögðu ekki því sem er aðalatriði við þennan tillöguflutning og fjarri því að ég ætli sérstaklega að fara út í eldhúsdagsumræður í þessu efni að öðru leyti en framsöguræðan gaf sérstaklega tilefni til.
    Það er líka út af fyrir sig eðlilegt að þingmenn Vesturlands hafi miklar áhyggjur því að þar held ég að sé þröngt fyrir dyrum með framkvæmdafé á þessu ári. Má reyndar öllu til skila halda ef sú fjárveiting sem ætla má að gangi til þess kjördæmis nægi til að greiða þann kostnað sem þegar er áfallinn. Þetta sýnir að menn hafa verið að leitast við að koma þessum málum í bærilegt horf meira af vilja en mætti og ætla ég ekki að lasta það. En áhyggjurnar eru vissulega eðlilegar.
    Það sem ég vildi svo segja sérstaklega um þennan tillöguflutning er að mér finnst tillagan vera gott innlegg inn í umræðuna um vegamálin. Það er hárrétt sem kemur fram bæði í greinargerð með tillögunni og eins í framsöguræðu. Það hefur unnist svo mikið í vegaframkvæmdum á síðustu árum sem sérstaklega hefur þó verið bundið við framkvæmdir á varanlegu slitlagi að það er gífurlega mikil þörf á því að fara að horfa meira en gert hefur verið til þeirra verkefna sem þar hafa ekki verið sérstaklega á dagskrá. Að því leyti er þessi tillaga fullkomlega tímabær og eðlileg.
    Það fór fram umræða á undan þeirri umræðu sem nú fer fram um vegaframkvæmdir á Austurlandi og þar gat ég þess hve mikilvægt væri í því kjördæmi að tengja hinar dreifðu byggðir þar við þéttbýliskjarnana.

Þetta gildir að sjálfsögðu alveg eins um önnur kjördæmi nema að því leyti sem það er hárrétt, sem kom fram hjá flm., að kjördæmin liggja misjafnlega við hringveginum. Það er hárrétt sem hann hefur bent á í þeim efnum.
    Hvort sem menn fallast á að gera áætlun í þá veru sem hér er gert ráð fyrir eða ekki, sem ég teldi af hinu góða, tek ég alveg sérstaklega undir þær grundvallaráherslur sem koma fram í þessari tillögu, þ.e. að það verði farið að setja upp sem ákveðið markmið að byggja upp alla vegi landsins.
    Ég hef það helst við þessa tillögu að athuga að þar eru markmiðin bundin við umferð 100 bíla. Það teldi ég að ætti ekki að vera, m.a. vegna þess að það er reynsla fengin fyrir því að um leið og búið er að bæta vegina eykst umferðin og er ekki nærri því eins mikið farið um þessa slæmu vegi og þörf væri fyrir vegna þess að þeir eru í svo misjöfnu ástandi. Ég held að það ætti ekki að vera með slíka viðmiðun og frekar að horfa á þarfir byggðanna í þessum efnum og þarfir fólksins án tillits til þess hve margir bílar fara þar hjá garði á hverjum degi.
    Það er mikilvægt að taka upp umræðu um vegamál fyrir utan það sem til stendur í sambandi við endurskoðun á vegáætlun sem fram fer á þessum vetri og það er þýðingarmikið að það komi fram á Alþingi áherslur um það að vegakerfið í landinu verði allt tekið fyrir þegar fjallað er um vegamálin. Að því leyti er þessi tillaga gott innlegg inn í þá umræðu.