Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það er athyglisvert og segir sína sögu að hér raða sér í röð þáltill. um samgöngumál. Við Íslendingar búum í stóru landi miðað við fólksfjölda og sú alvara verður ljósari með hverjum deginum sem líður að alveg eins og byggð í víðlendum löndum, t.d. Ameríku á sínum tíma, lagaði sig að járnbrautunum blasir við að annað tveggja gerist í þessu landi að við klárum á fremur stuttum tíma að koma akvegakerfinu í viðunandi ástand eða við sitjum uppi með að það hefur mjög miklar og alvarlegar afleiðingar á byggðaþróun í þessu landi.
    Ég tel að sú upptalning sem hér er sett fram á vegum á Vesturlandi sé ágætt sýnishorn af því sem þar brennur harðast á mönnum. En ég vil bæta því við að ef ætti að taka Vestfirði inn í svona umræðu þýddi ekki að setja fram kenninguna um 100 bíla meðaltalsumferð á ári einfaldlega vegna þess að þar eru stór vegasvæði þar sem ekki einn einasti bíll kemst áleiðis yfir vetrartímann. Og þó að umferðin sé mikil í sex mánuði yfir sumarið dygði það ekki til að halda uppi því meðaltali sem menn eru hér að setja fram.
    Allar hugmyndir um notkun á vegum hafa reynst rangar. Umferðin hefur orðið miklu meiri og þess vegna held ég að það sé nær í markmiðum að menn miði við það þar sem ætla mætti að umferðin næði þessum eða hinum bílafjöldanum.
    Það var minnst á Gilsfjörð áðan og sú rödd kom úr Dölum vestra að það þyrfti að tala við Vestfirðinga, brýna þá í því máli. Það er nú svo að ekki er nema eðlilegt að sú rödd komi frá Vestfjörðum og þær raddir að það þyrfti að fara yfir Gilsfjörð og ég hygg að ekki þurfi að brýna neinn mann á Vestfjörðum í sambandi við nauðsyn þess að þar komi vegur.
    Það var einnig minnst á það í framsöguræðunni að eitt kjördæmi Íslands væri algerlega fyrir utan hinn margumtalaða hringveg. Og það hafa heyrst raddir á Vestfjörðum mjög harðar sem hafa farið fram á að það yrði viðurkennt að hringvegurinn væri að sjálfsögðu ekki hringvegur um landið nema hann næði þá jafnframt um Vestfirði og það yrði breytt númerakerfinu á vegum landsins. Mönnum finnst kannski ekki merkilegt að heyra þetta, en auðvitað er það sannleikurinn í þessum efnum að sama kjördæmi og enga viðurkenningu fékk á því að hringvegur um landið þyrfti að liggja um það einnig er sama kjördæmið þar sem byggðaþróunin á verri veg hefur verið hröðust í landinu. Þarna er beint samband á milli. Ef litið verður á ástand vega í þessu landi þegar tólf ára áætlunin hefur verið framkvæmd eru það fyrst og fremst tvö kjördæmi á Íslandi sem sitja eftir með óhemjumikið af lélegum vegum og það eru Vestfirðir og Austfirðir. Þannig standa málin.
    En þó að menn setji fram upplýsingar eins og hv. 4. þm. Austurl. gat um, að menn hefðu ekki staðið nógu vel að fjármagni til vegagerðar og þeir sem styddu núv. ríkisstjórn stæðu sýnu verr en aðrir, þá held ég að það verði örlítið að horfa á þessi mál í

einni heild. Það verður að segjast eins og er að sú ákvörðun að setja Ólafsfjarðarmúlann af stað án þess að ganga frá því að fjármagna hann var í sjálfu sér ávísun á framtíðina. Ég held að ef það verður tekið með inn í það dæmi sem þar er verið að gera og er eitt af því nauðsynlega sem verið er að gera í þessu landi geti þeir sem styðja þessa ríkisstjórn fullkomlega borið sig saman við aðra hvað þetta snertir, enda ætlast ég til þess að þingmenn smækki ekki svo í sniðum í umræðum um samgöngumál að þeir hoppi fram og til baka í afstöðu í þeim efnum eftir því hvort þeir eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar hverju sinni. Ég hef í það minnsta haft í kringum mig marga þingmenn og ég hef aldrei getað markað að það hefði nein áhrif á þeirra skoðanir í vegamálum hvort þeir styddu ríkisstjórn eða ekki.
    Það kom aftur á móti fram hjá 1. flm. þessarar tillögu ákveðinn ótti sem byggist á sögulegum staðreyndum. Það er að þegar ákveðin svæði hafa komið einhverjum málaflokki í viðunandi horf er eins og þau vilji leggjast gegn því að áfram sé haldið annars staðar á landinu með að koma viðkomandi málaflokkum í gott stand. Þá er leitað að nýjum verkefnum. Vissulega gætir þessa ótta einmitt í dreifbýlinu og ég held að af þeirri ástæðu sé rétt að það þurfi að leggja í það vinnu núna á næsta ári að marka nýtt tímabil í samgöngumálum og áætlanagerð, orð eru til alls fyrst, og þá þarf að leggja allt landið undir.