Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð eins hv. þm. hér áðan að menn skyldu tala af alvöru um þau mál sem hér eru til umræðu. Ég vil segja það fyrst, virðulegi forseti, að mér fannst eiginlega ekki við hæfi að hæstv. samgrh., Steingrímur J. Sigfússon, færi að bregða sér í það gervi alþýðubandalagsmanna sem mér finnst ekki hæfa honum. Það er þessi hrokafulla framkoma ef einhverjir leyfa sér að hafa skoðanir eða taka til máls öðruvísi en þeim líkar þessum nútíma alþýðubandalagsmönnum, þá er stokkið á menn með yfirlæti og hroka og ég vil segja dónaskap. Mér finnst það einhvern veginn ekki hæfa þessum ágæta manni. Ég veit að það voru mistök hjá honum hvernig hann hóf sitt mál áðan þegar hann fór að tala um það að taka menn í kennslustund og að menn þyrftu að lesa sitt fag eða sínar tillögur áður en þeir færu hér í ræðustól.
    En það sem mér finnst eiginlega standa upp úr af hans svari eða hugmyndum í þessu máli er það að raunverulega kom það fram hjá hæstv. ráðherra að það er ekki búið að ákveða endanlega af hálfu ráðuneytisins eða hæstv. ríkisstjórnar að koma hér upp því sem við köllum alþjóðaflugvelli umfram það sem við höfum í Keflavík sem fullnægir þeim framtíðarkröfum sem þessi þáltill. snýst um. Það getur vel verið að það sé hægt að fullyrða það, og ég dreg það ekki í efa, að miðað við fortíðina, miðað við þann flugvélakost sem Íslendingar hafa átt hingað til, þá sé hægt að notast við Akureyrarflugvöll, nú og Sauðárkrók eins og kom fram í ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, og jafnvel aðra flugvelli. En gagnvart kröfum framtíðarinnar, gagnvart þeirri þróun er það óhrekjanleg staðreynd, hvað sem líður áliti flugráðs og flugmálastjóra, sem var nú afskaplega loðið eins og það var lesið upp hér áðan, þá fullnægja þessir flugvellir ekki þeim kröfum sem verða og eru gerðar þegar um er að ræða tveggja hreyfla þotur. Það getur vel verið að þessar litlu tveggja hreyfla þotur, eins og Arnarflug hefur t.d. notast við og önnur flugfélög eru að nota að vissu marki í flugi hér yfir Atlantshafið, geti notað þessa flugvelli. En hinar stærri, þ.e. þessar tveggja hreyfla þotur sem eru með mikið burðarþol, geta ekki lent nema á Keflavíkurflugvelli. Það er óhrekjanlegt. Ég óska þá eftir því --- hæstv. ráðherra hristir höfuðið --- ég óska eftir því að hann lesi yfir hv. þm. þær tölur sem staðfesta það að þetta sé röng fullyrðing hjá mér. Og þá óska ég eftir því að gerð sé grein fyrir því hvernig flugvellirnir eru útbúnir, undirstöðum, lengd, tækjum o.s.frv., í smáatriðum og það sé borið saman við þær kröfur sem gerðar eru í nágrannalöndum okkar. Við skulum tala um þetta eins og hlutirnir eru.
    Halda hv. þm. að íslenskir flugmenn, sem eru þekktir fyrir það að vera alveg afbragðs flugmenn --- það er staðreynd, það er viðurkennt á alþjóða vísu, hve íslenskir flugmenn séu frábærir flugmenn. Þeim er það mjög meðvitandi hvað öryggið er mikils virði og er það alveg sérstakt hvað íslenskum flugmönnum hefur tekist vel að fljúga í gegnum árin og slysatíðni

er afskaplega lítil hjá íslenskum flugmönnum. --- Halda hv. þm. að Félag íslenskra atvinnuflugmanna sé að senda frá sér greinargerðir, m.a. til flugráðs og hv. þm., þ.e. flm. þessarar till., ef það væri að ástæðulausu? Nei, staðreyndin er sú að þessir menn --- sem koma til með að bera ábyrgð á öryggi farþeganna, á örygginu í fluginu í reynd, ekki við skrifborð, heldur mennirnir sem bera ábyrgð á staðnum, þ.e. þeir sem fljúga flugvélunum og bera ábyrgð á farþegunum --- þeir senda frá sér greinargerð sem staðfestir það sem felst í þáltill. sem við höfum lagt hér fyrir, að það verður að ganga betur frá þessu gagnvart framtíðinni og það verður að koma hér annar varaflugvöllur eða réttara sagt alþjóðaflugvöllur sem er jafngildi eða ígildi varaflugvallar í þeirri merkingu sem við ræðum um þessi mál.
    Ég vil, með leyfi forseta, endurtaka það sem segir í greinargerð öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna og ég las upp hér áðan, þar sem segir um varaflugvöll fyrir flugtak:
    ,,Ef Keflavíkurflugvöllur er lokaður fyrir lendingar vegna veðurs en opinn fyrir flugtak, er skylt að hafa tiltækan varaflugvöll innan ákveðinna fjarlægðarmarka sem ákvarðast af hreyflafjölda flugvélar. Þegar um er að ræða tveggja hreyfla flugvélar verður slíkur varaflugvöllur að vera á Íslandi vegna of mikillar fjarlægðar til annarra nothæfra flugvalla.
    Öryggisnefnd FÍA styður eindregið þá hugmynd að bæði Akureyrarflugvöllur og hinn nýi Egilsstaðaflugvöllur gegni varaflugvallarhlutverkinu og geti tekið við öllum tegundum farþegaflugvéla, nýjum og eldri`` --- ég endurtek: ,,öllum tegundum farþegaflugvéla, nýjum og eldri og leggur öryggisnefnd FÍA þunga áherslu á að þeir verði vel úr garði gerðir til þess að sinna því hlutverki á öllum árstímum. Þar er efst á blaði frá sjónarmiði flugöryggis næg lengd flugbrauta, öryggissvæði við flugbrautir, tækjabúnaður til snjóhreinsunar, slökkvi- og björgunarbúnaður og að sjálfsögðu aðflutningstækjabúnaður eftir því sem við á.``
    Nú sagði hæstv. samgrh. rétt áðan, og las upp úr bréfi frá einhverjum ágætum starfsmanni, ég náði því ekki nægilega vel til að skrifa það niður, að hann
teldi líklegt að Akureyrarflugvöllur fullnægði þeim kröfum sem hér um ræðir. Það vill svo til að þeir flugmenn, sem ræddu við mig um þetta, bentu alveg sérstaklega á það að ef það ætti að nota Akureyrarflugvöll fyrir þotur almennt, líka eldri þoturnar, þá þyrfti skýjahæð að vera 1500 fet og skyggni hið minnsta 5 km. Á Sauðárkróki nægja 600 fet og 3,2 km. Ég tek það fram að ég er enginn sérfræðingur á sviði flugmála, en ég kann nú bara þessar einföldu staðreyndir, þessi einföldu atriði sem menn verða að hafa í huga þegar þeir fjalla um þessi mál. Egilsstaðir, eins og það er núna, þar er það 1000 feta skýjahæð og 4 km skyggni, en þar er hægt að koma því með réttum tækjabúnaði niður í 600 feta skýjahæð og þar með ákveðna styttingu á skyggninu úr 4 km niður í tölu sem ég hef ekki handbæra. Ég vil aðeins vekja athygli á því, hæstv. samgrh., að

svona á að ræða þessa hluti, en ekki eins og hæstv. ráðherra hóf sína ræðu áðan. Það sæmir honum persónulega ekki og ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði um það orð sem komið er á alþýðubandalagsmenn í því sambandi.
    Ég styðst hér mjög við álit flugmanna vegna þess að íslenskir flugmenn eru þeir menn sem ég tek mest mark á í því mati sem hér er um að ræða, fyrir utan auðvitað þá sérfræðinga sem eru sérfróðir um tæki og annan útbúnað.
    Mér kemur það dálítið spánskt fyrir sjónir að jafnvel ráðherra úr röðum alþýðubandalagsmanna skuli aldrei hafa minnst á flugmenn í þeirri umfjöllun sinni um þessi mál hér á Alþingi. Hann talar mest um flugráð og Flugmálastjórn. ( Landbrh.: Það eru margir góðir flugmenn þar.) Það er auðvitað nauðsynlegt og gott, en við skulum ekki síður hafa það í huga hvað þeir menn segja sem eru í starfinu sjálfir. Þetta á alveg eins við þegar við erum að ræða um útgerð og fiskiðnað, þá hlustum við auðvitað og tökum mikið mark á sjómönnum, skipstjórnarmönnum o.s.frv. Það eru mennirnir sem eru úti á vígvellinum, ef ég mætti orða það þannig.
    Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi aðeins fá að koma þessum atriðum að. En ég mótmæli því að hæstv. samgrh. ræði þessi mál á grundvelli fortíðarinnar þegar hann talar um varaflugvelli. Hæstv. ráðherra getur búið til fullt af varaflugvöllum miðað við fortíðina, en það sem við flm. þessarar þáltill. erum að gera er að við erum að tala um framtíðina og við erum að krefjast þess að Íslendingar, sem og aðrir sem fljúga yfir Norður-Atlantshafið á þessum nýju þotum, fái það öryggi í samgöngumálum af hálfu Íslendinga í sambandi við lendingarskilyrðin. Það er lágmarkskrafa að Íslendingar mæti þessari þörf, bæði vegna sjálfra sín og annarra.
    Svo er annað atriði sem menn vildu kannski gera tiltölulega lítið úr en sem auðvitað tengist þessu, því að við eigum að ræða þessi mál bæði út frá sjónarmiði öryggis, sem er númer eitt, og einnig notagildis. Það er skylda okkar ef þau tækifæri skapast sem geta aukið notagildi viðkomandi mannvirkja. Með því að koma upp góðum alþjóðaflugvelli á Egilsstöðum, þá mundi hann hafa alveg gífurlega mikið notagildi, ekki aðeins fyrir þá sem búa á Austfjörðum heldur fyrir íslensku þjóðina alla. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að á Austfjörðum eru einhver mestu og bestu atvinnutækifæri sem til eru á Íslandi og það mesta og besta tækifæri sem við Íslendingar getum fengið til að byggja upp það sem ég vil nefna þriðja svæðið á Íslandi í uppbyggingu framtíðarinnar það er á Austurlandi. Við höfum þegar byggt upp mikið athafnasvæði hér á suðvesturhorninu. Ég kalla það fyrsta svæði. Annað svæðið er Norðurland, Eyjafjörður og þar í kring og Norðurland yfirleitt allt. En þriðja svæðið sem Íslendingar eiga eftir að byggja enn frekar upp eru Austfirðir og í því tilliti er alþjóðaflugvöllur mjög mikilvægur því það skapar ný og önnur tækifæri

sem ég mun ekki víkja að nú í þessari ræðu heldur síðar á þessu þingi.
    Varðandi það atriði að lokum, forseti, um lengd brautarinnar, þá hefur hæstv. samgrh. klifað á því að 2700 m braut væri nægileg. Ég vil segja að það það er að ýmsu leyti rétt. Hún er það sem ég mundi segja nothæf, en við verstu skilyrði er það á mörkunum þegar maður hefur í huga þessar stóru tveggja hreyfla breiðþotur sem munu fljúga yfir Atlantshaf í nánustu framtíð. Það hefði helst þurft að byggja upp 3000 m braut á Egilsstöðum. Við það hefði notagildi flugvallarins aukist gífurlega þessu landsvæði sérstaklega til góða.
    Um það að Íslendingar eigi að gera þetta sjálfir, það þarf náttúrlega ekki að ræða það. Það er svo sjálfsagður hlutur að við Íslendingar gerum það sjálfir sem að okkur snýr. En við skulum ekki blekkja sjálfa okkur og aðra og halda því fram að komi til hernaðarátaka í Norður-Atlantshafi, þá breyti það miklu um það hvernig slík mannvirki tengjast slíkum átökum hvort brautirnar eru 2400 m, 2700 m eða 3000 m. Ég segi því miður er nútímahernaður með þeim hætti að þá er ekkert spurt um lengd flugbrauta eða hvort flugbrautin hafi verið byggð árið 1989 eða 1990.