Ástand í raforkumálum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar fsp. sem málshefjandi beindi til mín varðandi ástand símakerfisins í þessum veðraham og rafmagnsbilunum undanfarna daga vil ég taka það fram að almennt hefur símakerfið staðið sig vel, bæði á meðan á rafmagnstruflunum stóð og einnig í þeim óveðrum sem geisað hafa á landinu undanfarið. Þannig hefur örbylgjukerfið, sem er burðarás símakerfisins milli staða, algjörlega staðið sig án bilana allan tímann. Allt fjarskiptakerfið í heild sinni gengur fyrir rafmagni frá rafmagnsveitum, en til öryggis í rafmagnstruflunum hefur verið komið upp nær alls staðar rafgeymum og á nokkrum stöðum dísilrafstöðvum til viðbótar. Því er þó þannig háttað að við mjög langt rafmagnsleysi geta rafgeymar tæmst og símasambandið rofnað.
    Á símstöðinni í Gröf í Miklaholtshreppi tæmdust rafgeymar stöðvarinnar eftir um 19 klukkustunda rafmagnsrof. Rétt er að taka fram að á Gröf er auk símstöðvar farsímamóðurstöð og einnig fjölrásastöð eða línustöð fyrir sambönd milli staða. Allar þessar stöðvar ganga á sömu rafgeymum og skýrir það að hluta til að einungis 19 klukkustundir tók að tæma geymana en yfirleitt er miðað við að þeir hafi lágmarksendingartíma upp á sólarhring.
    Á símstöðinni í Steinum fyrir Eyjafjallahreppa uppgötvaðist bilun fyrir viku síðan sem athugun hefur sýnt að er í varaaflskerfi stöðvarinnar. Þetta leiddi til þess að þegar rafmagn fór af, þá datt stöðin þar út þar sem varaaflskerfið var ekki í lagi. En vegna ófærðar á þessu svæði hefur ekki tekist að koma sérfræðingum með sérhæfðan búnað til að gera við þessa truflun í varaaflskerfinu.
    Þá má geta þess að á Vestfjörðum hefur í nokkra daga verið bilaður sæsími yfir Skutulsfjörð sem tengir Súðavík við Ísafjörð, en veður hefur þar einnig hamlað viðgerðum. Þessi bilun er í sjálfu sér algerlega óháð rafmagnstruflunum.
    Í gær laust eldingu niður í fjarskiptastöðina á Háöxl í Öræfasveit og við það varð sambandslaust við Öræfasveit að undanskildum Kvískerjum sem hafa sér-radíósamband við Höfn í Hornafirði. Og þó að elding sé vissulega tengd rafmagni þá verður hún ekki beint rakin til bilana í raforkukerfinu sjálfu. En á öllum þessum stöðum er unnið að viðgerð nú í dag.
    Þá má geta þess að í dag eru að tæmast rafgeymarnir á Tjaldanesi í Arnarfirði og við það rofnar sambandið milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar, en einnig radíósambandið við Ketildali í Arnarfirði. Þarna hefur verið rafmagnslaust lengi en þess ber þó að geta að báðir þessir staðir hafa áfram samband við Reykjavík.
    Samband milli Íslands og annarra landa rofnaði þrisvar milli kl. 17 og 21 í gær, samtals í 78 mín., vegna rafmagnstruflana á jarðstöðinni Skyggni. Skyggnir er mannlaus um helgar en strax og rafmagnslaust varð fóru menn á staðinn. Fyrsta bilun tók 69 mín. eða rof varð í 1 klst. og 8 mín. Ef úthald Skyggnis er tekið á ársgrundvelli er þetta 0,1% rof.

Bilunin var í stórum sendivörpurum sem slá út ef spenna breytist, hækkar eða lækkar. Í Skyggni er vararafstöð en unnið er að því að koma upp fjarstýrðri stjórnun frá Múlastöð. Þá verður hægt að keyra Skyggni inn sjálfvirkt ef hann slær út.
    Sú spurning vaknar hvort ekki þurfi að hefja undirbúning að byggingu annarrar jarðstöðvar, e.t.v. á öðru landshorni, eftir að allir sæstrengir eru komnir úr notkun. Síðustu sæstrengirnir fóru út í janúar 1988. Það er ekki síst Flugmálastjórn sem er áhyggjufull í þessu sambandi.
    Allt sæstrengjasamband er nú orðið ónýtt og jarðstöðin Skyggnir er nánast okkar einasti tengiliður við umheiminn hvað fjarskipti snertir. Þessi mál eru nú til athugunar hjá Pósti og síma og mér þykir líklegt að sú athugun leiði til þess að stefnt verði að því að byggja nýja jarðstöð.
    Þá vil ég eingöngu ljúka þessu með því að segja að ég tel að að sínu leyti sé það alvarlegast þessara mála ef truflanir verða á talsímasambandi okkar við útlönd vegna rafmagnsleysis og ég vona að sú vinna sem í gangi er til þess annars vegar að útbúa betur tæknilega þá jarðstöð sem nú er notuð og hins vegar könnun á því hvort nauðsynlegt sé að reisa aðra stöð til öryggis í þessum efnum leiði sem fyrst til farsællar niðurstöðu.
    Rekstraröryggi hefur aukist til muna og truflanir urðu í raun hverfandi miðað við það sem mátt hefði búast við til að mynda hér á Reykjavíkursvæðinu við sambærilegar aðstæður fyrir 10--15 árum síðan þegar rafgeymar símakerfisins hér dugðu tæplega til að halda símasambandi í eina klukkustund. Í heild má því segja að símakerfið hafi staðið sig vel, miklu betur en vænta mátti.