Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Í 2. gr. frv. er komist svo að orði um umfjöllun bankaráðs um vexti eða kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa að bankaráðið skuli gæta þess ,,að ávöxtunarkrafa bankans sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána hans í hliðstæðum áhættuflokkum``.
    Ég vil vekja sérstaklega athygli á orðunum ,,í hliðstæðum áhættuflokkum`` vegna þess að það gefur auga leið að þær kröfur sem þarna er verið að kaupa eru oft og tíðum áhættusamari, ekki jafngóðir pappírar eins og aðrar skuldbindingar sem bankinn er með í sinni eignahlið. Þetta tel ég mikilvægt að menn athugi. Og þess vegna tel ég ekki nauðsynlegt að álykta að þetta muni gjörbreyta viðskiptum bankanna. Þetta er fyrst og fremst til þess hugsað, en fer auðvitað eftir því hvernig bankaráðin halda á þessu, að það sé ekki hulduvaxtakerfi í bankakerfinu; að bankaráðin taki eingöngu afstöðu til stefnumótunar varðandi hina opinberlega birtu vexti en síðan séu einhvers konar allt aðrar kröfur gerðar til kannski jafngóðra pappíra og það er það mikilvæga í málinu að bankaráðið og bankastjórnin geti ekki skotið sér hjá því að leggja þessa hluti á sama borð.
    Ég er sannfærður um að það getur oft og einatt verið ástæða til þess að hafa þarna önnur kjör og ríkari ávöxtunarkröfur vegna áhættu sem í því kann að vera fólgin að liggja með slíkar skuldaviðurkenningar. Þetta er matsatriði. Ég held hins vegar að það sé mjög óheilbrigt að það sé klofinn markaður í bönkunum og sé ekki neina sérstaka ástæðu til að ætla að þetta muni út af fyrir sig valda því að viðskipti færist yfir á ,,gráan`` eða ,,svartan markað``. Reyndar vil ég benda á að í meðförum fjh.- og viðskn. Nd. mun bætast í frv. til laga um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði og um eignarleigu ákvæði sem gefa Seðlabankanum vissan íhlutunarrétt um vaxtaákvarðanir á þeim markaði ef Seðlabankinn hlutast til um vexti í bankakerfinu, einmitt með sama sjónarmiði, að hliðstæðir áhættuflokkar sæti hliðstæðum vaxtakjörum. Ég veit að þetta er ekki auðvelt í framkvæmd en hef þá trú að það eitt að það vaki í veðri að eftir þessu skuli litið muni laga vaxtaákvarðanirnar að þessu leyti. Þarna eru engin einföld ráð til.
    Ég minni á að bæði Félag ísl. iðnrekenda og Verslunarráðið, og er þó hvorugt félagið mikið fyrir það gefið að ríkið hlutist til um vaxtaákvarðanir, hafa skriflega oftar en einu sinni farið fram á það við viðskrh. að hann hlutist til um þessi vaxtakjör einmitt í þeim anda sem hér eru gerðar tillögur um, þ.e. að jafnræði gildi um þessar og aðrar vaxtakröfur bankanna.
    Ég held reyndar að eftir að samræmdar voru dagsetningar á eindaga söluskatts og greiðsludegi greiðslukorta hafi létt nokkuð af þrýstingi á þessum affallamarkaði. Ég tel líka að þær heimildir sem ég veitti í byrjun ársins almennt til þess að taka erlendan greiðslufrest við innflutning til landsins hafi einnig orkað til þess að draga úr viðskiptum með miklum afföllum á svona skammtímakröfum. Allt verður þetta

mál að skoðast í heilu lagi. Hér er fyrst og fremst áminning um það að við stefnumótun bankaráðanna sé litið á allt málið en ekki hluta af því og það sé enginn huldufólksmarkaður í bönkunum.