Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Hér er til umræðu till. til þál. á þskj. 39 sem er 37. mál þingsins, sem flutt var á síðasta þingi og er nú endurflutt. Ég hygg að ástæða þess að þessi tillaga var flutt á sínum tíma hafi verið svar sem ég gaf þá sem iðnrh. en í því svari komu fram upplýsingar um innflutning og endurbætur á skipum.
    Ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að ég kem hér í ræðustól nú er að í umræðum um þetta mál, sem hafa farið fram nokkrum sinnum með slitróttum hætti allt frá því snemma í haust, tók til máls hæstv. iðnrh. og svaraði fyrirspurnum sem til hans var beint. Ein þeirra var á þá leið hvort hv. alþm. yrði send skýrsla sú sem unnið hefur verið að á vegum breska ráðgjafarfyrirtækisins Appledore, en sú skýrsla átti að vera tilbúin í desember sl. Þá átti verkefnastjórn þessa verkefnis eftir að leysa sitt verk, en til stóð að það yrði unnið þá á næstu mánuðum og ef ég man rétt, a.m.k. punktaði ég það niður undir ræðu hæstv. ráðherra, var ætlunin að þeirri skýrslu yrði dreift hér á Alþingi í janúar. Nú langar mig til þess, virðulegur forseti, að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að janúar sé kominn og farinn í fyrsta lagi og í öðru lagi þá, ef hann telur að svo sé, hvort þessari skýrslu hafi verið dreift. Það hefur a.m.k. farið fram hjá mér. Ef henni hefur hins vegar ekki verið dreift, þá er mín spurning sú hvort það standi til og þá hvenær. Ég skal geta þess í leiðinni, virðulegur forseti, að ekki var minnst á neitt ártal þegar sagt var í janúar, en ég gerði ráð fyrir því að átt væri við árið 1989.
    Hitt er svo annað mál að í ræðu hæstv. forsrh., sem kölluð var tilkynning um efnahagsmál ef ég man rétt, kom fram að þessi skýrsla og úrvinnsla úr henni væri helsta iðnaðarmál þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég þarf ekki, virðulegur forseti, að endurtaka ræðu mína sem ég flutti um þetta mál fyrr í umræðunni. Þar gerði ég mjög ítarlega grein fyrir málinu eins og það kemur mér fyrir sjónir og benti á að þetta mál er öðru fremur málefni annars vegar sjútvrn. og hins vegar viðskrn. En nú vill svo vel til að sami maður gegnir bæði störfum iðnrh. og viðskrh.
    Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að óska eftir því á þessu stigi umræðunnar að hæstv. ráðherra svari þessari fyrirspurn sem ég hef beint til hans.