Alþjóðaflugvöllur á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mér þótti vænt um þessa síðustu ræðu hæstv. samgrh. því hann gerði nú ekki annað en tala um alþjóðaflugvelli og staðla í þeim efnum og ætti þá vonandi að vera öllum fullkomlega ljóst að sú tillaga sem við Guðmundur H. Garðarsson höfum hér flutt hefur að formi til allt það sem til þarf til þess að rísa undir nafni.
    Út frá því sem fram kom í fyrri ræðu hæstv. samgrh. langar mig hins vegar aðeins að vekja athygli á orðum hans um nauðsyn þess að endurskoða núverandi flugmálaáætlun. Þetta er annað framkvæmdaárið og regluleg endurskoðun ætti að fara fram á næsta ári. ( Samgrh.: Nei, á þessu ári. Í árslok þessa árs.) Það er hins vegar alveg hárrétt sem hann segir hér frá að hún er miðuð við að ná fullnægjandi árangri í byggingu þeirra flugvalla sem hún nær til sem eru allir helstu flugvellir landsins. Og það er alveg stórkostlegur árangur ef það næst fram eins og að er stefnt í þeim efnum. Það mikilvægasta kannski við þá áætlun er að hún byggir á mörkuðum tekjustofnum. Og guði sé lof fyrir það að peningarnir til þeirra verkefna ganga ekki nema rétt að forminu í gegnum ríkissjóð, þá væru þeir t.d. ekki til staðar nú í ár. Þar af leiðandi er staða þess máls --- ef okkur ber gæfa til að fylgja þeirri áætlun, það verða eflaust margir samgönguráðherrar búnir að koma og fara á því 10 ára tímabili, að fylgja þeim ákvörðunum sem eru í þessari 10 ára áætlun. Ég minni á það alveg sérstaklega að við gerð þessarar áætlunar, sem var alveg sérstaklega vel unnin, ekki einungis tæknilega, heldur líka pólitískt og m.a.s. hafði þáv. samgrh. þann hátt á að velja alþýðubandalagsmann í þá nefnd sem það verk vann. Ég vil því hafa nokkur varnaðarorð í frammi þegar menn eru hér með stórar yfirlýsingar um endurskoðun á þeirri áætlun. Umfram allt ber að leggja áherslu á að standa við hana, en að öðru leyti er hún það vel unnin að hún er fullnægjandi sem slík miðað við þau áform sem þar eru lögð til grundvallar.