Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Þetta verða fáein orð. Ég ætla ekki að hefja hér almenna stjórnmálaumræðu undir þessari till. um vegamál á Vesturlandi og þaðan af síður ætla ég nú í almennt hanaat við hv. þm. Halldór Blöndal sem er eins og þingheimi er kunnugt á miklu flugi þessa dagana og vikið er að á baksíðu Tímans, þ.e. þess tölublaðs sem kom út í morgun. ( HBl: Forsíðu.) Forsíðu þess þá heldur. Mikill heiður er að þm. kveðinn.
    Hv. þm. kom mest lítið inn á dagskrárefnið og þess vegna er ekki ástæða til svara af minni hálfu. Ég ætla að leiðrétta hér eina rangfærslu og hún er sú að þrátt fyrir það sem kann að hafa verið sagt hér um að syrti í álinn og kólgubakkar séu við sjóndeildarhring, þá vex framkvæmdafé til vegagerðar lítillega á þessu ári að raungildi, fer úr rúmum 2800 millj. í 3215 millj. og miðað við reiknitölu fjárlaga er þar um nokkra raungildisaukningu að ræða, sem betur fer, frá því smánarlega framlagi auðvitað sem þessum málaflokki hefur verið veitt undanfarin ár og þarf að gera mikið betur og mikið, mikið betur.
    Vegna gríðarlegs halla á ríkissjóði og erfiðleika við að koma saman fjárlögum var farin sú leið að taka stærstan hluta af sérstakri hækkun bensíngjalds og þungaskatts í ríkissjóð á þessu ári, á þessu eina ári. Það er sérstök afgreiðsla bundin þessum vanda sem núv. ríkisstjórn kom að á haustdögum í miðri fjárlagagerðinni og gerð var sérstök bókun í ríkisstjórn um að þessi afgreiðsla sé bundin þessu eina ári. Framtíðarmarkmið stjórnvalda í þessu efni munu birtast þingheimi hér innan fárra vikna þar sem og þegar kynnt verður tillaga að endurskoðaðri vegáætlun. Þar munu menn sjá bæði þær fjárveitingar sem ætlunin er að verja til þessara mála á næstu árum sem og þá stefnumörkun sem þar verður lagður rammi um.