Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það féll niður hjá mér að víkja að þeim orðum hv. 3. þm. Vesturl. þar sem hann var að tala um dráttinn sem orðið hefur á því að afgreiða lánsfjárlög. Hann lét í það skína að það væru fyrir því einhverjar sérstakar ástæður. Ég veit ekki hvort ég á að taka það svo að þar hafi stjórnarandstaðan verið völd að, þau orð viðhafði hann ekki. En vegna þess að þetta var ekki skýrt til fulls hjá honum, en honum þótti hins vegar ástæða til þess að koma þessu á framfæri, er það augljóst mál að ríkisstjórnin ákvað að tekið skyldi lengra jólafrí en áður hefur þekkst vegna þess að hún þyrfti að halda svo langa og stranga fundi um efnahagsmál. ( Menntmrh.: Það var nú stutt jólafríið, Egill.) Það var framlengt, hæstv. menntmrh. Mér finnst alveg nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að ef á að fara að finna einhvern sökudólg í þessum efnum, sem ég fæ nú ekki séð, þá er það ríkisstjórnin og hennar stuðningslið.