Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli samgrh. á þeim upplýsingum sem ég hef um varaflugvallarmál, upplýsingum sem ég tel að skipti máli, og það er varðandi það flug sem er nýbyrjað til Keflavíkur á vegum flugfélagsins Flying Tigers. Mér er sagt að þær flugvélar geti lestað 20 tonnum meira frá brottfararstað ef það væri þriggja km langur varaflugvöllur á Íslandi. Þetta snýst um öryggismál og síðan snýst þetta líka um það að Ísland verði í samkeppni við aðrar þjóðir í heiminum um að taka við flugvélum og þjónusta þær með eldsneyti o.s.frv. því að flutningatækni er að fara í loftið í stórum stíl. Þegar verið er að ræða þessi mál væri ekki úr vegi að alþjóðlegt fyrirtæki í flugmálum yrði látið taka út svona málefni á faglegum grunni. Hnötturinn er ekki að verða ýkja stór í samskiptatækni nútímans. Ég á von á því að flutningar eigi eftir að fara í loftið í stórum stíl og Íslendingar eiga þar mikilla hagsmuna að gæta að koma sjávarafurðum sínum loftleiðis á markaði eins og nýlega hefur verið byrjað á. Hér er því um mjög mikið hagsmunamál að ræða. Það er ekki hægt að ræða um endilega tveggja hreyfla eða þriggja hreyfla þotur eða eitthvað svoleiðis. Þetta er málefni sem þarf að líta á frá víðum sjónarhól.
    Ég veit að það er ekki samkomulag í ríkisstjórninni um það að þessi umræddi varaflugvöllur verði reistur af NATO, en ég tel nú að það væri æskilegast því að við erum samstarfsaðilar að NATO og ég tel fullkomlega eðlilegt að við sinnum því samstarfi og vona að utanrrh., þó hann sé ekki hér í salnum, standi í stykkinu í þeim málaflokki. En ég vildi koma þessu á framfæri.
    Ég vona að þessi umræða geti farið fram án einhverrar tilfinningasemi um það hvort flugvélar eru tveggja hreyfla eða fjögurra hreyfla eða hvort þær eiga að fara á 2,4 km braut eða 3 km braut. Þetta er spurning um að við stöndumst alþjóðasamkeppni í þjónustu við flugvélar og ætlum að hasla okkur völl á þeim vettvangi.