Sparnaðarátak
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér liggur fyrir í Sþ. er góðra gjalda verð. Hún fjallar að mínu áliti fyrst og fremst um þrennt. Það er í fyrsta lagi að nauðsynlegt sé að samræma skattareglur hvað varðar skattlagningu tekna af fjármagnseignum ýmiss konar þannig að sama skattlagning gildi eftir því sem við verður komið um allar tegundir eigna á fjármagnsmarkaðnum. Í öðru lagi fjallar hún um þörfina fyrir það að bjóða upp á hæfileg skilyrði fyrir almenning til þess að eignast hlutafé í fyrirtækjum sem eitt form sparnaðar sem er reyndar önnur hlið þess máls sem ég nefndi fyrst. Í þriðja lagi að innlendur sparnaður verði best örvaður með því að koma á jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og viðhlítandi skilyrði fyrir sparnað séu þá best að þar ríki stöðugleiki. Og í fjórða lagi er svo það sem ég vildi kalla fræðslustarfsemi um vaxtakerfið og um þá sparnaðarkosti sem í boði eru. Það er ekki vafi á því að það er mikil þörf á því að upplýsa allan almenning um það hvað felist í þeim margbreytilegu vaxtakjörum sem í boði eru á fjármagnsmarkaðnum. Ég tel reyndar rétt að leggja meiri skyldur á fyrirtækin sem þar starfa hvað varðar þetta síðasta atriði. Ég tel það gagnlegt að um þessa till. verði fjallað í nefnd og hún þar rædd.
    Sannleikurinn er þó hins vegar sá að þetta er ekki mál sem er vel til þess fallið að taka á því sérstaklega heldur liggur lausnin í því að almennt sé tekist á við efnahagsmálin, sköpuð almenn skilyrði fyrir stöðugt verðlag og hæfilega ávöxtun fjár. Það er einmitt tilgangur þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað í peninga- og vaxtamálum sem miðar að því að lækka raunvexti þegar til lengdar er litið og draga þannig úr fjármagnskostnaði fjölskyldna og fyrirtækja. Í þessu felst hins vegar alls ekki að draga úr hvatanum fyrir sparifjáreigendur að varðveita sitt sparifé á hæfilegum vöxtum, því þegar til lengdar lætur fara hagsmunir sparifjáreigenda og lántakenda saman. Ósanngjarnar leikreglur á fjármagnsmarkaðnum leiða í sjálfu sér til mikillar óvissu um langtímaávöxtun sparifjár þótt ávöxtunin geti verið rífleg til skamms tíma litið. Þetta er e.t.v. það vaxtavandamál í hnotskurn sem við höfum glímt við á sviði stjórnmálanna undanfarin missiri. Þetta á bæði við hvað varðar fyrirkomulag vaxtaákvarðana og vísitöluviðmiðun í verðtryggðum lánssamningum. Hér er ekki eingöngu spurt um efnahagsmál, heldur líka um stjórnmál. Ef veilur eru í markaðnum, ef hann stuðlar ekki að eðlilegri vaxtamyndun, þá er það skylda stjórnvalda að rétta hlut þeirra sem halloka fara. Það er einmitt þetta sem stjórnin vill nú beita sér fyrir, að bæta virkni markaðarins --- í bráð með íhlutun ef þörf krefur en í lengd með því að opna markaðinn fyrir aukinni samkeppni. Þetta er kjarni þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur myndað. Hún mun líka þegar litið er fram á við örva til þess sparnaðar sem er nauðsynlegur til þess að hér geti náðst viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og viðunandi jafnvægi í efnahagsmálum yfirleitt.

    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vildi ég taka undir það með flm. að um tillöguna verði fjallað í nefnd og hún komi hér til atkvæða.