Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég vildi eingöngu fá að reyna að svara því sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykv.
    Það er rétt, sem á er bent, að það hefur ekki alltaf verið samræmi milli verðákvarðana hjá einkafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum. Einmitt þess vegna er gerð tillaga um að taka orkufyrirtækin tímabundið undir sömu regluna til þess að þau sjónarmið, sem fram komu í máli hv. 8. þm. Reykv., fái að mætast þar.
    Það er líka rétt, sem fram kom í máli hv. þm., að það er erfitt verk að meta hvað séu brýn kostnaðartilefni og hvað sé erfið afkoma. Eðlilega er Verðlagsstofnun og Verðlagsráði sem fagaðilum falið að útkljá þetta en ekki ákveðið fyrir fram í eitt skipti fyrir öll í miðjunni. Það er einfaldlega ekki hægt. Því er þetta sett upp svona.
    Að endingu spurði hv. þm. um hvað við væri átt þegar nefnd væru markaðsráðandi fyrirtæki eða jafnvel einokunarfyrirtæki. Þá get ég nefnt fyrirtæki eins og Flugleiðir, Eimskip og steypustöðvarnar þar sem mjög fá fyrirtæki í heilli starfsgrein ráða mestu um það sem þar gerist. Að sjálfsögðu þarf að fylgjast sérstaklega með verðákvörðunum slíkra aðila við þær aðstæður sem nú ríkja.