Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að segja mörg orð um þetta mál hér við 1. umr., enda ber þennan fund brátt að. Hins vegar sýnist mér að þetta sé að ýmsu leyti hið ágætasta mál og gefst vonandi tækifæri til þess að kanna það nánar í meðferð fjh.- og viðskn. því ætlunin með þessum fundi er fyrst og fremst að koma þessu máli til nefndar.
    Það hlýtur að þurfa að styrkja Verðlagsstofnun til þess að hún geti haldið uppi markvissu og árangursríku eftirliti og stutt við þá verðstöðvun sem á að ríkja. Það hefur sannarlega sýnt sig að hún hefur ekki tekist sem skyldi þann tíma sem hún hefur átt að gilda. Það má segja að það hafi að ýmsu leyti mistekist. Kannski þarf talsvert meira til lagfæringar en þessar veigalitlu breytingar sem hér er verið að gera, smálagfæringar. Mér þykir það þó sjálfsagt að fleiri varamenn taki sæti í Verðlagsráði þannig að tryggt sé að hægt verði að halda fundi þegar með þarf því að það er sjálfsagður liður í starfsemi stofnunarinnar. En vegna ókunnugleika vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Þegar verið er að bæta við starfsliði á þennan hátt, sem ég út af fyrir sig tel sjálfsagt að gert verði til að stofnunin geti starfað eðlilega og tek gildar þær skýringar sem gefnar voru, eru þá allir þessir menn á launum eða fá þeir greitt fyrir fundarsókn? Spurning mín er einfaldlega sú: Er meiru kostað til en stofnuninni tekst að spara almenningi?
    Varðandi 3. gr. finnst mér eðlilegt að verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum sé undir verðlagseftirliti eins og margt annað sem almenningur þarf að kaupa. Og þó að það sé rétt sem kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. að margar hitaveitur eigi í erfiðleikum með rekstur sinn, þá er þó ansi stöndugt fyrirtæki þar sem Landsvirkjun er og eðlilegt að það hlíti ákvæðum þessara laga eins og mörg önnur þjónusta sem kaupa þarf.
    Ég ætla þá ekki að hafa nein fleiri orð um þetta mál í 1. umr. Okkur fulltrúum Kvennalistans mun gefast tækifæri til að kynna okkur meðferð þess í hv. fjh.- og viðskn.