Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mér fannst vafamál að taka til máls um þá tillögu sem hér er á dagskrá vegna þess að hún er að mínum dómi tæplega þess virði. Nú liggur það fyrir að það á samkvæmt lögum að endurskoða reglulega vegáætlun á þessu Alþingi og þá verða vegamálin í heild tekin til endurskoðunar og afgreiðslu. Samtímis liggur fyrir að langtímaáætlun í vegagerð er í miðjum klíðum og lýkur ekki fyrr en 1994. Hitt er aftur annað mál að það getur verið rétt að hefja sem fyrst undirbúning að nýrri langtímaáætlun að loknu því langtímabili sem nú stendur yfir.
    Hér er verið að fara fram á að gerð verði áætlun á árinu 1989 um vegaframkvæmdir á Vesturlandi umfram langtímaáætlun sem nú er í gildi og síðan verði verkin unnin á næstu sex árum. Þetta getur vitaskuld ekki gerst nema það komi þá einhvers staðar að nýtt fjármagn og það árar ekki með þeim hætti nú, enda sagði fyrri flm. að nú hefði syrt í álinn um skeið. Hann hefði getað rætt það nánar í sínum þingflokki þar sem hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. eru í þeim flokki.
    Ën það er rétt, sem kom fram hjá Ólafi Þ. Þórðarsyni, að það á að taka heilstætt á þessum málum og það er tilgangslaust að mínum dómi að flytja hér tillögu um að taka út úr til séráætlunar einstök kjördæmi landsins því að við verðum að líta á landið í heild.
    Ég tel ekki ástæðu til að höggva í það ferð eftir ferð í þessari umræðu hvernig þessi mál eru leikin nú þar sem fjárlög kveða á um að ekki verði skilað til Vegasjóðs á þessu ári 870 millj. kr. af því sem inn kemur vegna sérmerktra tekjustofna Vegagerðarinnar. Ég sé ekki ástæðu til að höggva í það neitt frekar að þessu sinni. Það kemur til umræðu þegar vegamálin í heild koma fyrir síðar í vetur. En fjármagnið er auðvitað undirstaða þess að það sé hægt að vinna einhver verk í þessum efnum. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, Halldóri Blöndal, að í síðustu tveimur ríkisstjórnum stóð Sjálfstfl. á verði gagnvart samstarfsflokkum sínum fyrir vegamálin og samgöngumálin í landinu. Ef þeirrar varðstöðu hefði ekki notið við hefðum við ekki verið komnir jafnlangt áleiðis í vegamálum og þó raun ber vitni. Þannig er þörf á varðstöðu í þessum efnum og ekki einungis varðstöðu heldur sókn. Þeir sem fara með forustu í þeim málaflokki innan ríkisstjórnar og hafa það hlutverk með höndum að standa í þeirri varðstöðu og standa fyrir þeirri sókn. Það gildir alveg jafnt þó að nú hafi syrt í álinn um skeið eins og hv. fyrri flm. orðaði það sjálfur.
    Ég ætla ekki að lengja þetta. Þetta er ekki þess efnis mál að það sé ástæða til að lengja. En hér sagði hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson að eitt kjördæmi landsins væri alveg fyrir utan hringveginn. Hann hefur eitthvað ryðgað í landafræðinni vegna þess að hringvegurinn liggur um Vestfjarðakjördæmi á talsverðum kafla. Þar hefur verið býsna vel séð fyrir uppbyggingu, en þó ekki nema hluta því að hluti af

þeim kafla er enn þá óuppbyggður og hefur þar orðið hvert slysið á fætur öðru, niður brekkurnar fyrir ofan Grænumýrartungu í Hrútafirði. Þar hefur hvert slysið á fætur öðru orðið, bæði í vetur og þó ekki síst í fyrravetur. Þar er því vitaskuld þörf, í Vestfjarðakjördæmi eins og annars staðar í vegamálum í landinu, en það er tilgangslaust að tala þannig um einstaka bletti landsins og einstök kjördæmi í umræðum eins og þessari. Við eigum að beita okkur að því að standa á verði um þennan málaflokk, leitast við að halda því fé sem inn kemur samkvæmt sérmerktum lögum til þessara verkefna en taka það ekki í stórum stíl í rekstur á ríkissjóði eins og nú er gert. Því miður brast sú stífla nú sem við höfum staðið vörð um til þessa.
    Síðan munum við ræða þessi mál frekar þegar vegáætlun kemur til reglulegrar endurskoðunar eins og lög mæla fyrir um, væntanlega síðar í vetur.