Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að flytja langa ræðu um það mál sem hér er á dagskrá, enda þekki ég það ekki nægilega vel til þess að fjalla um það eins og aðrir hv. þm. hafa gert í umræðunum hér í dag. Enn fremur veit ég að það liggur á að koma öðrum málum að, ekki síst því máli sem beðið er eftir, en það er tilkynning hæstv. ríkisstjórnar sem er á dagskrá sem síðasta mál.
    Ég hjó hins vegar eftir því, virðulegur forseti, þegar hæstv. ráðherra var hér í ræðustól að hann sagði að í framtíðinni --- og ég skil það svo að hann sé þá að tala um þá framtíð sem hann sér fyrir sem ráðamaður í þessum efnum --- þá verði hér tugir --- hann orðaði það svo --- tugir varaflugvalla á landinu. Alþjóðlegir varaflugvellir.
    Nú er það svo að eitt er að ræða um stofnkostnað þessara flugvalla og hitt er að ræða um rekstrarkostnað þeirra. Á viðurkenndum varaflugvöllum verður að halda uppi vöktum, það þarf að vera til staðar slökkvilið og ýmiss konar annar aðbúnaður. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi, ef við tökum t.d. fæsta tugina svo að talað sé um tugi í fleirtölu, og gerum ráð fyrir því að það verði ekki nema 20 varaflugvellir þannig að það séu aðeins tveir tugir sem hæstv. ráðherra sér fyrir, látið reikna út stofnkostnaðinn í fyrsta lagi og í öðru lagi rekstrarkostnað slíkra flugvalla. Og á hann skrá yfir þetta? Því að ég hygg að hæstv. ráðherra komi ekki hér í ræðustól og tali um að hann sjái fyrir sér í náinni framtíð a.m.k. 20 nothæfa varaflugvelli nema hann hafi gert sér grein fyrir því hver kostnaðurinn er --- nema kostnaðurinn skipti ekki neinu máli. En manni hefur nú skilist á félaga hans, hæstv. fjmrh., að það þurfi að fara sparlega með fé ríkisins á næstunni.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, fá frekari upplýsingar um. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi ekki tekið þessar upplýsingar með sér, þær liggi á borðum hans í samgrn., og ég ætla ekki að gera þá kröfu að hann segi nákvæmlega frá því hér hvaða 20 flugvellir þetta séu sem verði varaflugvellir á næstunni né heldur að hann geti rakið nákvæmlega í einstökum atriðum rekstrarkostnaðinn og stofnkostnaðinn. En við fyrsta hentuga tækifæri þætti mér vænt um að hæstv. ráðherra legði slíka skrá hér fram þannig að maður áttaði sig betur á kostnaðinum varðandi þetta mál.