Kynferðisleg misnotkun á börnum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fá að þakka fyrir þær jákvæðu undirtektir sem þessi till. hefur fengið. Ég get reyndar tekið undir flest ef ekki allt sem hv. þm. hafa sagt.
    Hv. 6. þm. Reykv. efaðist um að það yrði einfalt mál að gera slíkar kannanir og undir það tek ég að sjálfsögðu heils hugar. Það er afskaplega erfitt en ég tel brýnt að það verði reynt með öllum tiltækum leiðum og ráðum. Hvort sem það er í því formi sem hér er lagt til eða ekki þá má það einu gilda fyrir mig, málið fyrir mig er að það komist hreyfing á það og það sé reynt að sporna við þessum hlutum eins og frekast er unnt. Hvort þessi fræðsla ætti að fara inn í grunnskólana eða ekki það er heldur ekki heilagt mál fyrir mig og sjálfsagt rétt að frekar eigi að stefna þessu að verðandi foreldrum og þar af leiðandi inn á framhaldsskólastigið. Engu að síður er sá eini bæklingur, ef það má kalla hann námsefni, sem gefinn hefur verið út og heitir ,,Líkami minn``, notaður í leikskólum Reykjavíkurborgar þannig að þar er nú strax byrjað að reyna að fræða börnin þó lítillega sé. En það er sem sagt ekkert hitamál fyrir mig hvar þetta fer fram. Ég er að leita að árangri í þessu málefni.
    Það hafa verið boðaðar hér lagabreytingar sem að einhverju leyti koma inn á þetta málefni. Ég fagna þeim að sjálfsögðu og vona að þær fái skjóta umfjöllun hér í þinginu og verði að lögum sem allra fyrst. En lagasetning sem slík kemur aldrei í veg fyrir þessi afbrot þannig að það sem við verðum að horfa á númer eitt, tvö og þrjú hlýtur að vera forvarnarstarf og hvernig við getum komið í veg fyrir að þessi afbrot eigi sér stað.
    Ég fagna því að Sjálfstfl. hafi flutt bæði frv., till. og fsp. um þetta mál. Það sýnir að þingmenn eru vakandi fyrir þessu, hafa áhyggjur af þessum málaflokki og eru allir af vilja gerðir til þess að takast á við þann vanda.
    Það er í sjálfu sér ekki mikið meira um þetta að segja. Það er nauðsynlegt að þessi umræða fái að fara fram og fái að fara fram fyrir opnum tjöldum. Það var að vísu ein spurning frá hv. 8. þm. Reykv. um það hvort tillagan ætti við um öll kynferðisafbrot gagnvart börnum, hvers eðlis sem þau væru. Að sjálfsögðu gerir hún það, enda er tillagan þannig orðuð að þó að ég hafi að vísu fjallað um það meira sem sifjaspell þá er að sjálfsögðu átt við öll kynferðisafbrot gagnvart börnum. Þannig að það staðfestist þá hér með.
    Svarið við fsp. hv. 6. þm. Reykn. hef ég undir höndum og hef kynnt mér og er það að sjálfsögðu þarft og gott innlegg fyrir þann starfshóp sem vonandi kemur út úr þessu og ber að fagna þeirri fsp.
    Ég held ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál.