Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það kom nú nokkuð úr öfugri átt þegar hæstv. samgrh. var að tala hér áðan um óróleika. Ég gat ekki betur séð en hæstv. samgrh. væri býsna órólegur hér í ræðupúltinu. (Gripið fram í.) Það kemur dagur eftir þennan dag, við skulum lofa mönnunum að tala saman. Það var m.a.s. töluvert mikil fyrirferð á hæstv. ráðherra, hann var að tala um að taka menn í kennslustund og annað þess háttar og síðan var hann að tala um og lýsa yfir ánægju sinni yfir því að sjálfstæðismenn væru komnir á einhverja sömu skoðun og hann í flugmálum. Þessi hæstv. ráðherra hefur nú farið með þau mál í fjóra mánuði og ég held að það sé heldur of stuttur tími fyrir hann til þess að ætla að fara að taka aðra í kennslustund í þeim efnum. Grundvöllurinn að árangri í flugmálum byggist á þeirri flugmálaáætlun sem unnið er eftir og gerð var í tíð Matthíasar Bjarnasonar og eru það ýmsir sem höfðu að þeim málum nokkuð komið.
    En þessi aðvörunarorð til okkar flm. eru býsna sérkennileg því að þannig vill til að hæstv. samgrh., eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. tók raunar fram, hefur sjálfur flutt till. til þál. um flugvallarmál. Það gerði hann á þinginu 1986. Hans tillaga er um varaflugvöll. En hvað skyldi nú annars vera varaflugvöllur? Skyldu ekki allir flugvellir vera varaflugvellir? Skyldi það ekki vera svo að það væri á valdi flugstjórans að velja sér varaflugvöll eftir því hvar hagkvæmast væri þegar til þess þyrfti að grípa? Það er ekki vandi að hártoga fyrirsögnina á tillögu hæstv. samgrh. Hins vegar skilgreinir hæstv. samgrh. í tillögunni við hvað sá varaflugvöllur á að miðast og það er við flug íslensku flugfélaganna. Tillagan sem við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson höfum flutt er hins vegar um alþjóðaflugvöll, en hann er bara líka skilgreindur, bæði í grg. tillögunnar og líka í framsöguræðu flm. og m.a. ber hann þar fyrir sig álit frá sérfræðingum í þeim efnum, Félagi íslenskra flugmanna, þannig að það er alveg hrein hártogun að það liggi ekki skýrt fyrir um hvað verið er að tala í okkar tillögu. Ég hygg að þetta hafi nú allir hv. þm. skilið nema þá hæstv. samgrh. og vera má að þetta hafi eitthvað vafist fyrir hv. þm. Jóni Kristjánssyni miðað við það hvernig hann flutti mál sitt hér áðan, hafi hann þá á annað borð lesið tillöguna.
    Það kemur alveg skýrlega fram í grg. með tillögunni að það er átt við flugvöll sem stendur að því leyti framar að öryggisbúnaði og tækjum, að hann geti verið varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Það er beinlínis tekið fram í greinargerðinni og það er tekið fram í grg. að það yrði enginn flugvöllur, ef hún yrði samþykkt og eftir henni farið, sem væri búinn jafn vel nema Keflavíkurvöllur. Það var því alveg óþarfi fyrir hæstv. ráðherra að vera að setja sig á háan hest og vera að vanda um við okkur flm. í þessum efnum. Og þá sérstaklega er það mikilvægt að geta lagt hér fram sem sönnunargagn í þessum efnum tillögu sem ráðherrann hefur sjálfur flutt. ( Landbrh.: Mjög góð tillaga.) Það var enginn að segja það. Það sem hér var verið að tala um var formið í þessum

efnum.
    Það hefur ekki vafist fyrir mönnum, m.a. með tilliti til þess sem sérfræðingar hafa sérstaklega lagt til í þessum efnum, að veðurfarslega er Egilsstaðaflugvöllur einkar vel til þess fallinn að vera varaflugvöllur. Það er svo annað mál, eins og hér hefur komið berlega fram í framsöguræðu fyrri flm. þessarar tillögu, að það er ekki nema að öðrum þræði það hlutverk sem við leggjum til að þessum flugvelli verði valið, heldur að þarna verði komið upp fullkomnum flugvelli sem mundi stórauðvelda samgöngur til Austurlands. Mönnum ætti að vera það fullkomlega ljóst að Egilsstaðaflugvöllur er sá flugvöllur sem liggur í mestri fjarlægð frá Reykjavík og það eru vissir möguleikar sem Austurland hefur með tilliti til alþjóðlegra flugsamgangna sem sérstaklega eru tengdir þeim landshluta. Þar af leiðandi er að sjálfsögðu lögð á það áhersla að sú flugvallarframkvæmd mundi stórlega efla Egilsstaði og Austurland umfram það sem sú framkvæmd sem nú stendur yfir mun gera, sem er að sjálfsögðu einn mikilvægasti árangur sem Austfirðingar hafa náð í samgöngumálum, að fá Egilsstaðaflugvöll byggðan í það horf sem nú er að stefnt. (Forseti hringir.) Já, virðulegi forseti, ég skal ljúka máli mínu.
    Ég legg áherslu á það að þessi till. fái þinglega afgreiðslu. Hún er mikilvægt innlegg í þá umræðu sem fer nú fram, og hlýtur að fara fram, um bættar samgöngur við umheiminn. Ég hef ekki á þessu stigi málsins aðstæður til að meta þær upplýsingar sem hafa komið alveg nýlega fram í þessum efnum og samgrh. hefur skýrt að muni verða hér lagðar fram en auðvitað verða þessi mál öllsömul skoðuð í samhengi.