Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Þegar rætt var um ráðstafanir í ríkisfjármálum og hið sérstaka lántökugjald sem lagt var á erlend lán sem tekin yrðu vegna meiri háttar viðgerða eða endurbóta á skipum og það var lögfest að 6% lántökugjald yrði lagt á slík lán lýstu þeir því yfir, bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., að þeir mundu gera ráðstafanir til þess að þetta lántökugjald félli niður. Nú finnst mér fara vel á því undir þessum dagskrárlið að fá svar við því frá hæstv. iðnrh. hvort hann hyggist nú leggja fyrir þingið frv. til laga um breytingar á lögum til þess að hægt sé að fella niður lántökugjaldið, en það verður ekki gert með öðrum hætti. Eftir að Alþingi hefur fellt það með atkvæðagreiðslu að fella niður lántökugjald af lánum til slíkra verkefna er að sjálfsögðu óheimilt að fella það niður nema með því að atbeini Alþingis komi til. Ég veit um hinn ólýsanlega áhuga hæstv. iðnrh. á því að skipasmíðaiðnaðurinn megi ganga vel. Og eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. þegar hann talaði fyrir hinni svokölluðu efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar lagði hann einmitt ríka áherslu á það að fyrrv. iðnrh. hefði beitt sér fyrir því að erlendur maður gerði úttekt á skipasmíðaiðnaðinum, sem hæstv. forsrh. var mjög stoltur af, þannig að ég veit að í ríkisstjórninni stendur allur vilji til þess að við þessu megi verða.