Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, enda finnst mér málið náttúrlega mikilsvert en það er búið að vera langt. Það er búið að vera hér til umræðu, ef svo mætti segja, í þinginu ég man ekki hvað marga mánuði og því held ég að það sé orðið tímabært að ljúka því hér í sölum Alþingis og koma því til nefndar.
    Ég verð að segja það að ég fagna yfirlýsingu hæstv. iðnrh. sem hann gaf hér áðan, þar sem hann hét því að jafna aðstöðu íslensks skipaiðnaðar gagnvart erlendum þannig að íslenskar skipaiðnaðarstöðvar búi við sambærilega stöðu og erlendar og að íslenskir útvegsmenn njóti sömu fyrirgreiðslu með skipaiðnaðarverk séu þau unnin hér heima sem erlendis væru. Það er megintilgangur minn með flutningi þessarar tillögu og undir það hefur hæstv. iðnrh. tekið.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði satt að segja að gera það að tillögu minni án þess að spyrja forseta að því hvort það væri ekki rétt meðferð að vísa málinu til atvmn. Leyfist mér ekki að gera tillögu um það?