Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. hafði talað tvisvar, þegar hann tók nú til máls varðandi þessa þáltill., þori ég að ábyrgjast.
    Ég vil aðeins taka það fram að hæstv. iðnrh. ætlar einungis að standa við hluta af því sem hann og hæstv. forsrh. lofuðu í Ed., og er auðvitað nauðsynlegt að orðtaka það til þess að athuga hvor man betur, en þar var fsp. mín til hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. skýr. Hún var um það hvort lán vegna meiri háttar viðgerða og endurbóta yrðu undanþegin lántökugjaldinu. Hæstv. iðnrh. tókst að fá ýmsa stjórnarþingmenn til þess að greiða atkvæði með frv. í Ed. einungis gegn því að gefa þetta loforð. Sömuleiðis var hæstv. fjmrh. knúinn til þess að gefa loforðið.
    Nú væri auðvitað fróðlegt, og skal ég taka upp annars staðar en hér í ræðustól nú, ég skal taka það upp annars staðar, en það verður auðvitað fróðlegt að kynna sér það hvaða sjónarmið einstakir stjórnarþingmenn hafa til þessa máls, hvort þeir eru sammála hæstv. iðnrh. um að það sé nægjanlegt að miða þetta við meiri háttar endurbætur. Þar að auki væri náttúrlega fróðlegt að fá um það sérstaka álitsgerð, hæstv. ríkisstjórn er alltaf að fá álitsgerð frá lögfræðingum, hvort þeir telji heimilt eftir að Alþingi hefur fellt í atkvæðagreiðslu tillögu þess efnis að lántökugjald falli niður af lánum vegna þessara verkefna, hvort ráðherrarnir geta hagað sér þannig að þeir láti sína stuðningsmenn fella brtt. þess efnis í þinginu, kúski þá til þess í nafnakalli og svo koma þeir eins og fínir menn hingað í sameinað Alþingi og segja: Nú ætla ég að gera tillögu um það að fella þetta niður og vera fíni og góði maðurinn. Þó að Alþingi hafi ekki viljað samþykkja það að ekki skuli leggja lántökugjald á verkefni sem unnin eru í skipasmíðastöðvunum og Alþingi hafi fellt tillögu um það, þá ætla ég að vera fíni maðurinn og ég ætla að gera þetta sem Alþingi vildi ekki gera. Eru þetta einhverjir mannasiðir? Eru þetta rétt vinnubrögð? Telur hæstv. ráðherra sig hafa heimild til þess uppi í Stjórnarráði að framkvæma eftirgjöf á opinberum gjöldum, gjaldtöku til ríkisins sem meiri hluti Alþingis hefur fellt hér í atkvæðagreiðslu? (Forseti hringir.) Ef svo er, ef hæstv. ráðherra telur sig hafa heimild til að gera slíka hluti, hversu vítt og breitt telur ráðherrann sig þá geta farið? (Forseti hringir.) Hversu vítt og breitt og hvaða máli skiptir þá yfirleitt handaupprétting á Alþingi eða nafnakall ef ráðherrann getur valsað svona um að eigin geðþótta um lagasafnið eins og við hérna skiptum engu máli? (Forseti hringir.) Ég held að hæstv. forseti ætti að reyna að slá svolítið --- ekki til, ekki vil ég segja það, en tuska svolítið til hæstv. ráðherra heldur en áminna þingmenn þegar þeir eru að reyna að halda uppi virðingu þingsins.