Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56 frá 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Frv. er þáttur í þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur kunngjört um umþóttun í verðlagsmálum nú þegar tímabundinni verðstöðvun lýkur. Það er mikilvægt að beita árvökulu verðlagseftirliti á þessum umþóttunartíma til þess að styrkja markaðsstöðu neytenda, en það er einmitt tilgangur verðlagseftirlitsins við nútíma viðskiptaskilyrði að styrkja stöðu neytenda á markaðinum sé á þá hallað og bæta upplýsingar um verð og verðbreytingar.
    Verðstöðvunin, sem sett var á á grundvelli ákvæða í verðlagslögum í lok ágúst á síðasta ári og framlengd í lok september til 28. þ.m., hefur tekist vonum framar eins og sjá má af því að síðustu þrjá mánuði ársins sem leið hækkaði verðlag á mælikvarða framfærsluvísitölu aðeins um 0,7% sem svarar til innan við 2 1 / 2 % árshraða verðbólgunnar. Þennan árangur af verðstöðvuninni má án efa rekja til þess að því var lýst yfir strax í upphafi að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða á grundvelli gildandi laga. Þetta er reyndar í fyrsta sinn sem verðstöðvunarákvæðum verðlagslaganna frá 1978 er beitt á þennan hátt og verður ekki annað séð en að það hafi tekist vel. En að mínu áliti er það forsenda árangurs að slík íhlutun sé einungis tímabundin og sé þáttur í víðtækum efnahagsráðstöfunum eins og reyndar segir í 7. gr. verðlagslaganna sem er lagagrundvöllur þessarar verðstöðvunar. Það er fyrir því löng reynsla að varanleg verðstöðvun skilar litlum sem engum árangri og getur reyndar snúist í andhverfu sína eins og mörg dæmi eru um í okkar verðlagssögu, að á tímum þar sem verðstöðvun og hart verðlagseftirlit var í gildi árum, jafnvel áratugum saman komst verðbólgan í himinhæðir svo óþolandi var.
    Eins og nú stendur á er nauðsynlegt að nokkur umþóttun verði í kjölfar verðstöðvunar en um leið að komið verði í veg fyrir að sprengihækkun verði á verðlagi í greinum þar sem markaðsstaða neytenda er veik, þar sem markaðsráðandi fyrirtæki eða einokunarfyrirtæki geta ráðið lögum og lofum þegar litið er til skamms tíma. Þetta er tilgangur þessa frv. en í leiðinni er svo bætt við brtt. sem til eru komnar vegna þess að oft hefur reynst erfitt að ná saman löglegum fundum í Verðlagsráði með skömmum fyrirvara og ákvæðum sem ég tel mjög mikilvæg, að herða á upplýsingaskyldu þeirra sem verðlagseftirlitið tekur til.
    Í 1. gr. frv., svo að ég snúi mér nú að einstökum atriðum þess, er lagt til að heimilt verði að skipa tvo varamenn fyrir hvern af þeim aðalmönnum sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningu ýmissa samtaka ef þess er óskað. Taka þá varamenn sæti í ráðinu í þeirri röð. Hér er auðvitað ekki um veigamikla breytingu að ræða og tillagan er eingöngu gerð vegna ítrekaðra tilmæla forustumanna þessara tilnefningaraðila, einkum

þó Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins en eins og kunnugt er hafa þessi sambönd oft mikil umsvif, standa í langvinnum samningum og eiga einatt erfitt með að mæta á fundi Verðlagsráðs með skömmum fyrirvara, en oft kann að vera nauðsynlegt að kalla það saman án þess að mikill fyrirvari sé á slíku fundarboði.
    Í 2. gr. frv. er nokkurt nýmæli en þar er hert á eftirrekstri með því að Verðlagsstofnun fái þær skýrslur og gögn sem hún óskar eftir og sem nauðsynlegt er að fá til þess að hún geti rækt sitt hlutverk. Það eru ákvæði um dagsektir sem nú eru í lögum. Þau hafa reynst heldur lítilvirk og ekki skilað þeim árangri sem Verðlagsstofnun leitar eftir. Hér er lagt til að dagsektaákvæði falli niður en vanræksla á skilum og upplýsingum varði sömu viðurlögum og önnur brot á verðlagslögunum sem gerir sem sagt upplýsingaskylduna jafnsetta brotum á sjálfum verðlagsákvæðunum.
    Í 3. gr. frv. er svo lagt til, og það er kannski það sem helst er þörf á að ræða, að verðlagning orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna falli undir ákvæði verðlagslaga tímabundið, um sex mánaða skeið, eftir að verðstöðvun lýkur. Orkufyrirtækin eru einokunarfyrirtæki í mjög ríkum mæli og mikilvægt að þau lúti hinum almennu verðlagsreglum sem settar eru nú á þessum umþóttunartíma í kjölfar verðstöðvunar. Það er rétt að fyrirtækin lúta pólitískum stjórnum sem eru valdar af sveitarstjórnum og í sumum tilfellum af ríkinu. Þótt þetta sé svo er við því hætt að hver og ein slík stjórn hafi ekki þá yfirsýn sem verðlagsyfirvöldum er ætlað að hafa. Vegna gengisbreytinga og hækkana á kostnaði þurfa orkufyrirtækin mörg hver að fá hækkun á sínum gjaldskrám, en það er mikilvægt að þeirri hækkun verði haldið við hóf eins og frekast er kostur, eins og nú stendur á, og í því sambandi er nauðsynlegt að huga að þeim forsendum sem liggja til grundvallar fjárhagsáætlunum þeirra fyrir þetta ár. Það má segja að hér sé um tilraun að ræða að fela Verðlagsráðinu og Verðlagsstofnun að fjalla um verðlagningu innlendra orkufyrirtækja í stað þess að fjalla um verðlagsmálin í iðnrn. Ég tel mikilvægt að þessi tilraun verði gerð því að tilsjón iðnrn. með orkuverði hjá dreifiveitum og öðrum orkufyrirtækjum er fyrst og fremst hugsuð til þess að tryggja að verðlagið sé nóg til að standa undir kostnaði til að tryggja þessa mikilvægu þjónustu. Hins
vegar er það líka nauðsynlegt við þær aðstæður sem nú ríkja, með alla kjarasamninga lausa og margar verðákvarðanir óráðnar, að sjónarmið fulltrúa atvinnulífsins sem aðild eiga að Verðlagsráðinu og oft og einatt hafa kvartað undan því að opinber fyrirtæki eins og orkufyrirtæki hafi sjálftöku um sínar gjaldskrár fái þá að koma fram á þessum almenna verðlagsvettvangi, þ.e. að fulltrúar atvinnuvega og verkalýðssamtaka geti látið koma fram þau sjónarmið sem þeir vilja hafa í frammi þegar þessar verðákvarðanir eru teknar, en á undanförnum árum er það ekki síst gagnrýni frá þeim, þ.e. fulltrúum

atvinnuveganna og verkalýðssamtakanna, á það sem þeir hafa viljað kalla sjálfteknar hækkanir hjá opinberum fyrirtækjum eins og orkufyrirtækjum sem oft hafa valdið vanda við gerð kjarasamninga, til þess að vekja traust með mönnum á því að sama gangi yfir alla, að eitt gangi yfir alla í verðlagsmálum. Þess vegna er þessi tilraun gerð með orkufyrirtækin og ég vona að þarna fái þá að mætast þessi sjónarmið sem ég hef lýst í mínu máli í örfáum orðum.
    Um gjaldskrá fyrir aðra opinbera þjónustu er það að segja að hún er yfirleitt niðurgreidd af ríki eða sveitarsjóðum og er því erfitt fyrir verðlagsyfirvöldin að taka afstöðu til verðs á henni og varla á þeirra færi að gera það þannig að aukinn halli myndist hjá viðkomandi sveitarstjórn eða stjórnvaldi. Hins vegar hefur ríkisstjórnin ákveðið, með tilliti til þess hversu mikilvægt það er að vekja mönnum traust á því að verðlag æði nú ekki upp hér í kjölfar verðstöðvunar, að taka upp viðræður við sveitarstjórnirnar um að þær haldi hækkun þjónustugjalda við hóf eins og mögulegt er nú á þessum óvissutímum og að þetta samráð fari fram sem fyrst.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því á mánudag sem fjallaði um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar var Verðlagsráði og Verðlagsstofnun sérstaklega falið að fylgjast með verðákvörðunum einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækja. Jafnframt var þeim falið að fylgjast náið með verðlagsþróun í einstökum greinum og beita tímabundið ýtrustu heimildum verðlagslaga ef verðlagshækkanir verða umfram það sem brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til. Þetta er enn byggt á því meginsjónarmiði, sem ég lýsti í upphafi minnar ræðu, að það sé hlutverk Verðlagsstofnunar og Verðlagsráðs að styrkja stöðu neytenda á markaðnum, sérstaklega þar sem á þá er hallað og þar sem einokunarfyrirtæki eða markaðsráðandi fyrirtæki eru alls ráðandi og geta sett mönnum verð til skamms tíma án tillits til þess hvernig aðstæður eru að öðru leyti.
    En í þeim ákvæðum sem ég hér vitna til felst það að verði verðlagsyfirvöld vör við hækkun sem ekki virðist unnt að rökstyðja með kostnaðarhækkun eða mjög erfiðri stöðu fyrirtækjanna og ekki tekst samkomulag um að stöðva slíka hækkun verður ákvæðum 8. gr. verðlagslaganna beitt eftir því sem við á, en í henni segir m.a. og ég vitna til hennar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú er samkeppni takmörkuð að mati verðlagsráðs á sviði þar sem verðlagning er ekki undir verðlagsákvæðum, eða samkeppni er ekki nægileg til að tryggja sanngjarnt verðlag eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, og getur þá ráðið ákveðið`` hámarksverð, hámarksálagningu, verðstöðvun o.s.frv. eins og greinir í þessari lagagrein og beinist þá að einstakri atvinnugrein eða fyrirtæki eftir því sem til stendur hverju sinni.
    Eðli málsins samkvæmt mun eftirlitið beinast með mestum þunga að greinum þar sem samkeppni er takmörkuð af markaðsráðandi fyrirtækjum og --- og það er mjög mikilvægt --- þar sem gjaldskrár eru

ákveðnar af samtökum heilla starfsgreina. Verðlagsyfirvöld munu á næstu dögum móta nánar framkvæmd þessa máls, en það er ljóst að fylgst verður náið með fyrirtækjum í samgöngum, byggingariðnaði, innlendum iðnaði og stærri verslunarfyrirtækjum. Þá falla undir þetta ýmsar þjónustugreinar, ekki síst taxtar tannlækna, arkitekta og annarra háskólamenntaðra sérfræðistétta sem að mörgu leyti má segja að séu hin sönnu einokunarfyrirtæki í nútímaþjóðfélagi og séu á sinn hátt eins og arftakar iðngilda miðaldanna hvað varðar gjaldskrárákvarðanir og einokun á markaði. Hér er sannarlega þörf fyrir íhlutun almannavaldsins til þess að styðja neytendur.
    Virðulegi forseti. Ég legg á það áherslu að frv. hljóti skjóta en vandaða meðferð hér í deildinni og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Það er mikilvægt að mínu áliti að ljúka þessu máli sem fyrst til þess að Verðlagsráð og Verðlagsstofnun geti lagt línur um framkvæmd verðlagsmála í kjölfar verðstöðvunar í tæka tíð.